Flokkar: Bútækni og bústjórn
29. mars 2005

Hönnun legubása fyrir kýr

Allir hlutar fjóssins þurfa að vera vel úr garði gerðir til að virka vel og sem ein heild. Til dæmis má nefna legusvæði, ganga, mjaltabás, básar, burðarstíur og stjórnun búsins.

 

Rangt staðsettar innréttingar og of litlir legubásar koma í veg fyrir að kýrin geti lagst niður og staðið upp á eðlilegan hátt, minnkar hvíldartíma kýrinnar og hefur áhrif á ástand júgurs, klaufa og mjólkurframleiðslu.

 

Það sem hefur mest áhrif á hversu auðveldlega kýrin getur staðið upp og lagst niður í legubásnum, og hvernig kýrin kemur til með að liggja, er staðsetning herðakambsslárinnar.

 

Þegar herðakambssláin er of framarlega er hætta á að kýrin leggist of innarlega í básinn og þar af leiðandi getur básinn orðið skítugri. Þegar sláin er of aftarlega rekst kýrin á slána þegar hún stendur upp og hætta er á að hún fái áverka á herðakambinn aftan á höfuðið. Herðakambsslá sem er sett of aftarlega í legubásinn, getur leitt til þess að kýrin standi lengi með fæturnar niðri á gangsvæðinu áður en hún ákveður að leggjast niður. Þegar hún loksins leggst, þá liggur hún á ská, skítur í legubásinn sem verður þar af leiðandi óhreinni.

 

Samkvæmt íslenskum ráðleggingum á herðakambssláin að vera staðsett 160 +/- 5 cm frá öftustu brún legubássins og hæð hennar á að vera 105 +/- 5 cm, mælt frá efsta hluta undirlagsins. Hérlendis hafa ekki verið gerðar rannsóknir síðustu ár varðandi reynslu bænda af innréttingum og staðsetningu þeirra í legubásafjósum, en slíkt er orðið mjög aðkallandi.

 

Legubásar með eða án festirörs.

Festirör framan við legubásinn ætti annað hvort að vera í ekki meira en 10 cm hæð eða ekki minna en 80 cm hæð yfir básnum til að trufla kúna sem minnst þegar hún leggst og stendur upp. Reynslan sýnir að rangt staðsett festirör getur haft veruleg neikvæð áhrif á notkun kúa á legubásum.

 

Einnig er hægt að innrétta legubásinn án festirörs. Þá þarf einn stólpa fyrir hvert milligerði eða þá að nota milligerði sem er sérhannað fyrir slík not og þá fest beint niður í gólfið.

 

Ef básar eru í tvöfaldri röð milligerði án festirörs, geta kýrnar skriðið yfir í básinn á móti. Það gerir þó ekkert til svo framarlega sem þær skríða alla leið. Þær mega hins vegar ekki standa upp á miðri leið. Til að koma í veg fyrir að kýrnar skríði í gegn er hægt að setja flatreim eða band í 80 cm hæð til að loka á milli básaraðanna.

 

Bringuvörn.

Mælt er með að hafa 5% +/- 1 halla á legubásnum. Ef of lítill eða enginn halli er í básnum getur verið nauðsynlegt að koma fyrir bringuvörn. Það getur til dæmis verið heflaður planki eða rör, um 10 cm að breidd. Hann getur hjálpað til við að stýra kúnni á réttan stað í legubásnum og um leið getur kýrin rétt úr framfótunum yfir hann þegar hún liggur. Þessi hæð gerir kúnum einnig kleift að færa annan framfótinn um það bil 40 cm fram á við og yfir bringuvörnina þegar hún stendur upp.

 

Skítugir básar og kýr sem liggja á ská.

Margir verða varir við það að kýrnar liggja á ská í básunum. Þetta leiðir til þess að kýrnar skíta frekar í básana og þar með verður meiri vinna við að halda básunum hreinum. Ástæðan fyrir því að kýrnar liggja á ská er sú að innréttingin er vitlaust staðsett eða að básarnir eru of litlir.

 

Nokkrar milligerðir í legubása eru hannaðar þannig að neðsta rörið í milligerðinni er á ská aftast. Það leiðir til færri nuddskaða. Það getur hinsvegar leitt til þess að kýr, sérstaklega þær sem minni eru, liggi á ská í básunum. Of stuttir básar auka þessi áhrif.

 

Snorri Sigurðsson

Þýtt og endursagt úr ársskýrslu Dansk Kvæg 2003