Stutt geldstöðutímabil kemur niður á nytinni !

Flokkar: Bústjórn
24. mars 2004

Stutt geldstöðutímabil kemur niður á nytinni !

Stutt geldstöðutímabil kemur niður á nytinni

Ef geldstöðutímabil er styttra en 5 vikur minnkar nytin töluvert mikið, en lítill hagnaður verður ef það er lengt upp í meira en 7 vikur.

 

Það er hægt að rökræða endalaust um hvaða þýðingu lengd geldstöðutímabils hefur. Óvissa hefur ríkt um hvort nútíma kýr með háa nyt hafi sama sveigjanleika með lengd geldstöðutímabils eins og áður og jafnframt benda erlendar niðurstöður í ólíkar áttir. Þess vegna fór blaðið Dansk Kvæg í að rannsaka hvaða þýðingu lengd geldstöðutímabils hefur á nyt og heilbrigði. Rannsóknin er byggð á skýrsluhaldsgögnum frá 350.000 kúm af SDM-DH, RDM og Jersey kyni.

 

Stutt geldstöðutímabil minnka nyt.

Þegar geldstöðutímabilið er undir 5 vikum, minnkar nytin umtalsvert hjá öllum kúakynjum og aldurshópum á næsta mjaltaskeiði. Þegar borin eru saman 6-7 vikna og 2-3 vikna geldstöðutímabil, er nytin rúmlega 2 kg minni á dag eftir styttra geldstöðutímabilið. Að lengja geldstöðutímabilið úr 7 vikum í 10 vikur hefur lítil sem engin áhrif á nytina. Hjá þeim kúm sem mjólkuðu lítið þegar geldstaða hófst, eða undir 15 kg á dag, hafði of langt geldstöðutímabil bein neikvæð áhrif á nytina. Aftur á móti sáust mestu jákvæðu áhrifin af að lengja geldstöðutímabilið úr 7 vikum í 10 hjá yngri kúm og kúm með háa nyt við geldstöðu (yfir 20 kg á dag).

 

Stutt geldstöðutímabil gefur hærri próteinprósentu.

Rannsóknin sýnir fram á að lengd geldstöðutímabils hefur áhrif á próteinprósentuna. Þeim mun lengra geldstöðutímabil þeim mun greinilegra fall sést á próteinprósentunni. Það er aðallega á mjög stuttum geldstöðutímabilum, undir 4 vikum, sem hægt er að sjá merkjanlega aukningu á próteinprósentu. Prósentan hækkar einnig um 0,05 einingar ef geldstöðutímabil er stytt úr 7 vikum í 4.

 

Hærri frumutala á styttri geldstöðutímabilum.

Eftir því sem geldstöðutímabilið lengdist, lækkaði frumutalan. Þetta átti sérstaklega við um eldri kýr. Þegar bornar voru saman kýr af SDM-DH kyni, annars vegar með þriggja vikna geldstöðutímabil eða styttra og hins vegar með 14 vikna geldstöðu eða lengra kom í ljós um það bil 50.000 frumna munur á frumutölu. Einnig bar á því að eftir því sem geldstöðutímabilið lengdist, fækkaði þeim kúm sem þurfti að meðhöndla við júgurbólgu.

 

Engin hagkvæmni í stuttum eða löngum geldstöðutímabilum.

Besta geldstöðutímabilið miðast við að vega glataða mjólkurframleiðslu, sem afleiðingu af því að gelda snemma, upp á móti aukinni mjólkurframleiðslu á næsta mjaltaskeiði. Útreikningar sýna fram á að hagkvæmasta lengd geldstöðutímabila er á bilinu 5-7 vikur.

Jafnvel hjá kúm með háa nyt við geldingstöðu er engin fjárhagslegur hagnaður í að hafa geldstöðutímabilið lengra en 7 vikur. Hagnaðurinn verður enn meiri af þessum kúm á næsta mjaltaskeiði, en einnig minnkar framleiðslan á þessu mjaltaskeiði vegna þess að þessar kýr eru í hárri nyt við upphaf geldstöðu. Hægt er að velta fyrir sér 6 vikna geldstöðutímabili fyrir kýr með lága nyt og í góðum holdum við upphaf geldstöðu, ef að góð stjórnun er á geldstöðuaðferðarfræði í hjörðinni.

7 vikna geldstöðutímabil þýðir að kýrnar skulu vera hættar að framleiða mjólk þegar 49 dagar eru að burði.

 

Landssamband kúabænda, febrúar 2004

Þýtt og endursagt úr ársskýrslu Dansk Kvæg 2003.