Aðgerðaáætlun um bætt mjólkurgæði

Flokkar: Mjaltatækni, bústjórn og mjólkurgæði
27. janúar 2011

Aðgerðaáætlun um bætt mjólkurgæði

 

Aðgerðaráætlun um bætt mjólkurgæði

 

Of há frumutala í tankmjólk hefur ekki eingöngu neikvæð áhrif á vinnslueiginleika mjólkurinnar heldur kostar hún einnig umtalsverða fjármuni á viðkomandi kúabúi í formi tapaðra afurða og síðar meir útgjalda vegna meðhöndlunar. Til þess að ná tökum á frumutöluvandamálum þarf að gera átak á búinu og reynslan sýnir að allir geta náð góðum árangri með réttum vinnubrögðum.

 

Snorri Sigurðsson, Auðlindadeild LbhÍ

 

Aukin nyt með lægri frumutölu

Með því að takast á við frumutöluvandamálið og ná á því tökum má reikna með því að nytin aukist verulega á búinu. Erlendar athuganir sýna að fyrstu vikuna eftir burð er algengt að meðalfrumutala heilbrigðra kúa liggi á bilinu 100.000-200.000 frumur/ml og eftir það í kringum 50.000. Margar íslenskar kýr eru mun hærri en þetta og má búast við því að þær kýr skili ekki bara auknum frumum í tankinn heldur einnig minni afurðum. Sænsk rannsókn hefur sýnt að afurðirnar aukast hlutfallslega meira eftir því sem frumutalan lækkar. Þannig má búast við því að afurðir kúa með 50.000 frumur að meðaltali á mjaltaskeiðinu séu 5% meiri en kúa með 100.000 frumur að meðaltali á mjaltaskeiðinu. Þá er ennfremur 4% afurðamunur á kúm með 100.000 frumur á mjaltaskeiðinu m.v. 200.000 frumur.

 

Hér á landi liggja ekki fyrir sambærilegar reynslutölur, en búast má við því að sambærilegur árangur náist með íslenskum kúm. Að því gefnu getur hver og einn kúabóndi reiknað út ónýtta framleiðslugetu á sínu búi.

 

Ekki einfalt

Það getur verið afar mismunandi á milli búa hverju þarf að kosta til, til þess að ná árangri við lækkun frumutölu. Ávinningurinn er einnig mismunandi á milli búa og erlendar rannsóknir hafa sýnt að það er ekki alltaf hagkvæmt að lækka frumutöluna. Stundum þarf t.d. aukið vinnuframlag til þess að ná árangrinum, s.s. við mjaltir, þrif á básum og almennt aukin vinna í fjósinu. Þá getur í sumum tilfellum verið nauðsynlegt að nota spenadýfur eftir mjaltir sem eðlilega hækka kostnaðinn við mjólkurframleiðsluna. Hver bóndi þarf því að skoða eigin aðstöðu og meta, í samráði við sinn dýralækni og nautgriparæktarráðunaut héraðsins, hvort og hvaða aðferðir henti best á viðkomandi búi svo þær skili sér í aukinni hagkvæmni búsins.

 

Alltaf erfitt að lækka frumutöluna

Þrátt fyrir að það kalli alltaf á vinnu að lækka frumutöluna er vinnuframlagið misjafnt eftir því hvert ástandið á kúahjörðinni er. Þannig sýnar m.a. danskar athuganir að það er erfiðara og kostnaðarsamara að lækka frumutöluna úr 300.000 í 200.000 en að lækka frumutöluna úr 200.000 í 100.000. Ástæðan er einfaldlega sú að þegar frumutalan er í kringum 200.000 eru færri kýr sem valda magni frumutölunnar og því krefst það minna framlags í vinnu og efnum til þess að ná árangri. Hérlend reynsla sýnir að allir kúabændur geta náð árangri með allri þeirri mjaltatækni sem notuð er á Íslandi í dag en til þess þarf þó að viðhafa rétt vinnubrögð við meðferð kúnna í langan tíma.

 

Að gera áætlun

Sé frumutalan í tankinum á bilinu 200.000-300.000 þýðir það að einhverjar kýr eru eða hafa verið með júgurbólgu. Fyrir viðkomandi bú skiptir trúlega mestu máli að vera með fyrirfram ákveðið skipulag varðandi inngrip í hjörðina vegna þessa. Gera þarf skriflega áætlun, í samráði við dýralækni búsins og nautgriparæktarráðunaut héraðsins, um það í hvaða tilfellum eigi að meðhöndla kýr. Fyrst og fremst þarf þó að gera skriflega áætlun um það með hvaða hætti eigi að haga vinnubrögðum svo koma megi í veg fyrir ný tilfelli af júgurbólgu því þar liggur mestur hagur búsins, enda þá færri kýr sem þarf að meðhöndla með tilheyrandi kostnaði.

 

Áætlun á einu búi getur verið afar ólík áætlun á næsta búi, enda þarf áætlun viðkomandi bús að taka ríkt tillit til þeirra júgurbólgusýkla sem eru algengir á hverjum stað og þá með hvaða hætti á að vinna gegn þeim. Reynslan frá Danmörku sýnir að í nærri 50% tilfella eru kýr meðhöndlaðar með lyfjum gegn júgurbólgu án þess að raunverulegur árangur náist. Sé staðan áþekk hér á landi, mætti spara verulega í meðhöndlunarkostnaði með því að útiloka þessar kýr áður en til lyfjameðhöndlunar kemur.

 

Veikar kýr og kýr með finnanlega bólgu í júgri þarf að sjálfsögðu alltaf að meðhöndla með lyfjum, ekki síst vegna sársaukans sem slíkum sýkingum fylgja.

 

Aukin tækni við greiningar

Í Danmörku má rekja u.þ.b. þriðjung meðhöndlunartilfella (með lyfjum) gegn júgurbólgu eingöngu til greiningaraðferða s.s. skálaprófs, frumutölumælinga, strimla í mjólk eða einhverskonar leiðni- eða litmælinga. Þessar aðferðir eru að sjálfsögðu góðar og gildar til þess að taka ákvörðun um að setja mjólkina til hliðar og ekki í tankinn, en geta einar og sér ekki verið grundvöllur meðhöndlunar með lyfjum. Reynslan erlendis frá er að algengast er að árangur náist við meðhöndlun á nýjum tilfellum júgurbólgu hjá kvígum fyrstu mánuðina eftir burð, en í öðrum tilfellum megi búast við bestum árangri með því að meðhöndla kýrnar í geldstöðunni.

 

Mismunandi áætlanir

Það eru til margar færar leiðir til þess að koma í veg fyrir júgurbólgutilfelli og felst munurinn á þeim eins og áður segir á því hvaða sýklar eru algengastir á viðkomandi búi. Eftirfarandi leiðbeiningar eru til danskra kúabænda – byggðar á yfirliti Jörgen Katholm, dýralæknis júgursjúkdóma við Þekkingarsetur landbúnaðarins, Skejby.

 

Áætlun gegn smitandi júgurbólgu (t.d. vegna Staphylococcus sýkinga):

1) tryggja þarf að mjaltatækið og –tæknin sé í fullkomnu lagi,

2) nota skal hanska við mjaltir,

3) sótthreinsa þarf spena eftir mjaltir með spenaspreyi eða -dýfu,

4) geldstöðumeðhöndla kýr með mótefnum, og

5) mjólka smitaðar kýr út af fyrir sig og helst hafa þær ekki innan um aðrar kýr.

 

Áætlun gegn umhverfisháðri júgurbólgu (t.d. vegna kólí sýkinga):

1) halda þarf kúnum mjög hreinum með notkun á undirburði, stilla innréttingar rétt, skafa skítinn ört niður og forðast þrengsli kúa,

2) þrífa júgrið vel fyrir mjaltir, jafnvel með þar til gerðum efnum,

3) alls ekki missa loft inn með spena við mjaltir,

4) tryggja að kýrnar leggist ekki eftir mjaltir, og

5) gefa kúnum gott fóður og trygga steinefnagjöf.

 

Heimildir:

Jørgen Katholm, dýralæknir júgursjúkdóma VFL, pers. uppl.

www.landbrugsinfo.dk/kvæg/mælkekvalitet

www.milkproduction.com/library