Flokkar: Kjötframleiðsla og bústjórn
24. mars 2006

 

Láttu kýrnar bera á daginn!

Það er almennt viðurkennt að gott eftirlit á burðartíma hafi minnkandi áhrif á kálfadauða. Enn mikilvægara er að fylgjast vel með kúm sem komnar eru að burði hjá stærri nautgripategundum og þar sem fæðingarþyngd kálfa er mikil (t.d. Limósín). Reynslan sýnir að á flestum búum er eftirlit með fyrsta kálfs kvígum einna best að degi til, en slakast um miðja nótt.

Auðveldasta og hagkvæmasta aðferðin til að koma í veg fyrir burð að næturlagi, er að gefa kúm á nóttunni. Líkleg skýring er sú að næturfóðrun veldur auknum þrýstingi í vömbinni, en þrýstingurinn felur svo að deginum til. Lífeðlisfræðileg verkun í þessu sambandi er ekki vel þekkt en líklega hafa hormón einhver áhrif á starfsemina. Rannsóknir á hreyfingum vambarinnar benda til þess að tíðni samdrátta vambarinnar minnkar nokkrum klukkutímum fyrir burð. Innri þrýstingur vambarinnar byrjar að falla á síðustu 2 vikum meðgöngunnar og fellur hraðast í sjálfum burðinum.

Gerð var rannsókn í Kanada á 104 Hereford holdakúm. Kúnum var skipt í 2 hópa, öðrum hópnum var gefið kl. 8:00 og aftur kl. 15:00, hinum hópnum var gefið kl. 11:00 og kl. 21:00. Í fyrri hópnum báru 38,4% kúnna að degi til, á móti 79,6% úr hinum hópnum.

Bresk rannsókn sem gerð var á 162 kúm á 4 bæjum, bar saman fjölda kálfa sem fæddust á bilinu frá kl. 05:00 til 22:00, hjá kúm sem gefið var á mismunandi tímum sólarhringsins. Þegar kúnum var gefið kl. 09:00, fæddust 57% kálfanna að degi til, á móti 79% kálfa þegar kúnum var gefið kl. 22:00.

Í annarri rannsókn var 35 kúm og kvígum gefið einu sinni á dag, milli kl 17:00 og kl. 19:00. Hún leiddi í ljós að 74,5% kálfanna fæddust milli kl. 05:00 og kl. 17:00. Sú rannsókn sem er þó e.t.v. einna mest á byggjandi tók til 1.331 kúa á 15 búum í Iowa (Bandaríkjunum), og var þeim gefið einu sinni á dag, að kvöldi til. 85% kálfanna fæddust á milli kl. 06:00 og kl. 18:00. Enginn sjáanlegur munur var á burðartíma, hvort sem byrjað var að gefa næturgjafirnar viku áður en burður hófst í hjörðinni eða 2-3 vikum áður.

Á mörgum búum getur verið erfitt að gefa öllum kúm eftir kl. 17:00. Í þeim tilfellum ætti bóndinn að haga gjöfum þannig að eldri kúm sé gefið að degi til og fyrsta-kálfs-kvígum að kvöldlagi. Það segir sig sjálft að mikilvægast er að fylgjast með fyrsta kálfs kvígum þegar líða fer að burði.

Margar mismunandi aðferðir hafa verið prófaðar til að minnka kálfadauða við burð. Til að tryggja sem best góða rekstrarafkomu bænda í holdanautaeldi, þarf strax í upphafi að huga að smákálfaeldinu. Hver kálfur skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli og mikilvægt að allir sem koma að slíkum rekstri séu vel hæfir til að veita fæðingarhjálp og góða umönnun smákálfa. Eins og er, lítur út fyrir að kvöldgjafir í fjósum séu áhrifaríkasta leiðin til að skipuleggja burðartíma þannig að hægt sé að aðstoða að degi til ef þörf krefur.

Annað vandamál sem bóndinn glímir við á burðartíma er hversu langur tími má líða áður en kvígum og kúm er hjálpað. Áður var talið að sk. annað stig fæðingar vari frá 2-4 klst. Annað stig fæðingar er skilgreint sem sá hluti fæðingarferlisins sem varir frá því að belgurinn sést fyrst og þar til kálfurinn kemur í heiminn. Nýrri upplýsingar frá landbúnaðardeild háskólans í Oklahóma og rannsóknarstöðinni í Miles (Miles City, Montana), sýna greinilega fram á að annað stigið sé að meðaltali mun styttra, einungis 60 mínútur hjá fyrsta kálfs kvígum og um 30 mínútur hjá eldri kúm.

Í þessum rannsóknum kom í ljós að þegar annað stig burðar tók mikið lengri tíma en klukkutíma hjá kvígum og hálftíma hjá eldri kúm, þurftu þær greinilega aðstoð. Rannsóknir sýna einnig fram á að kálfar, sem gengur hægt og erfiðlega að koma í heiminn, eru veikbyggðari og útsettari fyrir sjúkdómum.

Þar fyrir utan eru kýr og kvígur, sem gengu í gegnum erfiðan burð, líklegri til að ganga seinna og minni líkur eru á að þær eignist kálf í næsta kálfahóp. Flestir bændur bíða þar til kvígurnar hafa náð fullum þroska og nota góða bola fyrir fyrsta kálfs kvígur til að minnka líkurnar á erfiðum burði. Samt sem áður eiga alltaf eftir að verða einhverjar erfiðar fæðingar á hverjum burðartíma. Með því að nota kvöldgjafir til að auka líkurnar á að fleiri kvígur beri að degi til og að veita fæðingarhjálp fyrr, aukast líkurnar á því að hægt sé að bjarga fleiri kálfum og auka jafnframt líkurnar á því að hraustari ungkýr beri á næsta ári.

Greinin er þýdd og endursögð af Snorra Sigurðssyni, en greinin heitir á frummálinu: Are you ready for calving season? Eftir Glenn Selk, landbúnaðardeild háskólans í Oklahóma, en Glenn er sérfræðingur í frjósemi holdakúa.