Flokkar: Ársskýrslur til fagráðs í nautgriparækt 2004
25. mars 2005

Skýrsla um starfsemi LBH í nautgriparækt 2004

Verkefni Landbúnaðarháskólans í nautgriparækt árið 2004

Torfi Jóhannesson

 

Nýtt fjós

Umsjón með byggingu á nýja fjósinu tók mjög mikinn tíma árið 2004. Sólfell ehf. skilaði byggingunni undir lok mars og þá tók skólinn við allri umsjón með framkvæmdum. Samið var við Vélaver, MR, Landstólpa og Þór um kaup og uppsetningu innréttinga og búnaðar. Áður hafði verið samið við Ísmörk um loftræstikerfi. Til viðbótar komu PJ byggingar, Jörvi ehf, Vatnsverk, Vírnet, Glitnir að lokafrágangi. Fjósið var vígt í byrjun ágúst.

 

Enn sem komið er hafa litlar rannsóknir farið fram í fjósinu ef frá er talin þátttaka í kálfakögglaverkefni Grétars Hrafns Harðarsonar. Hins vegar hefur veturinn verið lærdómsríkur og nokkur tími farið í að venja gripi og menn við nýtt fjós. Meðal þess sem farið hefur verið í gegn um er:

Slæðingur kúnna => Uppsetning á slæðivörn.

Fá kýrnar til að liggja á í legubásunum. => Í haust voru allmargar kýr (15-17) sem lágu á rimlunum og urðu skítugar. Þessar kýr voru síðan bundnar upp í básana á næturnar og vöndust þannig á básana á 7-10 dögum. Sama átti við um kvígurnar.

Virkni flórskafanna => Endað á að setja múrbolta í flórvegginn svo flórsköfurnar fari ekki niður í þverflórinn.

Hæð á kúaklórum => Eru nú í 122 cm hæð og það gefst vel.

Stilling á loftræstikerfi => Er nú stillt á 6(1 °C. Mælingar standa yfir á hitanum í legubásunum.

Stilling á hreyfiskynjurum ofl. þh. => Nokkurn tíma tók að læra á AlPro kerfið.

Stilling á kálfafóstrum => Sama og að ofan.

Þörf fyrir flórsköfur ofan á rimlana. => Rimlarnir milli legubásanna eru skafnir einu sinni til tvisvar á dag. Stefnt að prófunum á mismunandi tækni við hreinsun bása og rimla.

Nýting legubásanna => Kýrnar velja frekar að liggja í miðjuröðinni en við vegginn – hugsanlegt að ástæðan sé að hluta til kuldi sem kemur inn um loftræstilúgur.

Stein- og snefilefnagjöf => Búið að setja upp kerfi til íblöndunar í vatn, en stillingu kerfisins er ólokið.

 

Önnur verkefni

FFA í mjólk

Niðurstöður 100 mælinga frá 7 samlögum og 85 bæjum sýnir að innihald FFA í mjólk hérlendis er vel viðunandi. Mælingar frá bæjum með mjaltaþjóna eru marktækt hærri en aðrar mælingar, en þó langt frá hættumörkum.

 

Aðbúnaður kálfa

Bæklingur um aðbúnað kálfa sem er á lokastigi. Samvinnuverkefni BÍ, LBHÍ, LK og nokkurra búnaðarsambanda.

Samanburður á atferli kúa í róbótafjósi og mjaltabásafjósi

Lokaverkefni Andreu Rüggeberg. Nýting legubásanna fór aldrei yfir 85% í róbótafjósi, en náði 100% í mjaltabásafjósinu. Legutími kúnna var 10-12 klst. og tími í gróffóðurát 5,5-6,0 klst. á sólarhring. Athygli vakti að í öðru fjósinu stóðu kýrnar mikið með tvo fætur í básunum (4,5 klst á móti 12 mín í hinu). Sá tími er tekinn af legutíma, “standa á gangi” og “éta kjarnfóður”. Í mjaltabásafjósinu var algengt (60% athugana) að kýr væru í báðum kjarnfóðurbásunum en það gerðist einungis í þriðjungi athugana í mjaltaþjónsfjósinu.

Nýting á grænfóðurbeit

Rannsókn sem hófst sumarið 2003 og var haldið áfram 2004. Niðurstöður voru kynntar á fræðaþingi2005. Léleg nýting grænfóðursins kom á óvart. Stefnt er að framhaldsverkefni.

Fagfjós

Verkefni á vegum Bútæknisviðs Rala, kostað af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Framkvæmdanefnd búvörusamninga. Verkefnið hefur verið alloft kynnt á öðrum vettvangi. Ljóst er að mikil þörf er til staðar en erfitt reyndist samt að ná til þeirra bænda sem ætlunin var að ná til. Samningur um verkefnið rann út um síðustu áramót og hefur ekki verið endurnýjaður.

Námsskrá bændadeildar

Á síðasta ársfundi fagráðs var ný námsskrá fyrir bændadeild kynnt. Eftir henni hefur verið starfað í vetur og mun Sverrir Heiðar Júlíusson koma á fundinn og kynna hana sérstaklega.

Kennslubók í nautgriparækt

Magnús B. Jónsson mun kynna þetta mál sérstaklega.

Verkefni til næstu ára

Nautgripahópur Landbúnaðarháskóla Íslands hélt fund 17. febrúar sl. þar sem farið var yfir hvaða verkefni væru í pípunum og hvar áherslur LBHÍ ættu að liggja. Niðurstaðan var eftirfarandi listi:

 

Beit – grænfóður – beitarskipulag – sjúkdómar – róbótar og beit – mjólkurgæði … (RB)

Gagnagrunnar – gæðahandbók – sprotabú. (ÞS)

Heilfóður og hámarksafurðir (GHH)

Mjólkurgæði og sérstaða mjólkurinnar (BLÓ)

NORFOR (JS, GG)

Skoðun nýrra eiginleika og viðhorfa fyrir þróun ræktunarstarfsins. (MBJ)

Snefilefni í jarðvegi, fóðri, áburði, blóði og tengsl við heilbrigði búfjár.

Umhverfismál: Útskolun næringarefna, (?)

Vinnumælingar og tækni og byggingar. (TJ, USS)