ÁTAKSVERKEFNIÐ FAGFJÓS: Nýtt fjós tekið í notkun

Flokkar: Bútækni, bústjórn og átaksverkefnið fagfjós
2. apríl 2004

ÁTAKSVERKEFNIÐ FAGFJÓS: Nýtt fjós tekið í notkun

 

Nýtt fjós tekið í notkun – fáeinar ráðleggingar

Eftir Unnstein Snorra Snorrason, starfsmann „Átaksverkefnis um tæknilausnir í mjólkurframleiðslu“

Inngangur

Bygging á nýju fjósi er viðamikið og flókið verkefni, sem flestir kúabændur standa aðeins frammi fyrir einu sinni á starfsævinni.  Því er mikilvægt að þeir nýti sér eftir fremsta megni reynslu þeirra sem staðið hafa í framkvæmdum.

 

Árið 2000 var gefin út skýrsla á vegum Landbrugets Rådgivningscenter þar sem fjallað er um ýmiss atriði sem hafa verður í huga þegar nýtt fjós er tekið í notkun. Hér á eftir verður fjallað um helstu atriði skýrslunnar og lögð áhersla á að draga inn í umræðuna reynslu íslenskra bænda.

Undirbúningur

Eitt af vandamálunum sem skapast þegar nýtt fjós er tekið í notkun, er það að nokkur tími getur liðið frá því að fjósið er tekið í notkun uns framleiðslugeta þess er fullnýtt. Til þess að bregðast við þessu reyna menn að keyra á fullum afköstum í gamla fjósinu.  Yfir byggingartímabilið skapast þess vegna ekki bara aukið álag vegna framkvæmdanna heldur einnig vegna aukins álags við hirðingu gripa. Framkvæmdunum fylgir einnig að oft þarf að kaupa að gripi. Þess vegna er oft mikill breytileiki í hjörðinni hvað varðar aldur, júgurheilbrigði og nyt þegar flutt er í nýja fjósið. Til að auðvelda flutning í nýja fjósið er því gott að skipta kúnum í þrjá hópa :

 

  1. Kýr sem þola örugglega flutning í nýja fjósið
  2. Kýr sem geta orðið til vandræða
  3. Kýr sem munu örugglega ekki þola flutning í nýja fjósið

 

Við hópaskiptinguna ætti einkum að leggja áherslu á júgurheilbrigði og heilbrigði klaufa og fóta.  Í þeim tilvikum þar sem júgurbólgusmit er vandamál í gamla fjósinu ætti að leita ráða hjá dýralækni varðandi mat á júgurheilbrigði.

 

Kýr í hóp 3 fara ekki í nýja fjósið.  Þær eru mjólkaðar áfram í gamla fjósinu meðan þær skila söluhæfri mjólk, en eru síðan seldar eða lógað.

 

Kýr í hópi 1 og 2 eru fluttar á sama tíma í nýja fjósið, en kýr í hópi 2 eru merktar sérstaklega til þess að auðvelda eftirlit með þeim.  Gera skal ráð fyrir hærra endurnýjunarhlutfalli hjá kúm í hóp 2.

 

Það eru mikil viðbrigði fyrir kýr að fara úr básafjósi yfir í lausagöngufjós.  Þegar nýtt fjós er tekið í notkun slitna klaufir mjög hratt.  Það er einkum vegna þess að gólf eru hrjúf og eiga eftir að slípast niður og eins er oft talsverður órói hjá gripunum fyrst um sinn.  Almennt ætti að snyrta og laga klaufir hjá kúm, þar sem þörf er á, áður en flutt er í nýtt fjós, en taka tillit til þess að klaufir muni slitna talsvert og því má ekki taka eins mikið af og annars væri gert.  Mjög mikilvægt er að klaufsnyrting eigi sér stað 2,5 – 3 mánuðum áður en kýrnar eru færðar í nýju aðstöðuna. Best er að kýrnar séu hafðar á beit áður en þær fara í nýja fjósið.  Þannig eru þær ekki eins viðkvæmar fyrir áreiti á klaufir og fætur.  Ef ekki er hægt að fara eftir þessum tímamörkum ætti ekki að eiga við klaufir fyrr en 3 – 4 mánuðum eftir að nýja fjósið hefur verið tekið í notkun.  Annars er hætta á því að klaufbotninn slitni of mikið og kýrnar verði sárfættar.

Frágangur og ýmsar tæknilegar útfærslur

Eitt af lykilatriðum þess að vel heppnist að taka nýtt fjós í notkun er að öllum frágangi sé lokið áður en gripir koma í fjósið.  Flutningur gripa í fjósið veldur stressi og því er ekki viðbætandi að kýrnar verði fyrir ónæði frá frekari vinnu í fjósinu.

 

Áður en fjósið er tekið í notkun þarf að fara fram heildarútekt á byggingunni.  Athugasemdir eru skráðar og gerð tillaga að úrbótum.  Eftir að fjósið hefur síðan verið í notkun í nokkurn tíma þarf að fara fram önnur úttekt á byggingunni og laga þá galla sem komið hafa fram eftir að fjósið var tekið í notkun.

 

Gæta þarf að því að innréttingar séu rétt upp settar og huga þarf vel að öllum frágangi á veggjum og öðrum búnaði.  Þá er mikilvægt að nota undirburð í legubásana (sérstaklega meðan kýrnar eru að læra að nota þá) .  Best er að nota gott lag af þurru sagi/spónum eða söxuðum hálmi.

 

Sverfa þarf í burtu skarpar brúnir á gólfi.  Ef gólfið er mjög gróft er gott að smyrja á það þunnu lagi af asfalti og strá sagi þar yfir meðan það er enn blautt.  Þetta er líka gott ráð ef vart verður óeðlilegs klaufslits.

 

Almennt þarf að huga meira að frágangi gólfa í fjósum en gert er í dag.  Best er að þrykkja munstur í steypuna til að bæta grip kúnna.  En það verður um leið líka að huga að því að gólfið verði ekki of hrjúf.  Góð aðferð til að meta hvort gólfið sé þægilegt fyrir kýrnar er að ganga berfættur um það.  Ef við verðum ekki fyrir óþægindum þá líður kúnum vel.

 

Frágangi vatns þarf að vera lokið áður en gripirnir koma í fjósið.  Huga þarf að því að allir ventlar virki sem skyldi. Ljúka þarf að stilla af allan sjálfvirkan gjafabúnað svo sem kjarnfóðurbása og kálfafóstru.  Eins þarf að prufukeyra allan sjálfvirkan gjafabúnað t.d. færibönd og gjafavagna.  Mjaltakerfið þarf að sjálfsögðu að vera fullfrágengið og prufukeyrt áður en fjósið er tekið í notkun.  Sköfur, hrærur, dælur og annan útbúnað þarf að tryggja að sé í góðu lagi áður en hafist er handa.

Fjósið tekið í notkun

Árangursríkasta aðferðin við að taka nýtt fjós í notkun er að gera það í áföngum.  Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig standa má að slíku :

 

Dagar áður en fjósið er tekið í notkun Áfangi
5 Kýrnar látnar ganga í gegnum fjósið á leið sinni á beit.
4 Kýrnar eru hafðar í 1 – 2 tíma í fjósinu og veittur aðgangur að lystugu fóðri.
3 Kýrnar eru látnar fara í gegnum mjaltabásinn til að komast í fóður. Kýrnar eru látnar vera í fjósinu í 1 – 2 tíma.
2 Kýrnar eru látnar vera á biðsvæðinu fyrir framan mjaltabásinn.  Þá er mjaltakerfið sett í gang og kýrnar eru látnar stöðva í mjaltabásnum í 1 – 2 mínútur.  Þær eru þó ekki mjólkaðar.  Kýrnar eru látnar komast í fóður við fóðurganginn og eru látnar vera í 1 – 2 tíma í fjósinu.  Kýr sem leggjast á gangsvæðið eru bundnar upp í legubásana
1 Nú eru kýrnar mjólkaðar í fyrsta sinn í mjaltabásnum og þeim er gefinn fullur fóðurskammtur á fóðurganginn.  Kýr sem leggjast á gangsvæðið eru bundnar upp í legubásnum.
0 Nú er kýrnar hafðar eingöngu í nýja fjósinu og hætt að nota gamla fjósið

 

Í sumum tilvikum er ekki hægt að hafa kýrnar á beit þegar nýja fjósið er tekið í notkun og þarf því að flytja kýrnar beint inn í nýja fjósið.

 

Hafi kýrnar verið hafðar í lausagöngu er lítið mál að flytja þær beint inn í nýja fjósið. Hafi kýrnar hins vegar verið í básafjósi er flutningurinn erfiðari. Best er að flytja kýrnar strax eftir morgunmjaltir. Þannig hafa þær góðan tíma til að venjast nýja umhverfinu áður en þær eru mjólkaðar á ný.

 

Allan óþarfa hávaða þarf að varast. Ef kýrnar eru ekki vanar útvarpi í fjósinu þá má ekki vera útvarp í gangi í nýja fjósinu.

 

Það á að vera jöfn lýsing í fjósinu.  Skil á milli bjartra og dimmra svæða, skuggar og glampar hræða gripina.  Best er að hægt sé að stýra lýsingu, þannig að kýrnar hafi fulla lýsingu í 18 klst á dag.  Á nóttinni þarf síðan að vera ratljós.

 

Þegar kýr eru settar inn í lausagöngufjós getur verið gott að skipta fjósinu upp í nokkra hluta. Þannig minkum við óróa í hjörðinni og síður koma upp vandamál tengd klaufum og fótum.

 

Herðakambsslá í legubásunum ætti að vera framarlega meðan kýrnar eru að venjast því að nota legubásana (ca. 175 cm).  Þannig eiga kýrnar auðveldara með að læra að nota legubásinn.  Síðar er herðakambssláin færð aftur á þann stað sem hentar (ca. 160 cm).

 

Kýr sem liggja á göngusvæðinu þarf að binda upp í básana þar til þær læra sjálfar að nota legubásana.

 

Daglega ætti að setja undirburð í básana.

 

Ef nota á læsanlegar jötugrindur þá er nauðsynlegt að kýrnar fái að éta nokkrum sinnum við fóðurganginn áður en þeim er læst við hann.  Mikilvægt er að það sé fylgst vel með kúnum eftir að þeim er læst í fyrst sinn, þannig að hægt sé að grípa inn í ef þarf.  Almennt ætti aðeins að nota læsanlegar jötugrindur í skamman tíma í einu og aðeins til þess að meðhöndla gripi, en ekki til að stýra fóðuráti.

 

Við það að skipta úr básafjósi í lausagöngufjós þarf að þróa nýtt verklag við mjaltir.  Mikilvægt er að skipuleggja vel hvernig mjaltir fara fram í samráði við þjónustufulltrúa mjaltabúnaðarins. Þjónustufulltrúinn á að vera viðstaddur þegar fyrstu mjaltir fara fram.  Þannig getur hann brugðist við smávægilegum vandamálum, fínstillt kerfið og gefið ráðleggingar.

 

Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma í fyrstu mjöltum.  Best er að reyna að fá kýrnar sjálfviljugar inn til mjalta.  Kýr sem ekki koma til mjalta þarf að reka inn.  Ef mikið gengu á við fyrstu mjaltir verða gripirnir stressaðir og erfiðara verður að fá kýrnar sjálfviljugar til mjalta í framtíðinni.

 

Kýrnar eru fljótar að læra á nýjar aðferðir.  Varist að venja þær á vinnufrek störf þegar fjósið er tekið í notkun.  T.d. ætti ekki að venja kýrnar á að vera sóttar inn á biðsvæðið og reka þær inn í mjaltabásinn.  Vinnusvæði mjaltamannsins er í mjaltagryfjunni.

 

Forðist að nota kúasmala sem gefur frá sér rafmagnshögg.  Það veldur stressi hjá kúnum. Slíkur búnaður er oft notaður með þeim hætti að rafmagn er haft á honum fyrst um sinn, en síðan er því hætt.  Þegar kúasmalinn færist áfram heyrist í bjöllu og á hljóðið frá henni að nægja til þess að fá kýrnar til mjalta.  Ekki hefur verið tekið á notkun kúasmala með rafmagnshöggi í aðbúnaðarreglugerðum hér á landi.  Notkun þeirra er víða umdeild.  En þeir sem nota slíkan búnað þurfa að vera mjög meðvitaðir um hvaða reglum ber að fylgja varðandi notkun þeirra.

 

Verið búin að skipuleggja í upphafi hvernig á að merkja gripi sem eru í meðhöndlun, eða gripi sem á ekki að mjólka í tankinn.  Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem ætlunin er að nota aðkeypt vinnuafl síðar meir.

 

Í fyrsta sinn sem flórsköfur eru keyrðar eftir göngusvæðum er mikilvægt að fylgjast vel með viðbrögðum kúnna og grípa inn í með skjótum hætti gerist þess þörf.

 

Kýrnar þurfa að læra að nota sjálfvirka kjarnfóðurbása.  Kúnum skal gefið sama kjarnfóður og í gamla fjósinu og þær munu fá í því nýja.  Fylgjast verður sérstaklega vel með augasemdum sem kjarnfóðurtölvan gefur.  Kýr sem ekki fara sjálfar inn í kjarnfóðurbásinn þarf að reka þangað.  Á ákveðnu tímabili eftir að fjósið er tekið í notkun verður alltaf hluti kúnna sem ekki hefur lært að nota kjarnfóðurbásinn.  Mikilvægt er að fylgjast vel með þessum gripum og gefa þeim kjarnfóður þangað til þeir hafa lært að nota kjarnfóðurbásinn.

Nýtt vinnulag

Þegar nýtt fjós er tekið í notkun eru mörg dagleg störf sem breytast.  Hér gefst gott tækifæri til þess að skipuleggja þau störf sem þarf að vinna t.d. daglega, vikulega og mánaðarlega.

 

Eftirlit með heilbrigði og frjósemi er með öðrum hætti í lausagöngufjósi heldur en í básafjósi, því viðveran að fjósinu og umgengni við gripina er ekki sú sama.  Við mjaltir sjáum við aðeins hluta af kúnni eða sjáum hana alls ekki t.d. í fjósum með mjaltaþjóni.  Það er því nauðsynlegt að vera meðvitaður um að eftirlit með heilbrigði og gangmálum kúa verður að vera hluti af daglegum vinnuferli.

 

Það er mikilvægt að gæta sérstaklega vel að kvígunum eftir að þær eru settar í fjósið.  Ef komið er í veg fyrir sjúkdóma við upphaf fyrsta mjaltaskeiðs, minnkum líkurnar á sjúkdómsvandamálum seinna meir.

 

Kvígurnar þurfa góðan tíma fyrir burð til þess að venjast nýju umhverfi.  Aðlögunartími kvígnanna ætti að vera frá 3-6 mánuðum.  Þrír mánuðir ef kvígurnar hafa verið aldar upp á legubásum, en annars lengur.  Kvígur sem ekki fást til þess að nota legubásana þarf að binda upp í básana.

 

Þegar kvígurnar eru settar í fyrsta sinn inn í fjósið koma fram áttök um hvar í virðingaröðinni hver gripur skal vera.  Það má draga úr þessum áttökum með því að setja kvígurnar inn í fjósið þegar kýrnar eru að hugsa um eitthvað annað.  Þannig hafa kvígurnar næði til að skoða nýja umhverfið.  Þannig hentar vel að setja kvígurnar inn í fjósið eftir mjaltir, þegar flestar kýr eru uppteknar af því að éta.

 

Það er til bóta að setja nokkrar kvígur inn í einu, þannig fækkum við þeim tilvikum sem órói skapast í fjósinu vegna komu nýrra gripa.

Lokaorð

Hér hefur verið farið yfir fáein atriði sem skipta máli þegar nýtt fjós er tekið í notkun. Að mörgu öðru þarf að huga sem ekki hefur verið nefnt hér. En aðalmálið er það að hver og einn setjist niður og finni það fyrirkomulag sem hentar hverju sinni.  Leiðbeiningar og upplýsingar má fá frá fjölmörgum aðilum t.d. ráðunautum, aðilum sem selja búnað í fjós, bændum o.fl.

Átaksverkefni um tæknilausnir í mjólkurframleiðslu er kostað af Framkvæmdanefnd um búvörusamning og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Verkefnið er unnið af starfsmönnum bútæknideildar Rala í samræmi við samstarfssamning Rala, BÍ og LK.