Flokkar: Ársskýrslur til fagráðs í nautgriparækt 2003
9. júní 2004

Starfsemi fagráðs í nautgriparækt 2003

Fagráð í nautgriparækt 2001-2004

 

Aðalfulltrúar:                                                                 Aðrir fulltrúar :

Ari Teitsson, BÍ. Haraldur Benediktsson frá mars 2004.

Jón Viðar Jónmundsson, BÍ

Sigurður Loftsson, LK

Þórarinn Leifsson, LK

Þórólfur Sveinsson, LK

Bragi Líndal Ólafsson, Rala

Gunnar Guðmundsson, BÍ

Halldór Runólfsson, Yfirdýralæknir

Snorri Sigurðsson, LK

Torfi Jóhannesson, LBH

<><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><><>

 

Faghópur um ræktunarmál:

Faghópur um ræktunarmál starfaði með sama hætti og verið hefur. Hópurinn sér um nautaval og annað er lýtur að kynbótastarfinu. Í honum eiga sæti nautgriparæktarráðunautur BÍ, fulltrúi Landssambands kúabænda og einn fulltrúi frá hverju eftirtalinna Búnaðarsambanda; Búnaðarsambandi Suðurlands, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og Búnaðarsamtökum Vesturlands. Þá sitja bústjóri Uppeldisstöðvarinnar í Þorleifskoti og framkvæmdastjóri Nautastöðvarinnar á Hvanneyri fundi ræktunarhópsins. Guðmundur Jóhannesson er ritari hópsins.

 

 

 

Ýmislegt varðandi viðfangsefni fagráðs í nautgriparækt árið 2003:

 

Starfsemi fagráðs var með sama sniði og undangengin ár. Margar ágætar umsóknir komu til umfjöllunar á árinu. Bæði var sótt í það fé sem tryggt var með sérstöku átaksverkefni árið 2002 og í þróunarfé nautgriparæktar hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Af verkefnum má nefna:
A:  „Áhrif fóðrunar í geldstöðu og byrjun mjaltaskeiðs á afurðir, heilsufar og frjósemi“. Umsóknin er tvíþætt, annars vegar er sótt um 4,5 miljónir kr af þróunarfé nautgriparæktar og hins vegar um 4,8 miljónir af átaksfé nautgriparæktarinnar. Um er að ræða ákaflega umfangsmikið verkefni sem framkvæmt verður við tilraunastöðin á Stóra-Ármóti og mun standa í tvö ár. Ítarleg og nákvæm framkvæmdalýsing fylgir umsókninni og mikilvægi rannsóknarsviðsins er óumdeilt. Fagráðið mælir með að báðir umræddir styrkir verði veittir þannig að þeir skiptist til helminga á árin 2003 og 2004.

B: Hagkvæmar tæknilausnir innanhúss. Til þessa verkefnis hefur verið varið 2,5 milljónum. Ákvörðun um framhaldið verður tekin síðar.

C: Ræktunarkerfi við fjölbreyttar aðstæður. Um er að ræða samtals fimm verkefnaflokka sem allir lúta að ræktun til fóðurframleiðslu. Að verkefnunum koma aðilar frá fleiri stofnunum, LBH og stærstu búnaðarsamböndunum.
Til allra verkefnaflokkanna er sótt um styrk að upphæð 9,2 miljónir króna á árinu 2003. Öll verkefnin eru til fleiri ára þannig að þau kalla á fjárveitingar á næstu árum. Fagráðið taldi því að hér væri um stærri bita að ræða en svo að honum væri hægt að mæta í heild sinni af þróunarfé nautgriparæktarinnar. Fagráðið mælir með að til þessar umsóknar verði varið 6,7 miljónum króna af þróunarfé og við forgangsröðun verkefna verði fellt út verkefnið hagnýting belgjurta og niðurskurður styrkupphæðar kæmi til viðbótar á verkefnaþáttinn sáðskipti og ræktun.
D: Skyldumerkingar nautgripa. Til þessa verkefnis varði Framleiðnisjóður 3,5 milljónum á síðasta ári. Af því voru 350.000- af þróunarfé nautgiparæktar.
E:  Snefilefni í jarðvegi, fóðri og búfé er verkefni sem RALA og LBH höfðu sótt um styrk til FL og sjóðurinn hafði veitt 1,9 miljón kr í styrk. Um er að ræða mælingu snefilefna í fóðursýnum og mælingar á ólífrænu joði í blóði. Fram hafði komið að umræddur styrkur mundi ekki nægja til að mögulegt væri að koma umræddum mælingum við. Hér er um að ræða verkefni sem hefur lengi verið á forgangslista hjá fagráði og ljóst að þær grunnniðurstöður sem umræddar mælingar eiga að geta skilað er nauðsynlgt fyrsta skref til að takast á við þau vandamál sem mögulega tengjast snefilefnaskorti hjá íslensku búfé. Fagráðið mælti því með styrk að upphæð 1 miljón króna af þróunarfé nautgriparæktar til viðótar til þessa verkefnis, en það á að gera framkvæmd þess mögulega. Þetta er mikilvægt verkefni sem því miður hefur dregist óhæfilega.

F: Á árinu var öld liðin frá því að skipulegt nautgriparæktarstarf hófst hér á landi. Þessa hefur ekki verið minnst sem skyldi en m.a. hafa komið fram hugmyndir um gerð veggspjalda sem sýndu nokkra þætti ræktunarsögunnar og hvernig hún tengist öðrum þáttum framleiðslu mjólkur og vinnslu afurðanna.

 

G: Á árinu varði Framleiðnisjóður kr. 5.000.000- til gæðaverkefnis fyrir ,,Úrvals nautakjöt“. Þetta framlag var fært á þróunarfé nautgriparæktar.

H: Rétt er að benda á Kýrhausinn á www.naut.is . Þar eru góð skoðanaskipti, m.a. um ýmislegt er lýtur að ræktunarstarfinu og fóðrun.

 

 

Ég þakka fagráðsmönnum, og öðrum er starfi þess tengjast, gott samstarf á árinu.

 

Þórólfur Sveinsson