Flokkar: Ársskýrslur til fagráðs í nautgriparækt 2003
14. júní 2004

Skýrsla frá embætti yfirdýralæknis 2003 til fagráðs í nautgriparækt.

Skýrsla til fagráðs í nautgriparækt 2003.

 

Kúariða

            Kúariða hefur sem betur fer aldrei fundist á Íslandi. Aldrei hefur komið upp grunur um þennan príonsjúkdóm við rannsókn á sýnum hvort sem þau voru tekin úr heilbrigðum nautgripum í  sláturhúsi, eða úr veikum eða sjálfdauðum gripum. Ísland er í hagstæðasta flokki hvað varðar áhættumat á kúariðu. Að dómi sérfræðinganefndar Evrópusambandsins eru “nær engar líkur á því að kúariða leynist eða komi upp á Íslandi”. Til þess að halda þessari stöðu þarf á hverju ári að taka og skoða a.m.k. um 50 heilasýni úr nautgripum til vöktunar á kúariðu. Mikilvægast er að fá sýni úr:

 

A)    nautgripum sem sýna einkenni frá miðtaugakerfi, án þess að skýring finnist á þeim,

B)     veikum gripum sem lóga þarf vegna annars en einkenna frá miðtaugakerfi og

C)    sjálfdauðum gripum og gripum sem verða fyrir slysum.

 

Til að skoða nægan fjölda heilasýna úr nautgripum er sýnum einnig safnað úr heilbrigðum dýrum í sláturhúsi sem eru 24 mánaða eða eldri. Á árinu 2003 var 120 heilasýnum safnað úr nautgripum vegna vöktunar á kúariðu. Öll voru tekin í sláturhúsum og öll voru neikvæð (1.tafla). Aðeins eitt sýnanna var úr kú sem sýndi einkenni frá miðtaugakerfi. Kýrin hafði ekki góða stjórn á afturfótum og virkaði hrædd. Hún virtist hafa runnið og meiðst við flutning í sláturhús.

Fjöldi heilasýna
Heildarfjöldi skoðaðra Úr heilbrigðum Úr dýrum með einkenni frá Jákv. Neikv.
sýna dýrum miðtaugakerfi*
2002 41 41 0 0 41
2003 120 119 1 0 120

1.tafla.  Kúariðuvöktun á Íslandi á árunum 2002 og 2003. Fjöldi heilasýna úr nautgripum tekin í sláturhúsum. *: Ekki kúariðueinkenni.

 

Æskilegt er að fá sýni úr fleiri nautgripum með einkenni frá miðtaugakerfi. Einn gripur árið 2003 er lítið af hópi, sem ætla má að skipti nokkrum tugum yfir landið allt á einu ári. Þar getur verið um að ræða: æxli í heila og mænu, bólgur í miðtaugakerfi t.d. af völdum votheysveikisýkilsins Listeria monocytogenes, ígerðir, taugaformið af súrdoða, og kúariðu (vonandi þó aldrei).

 

Garnaveiki í jórturdýrum

Garnaveiki barst til landsins árið 1933 með Karakúlfé frá Þýskalandi. Hún er langvinnur sjúkdómur í jórturdýrum af völdum bakteríunnar Mycobacterium avium subsp. paratuberculosis. Sýkillinn veldur skituköstum og vanþrifum eða þrálátum niðurgangi vegna bólgu, sem byrjar yfirleitt aftast í mjógörn. Á árinu bárust á 12. þúsund garnasýna úr sauðfé og hátt á annað þúsund garnasýni úr nautgripum til rannsóknar á garnaveiki. Garnaveiki var staðfest á 13 bæjum. Þetta er sami fjöldi bæja og árið áður. Á u.þ.b. helmingi bæjanna var veikin staðfest í fyrsta sinn (síðustu 10 árin). Þessi fjöldi er eflaust gróflega vantalinn, m.a. vegna þess að ekki svarar kostnaði að senda lélegar kindur í sláturhús. Oft eru vanþrifakindur skotnar og grafnar heima, og því ekki látið vita af þeim og ekki tekin garnasýni. Auk þess hefur sýnataka og skoðun í sláturhúsum sums staðar verið ófullkomin. Á mörgum svæðum hefur eftirlit með bólusetningu sauðfjár ekki verið sem skyldi. Á árinu fór fram endurskoðun á reglugerð nr.638/1997 um garnaveikibólusetningu. Gerðar voru tillögur um bætt og hert eftirlit með garnaveikibólusetningu, og m.a. lagt til að ríkið greiddi kostnað við bólusetningu þar sem hún er framkvæmd á réttum tíma. Ekki tókst að fá tillögurnar samþykktar í Landbúnaðarráðuneytinu að svo stöddu. Unnið verður áfram að því að breyta reglugerðinni á árinu 2004.

 

Illkynjuð slímhúðarbólga í nautgripum

Illkynjuð slímhúðarbólga (malignant catarrhal fever) fannst í einum nautgrip á árinu. Þetta er þekktur sjúkdómur hér og er talinn fylgja nánu samneyti sauðfjár og nautgripa, sauðfé hýsi veiruna en sýkist ekki af henni, en nautgripir smitist. Sjúkdómnum veldur herpesveira (OvHv-2). Batahorfur eru litlar fyrir nautgripi sem taka hann. Sjúkdómurinn er ekki bráðsmitandi og dauðsföll eru tíðast eitt eða fá. Þess eru þó dæmi að 4 nautgripir hafi veikst og drepist á skömmum tíma á sama bænum.

 

Dauðfæddir kálfar

Nokkuð var um það á árinu að sendir væru dauðfæddir kálfar til rannsóknar. Í flestum tilfellum er orsök dauða óviss. Stundum eru merki um súrefnisskort (dökkt blóð, illa lifrað) og þegar það gerist nokkru fyrir burð verður stundum vart við hildalos í slíkum tilfellum. Til okkar hafa verið sendir kálfar sem kafnað hafa í fæðingu. Eigendur átta sig þó oftast á því. Ennfremur verða kálfar stundum fyrir banvænum meiðslum í fæðingu eða við burðarhjálp, oftast þá með innvortis blæðingum sem auðvelt er að sjá við krufningu. Grunur er stundum um selen- og E-vítamínskort, og dæmi eru um það að hlutfall dauðfæddra kálfa hafi snarlækkað á bæjum eftir að farið var að gefa kúm og kvígum selen- og E-vítamínríkara fóður og meðhöndla dýrin fyrirbyggjandi fyrir burð.

Á einstökum bæjum getur hlutfall dauðfæddra kálfa verið mjög hátt. Starfsmenn yfirdýralæknis og Tilraunastöðvarinnar á Keldum hittust á nokkrum fundum í lok ársins 2003 til að ræða um það hvernig best yrði staðið að rannsóknum á þessu vandamáli. Ekki er ráðið ennþá hvernig athugun á því verður hagað. Ljóst er að viðamikil samanburðarrannsókn á bæjum þar sem fósturdauði hjá kúm er algengur, og á bæjum þar sem fósturdauði er ekki vandamál, yrði mjög kostnaðarsöm. Rætt hefur verið um að setja upp rannsóknaráætlun sem fæli í sér að þegar upp kæmi vandamál á bæ færi af stað ákveðið ferli. Dauðfæddir kálfar yrðu rannsakaðir á Keldum og tekin úr þeim ákveðin sýni, samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun. Aðstæður yrðu kannaðar á bænum og allar upplýsingar sem máli skipta yrðu skráðar og færðar í gagnagrunn. Líklegt er að taka þyrfti blóðsýni úr kúm og kvígum á bænum við burð, og hugsanlega sýni af fóðri. Þar sem þetta væri óhjákvæmilega nokkuð kostnaðarsamt gætu hagsmunaaðilar hugsanlega sótt um styrk til Framleiðnisjóðs Landbúnaðarins til að greiða niður kostnað bændanna við rannsóknirnar. Rannsókn sem þessi gæti nýst þeim bændum sem glíma við vandamálið, og um leið myndu safnast upplýsingar í gagnagrunn, sem eftir e.t.v. 5-10 ár færu að gefa góða hugmynd um umfang og eðli vandamálsins.

 

Slæm umhirða kálfa

Á árinu bárust nokkrir kálfar til rannsóknar sem drepist höfðu af kvillum sem mátti rekja til slæmrar umhirðu. Til að tryggja vellíðan dýranna og gott mótstöðuafl gegn sýkingum er afar mikilvægt að ungkálfarnir fái frá upphafi að vera á þurrum, björtum, rúmgóðum og þrifalegum stað með góða loftræstingu en sé þó forðað frá dragsúgi. Kálfarnir þurfa að fá gott fóður, sem hæfir aldri þeirra. Gæta skal að því að vatn og fóður sé hreint og ómengað. Taka ber frá slæmt hey og koma í veg fyrir að skepnur komist í það. Gott er að láta efnagreina hey til að fylgjast með efnainnihaldi þess. Steinefnagjöf er víða nauðsynleg. Þá ber að huga að vörnum gegn sníkjudýrum svo dýrin þrífist vel. Sé aðbúnaður og umhirða góð verður baráttan gegn smitsjúkdómum auðveldari.

 

Sníkjudýr í og á nautgripum

Ormaveiki  í nautgripum, ekki síst ungviði, er vel þekkt  og á sök á vanþrifum og skituköstum, t.d. vinstrarormar (Ostertagia spp.). Ennfremur er nokkuð um hnísla í meltingarfærum ungneyta. Að þessu þarf að huga nánar því að tjón af völdum þessara sníkjudýra virðist mikið.

            Annað kastið verður vart við naglús (Bovicola bovis), einkum þar sem aðstæður eru ófullkomnar hvað varðar rými, loftræstingu og þrif. Naglúsin getur valdið miklum óþægindum. Við útrýmingu á lúsinni er mikilvægt að farið sé nákvæmlega eftir leiðbeiningum dýralækna vegna hættu á mengun mjólkur með eiturefnum.

 

Blýeitrun

Enn ber á því að nautgripir komist í rafgeyma sem skildir hafa verið eftir úti um hvippinn og hvappinn og brotnað. Það er ljótur blettur sem afmá þarf að skilja notaða geyma eftir á víðavangi. Blýsaltið á plötunum er sérstakt sælgæti fyrir nautgripi og fleiri gripi. Fái nautgripir mikið magn af blýi geta þeir veikst illa og drepist af eitruninni. Þegar mjólkurkýr sleikja slíkt í sig í minna magni getur blýið mælst í mjólkinni þó ekki sé veikindi að sjá á kúnum.

 

Skráningarskyldir sjúkdómar

Sjúkdómar í A-flokki samkvæmt skilgreiningu OIE hafa ekki greinst á Íslandi og fáir sjúkdómar í B-flokki samkvæmt sömu skilgreiningu.