Flokkar: Ársskýrslur til fagráðs í nautgriparækt 2004
25. mars 2005
Skýrsla um starfsemi BÍ í nautgriparækt 2004
Skýrsla um starfsemi Bændasamtaka Íslands í nautgriparækt 2004:

 

Jón Viðar Jónmundsson, Baldur H. Benjamínsson, Hallgrímur S. Sveinsson, Maríanna H. Helgadóttir, Sveinbjörn Eyjólfsson, Þórfríður Haraldsdóttir, Sigurmundur Guðbjörnsson og Gunnar Guðmundsson

 

Helstu þættir í starfsemi BÍ í nautgriparækt árið 2004

 

 

Jón Viðar Jónmundsson

Skýrsluhald í nautgriparækt

Framkvæmd skýrsluhaldsins hefur á árinu verið með líkum hætti og síðustu ár. Stjórn Rannsóknarstofu mjólkuriðnaðarins tók þá lofsverðu ákvörðun að bjóða skýrsluhöldurum aukinn fjölda efnamælinga úr mjólk einstakra kúa í skýrsluhaldinu og kom sú breyting til framkvæmda á síðari hluta ársins. Á þennan hátt ætti grunnur að þessum mikilvæga þætti upplýsingaöflunarinnar að verða enn traustari en áður hefur verið. Það eru samt of margir skýrsluhaldarar, sem sinna ekki  þessum grunnþætti starfsins sem skyldi. Nokkur fjölgun hefur orðið á skýrsluhöldurum sem færa skýrsluhald sitt á rafrænan hátt í ÍSKÝR en alla þjónustu og þróun vegna þessa forrits annast Maríanna Helgadóttir og Hallgrímur Sveinsson. Með reglugerð um skyldumerkingar síðla árs 2003 varð mjólkurskýrsla um leið hjarðbók skýrsluhaldara í nautgriparækt og var ákveðnum upplýsingum þannig bætt við mjólkurskýrsluna. Mætti því ætla að allir mjólkurframleiðendur ættu að sjá sínum málum best fyrir komið með þátttöku í skýrsluhaldinu. Allmargir mjólkurframleiðendur, sem hafa ekki sinnt skýrsluhaldi, hófu skýrsluhald árið 2004 og er nánast víst að þátttaka í skýrsluhaldinu fór á árinu fyrsta sinni yfir 90%.

Ársuppgjör fyrir 2003 lá fyrir síðari hluta janúar og voru þar staðfestar meiri meðalafurðir en nokkru sinni áður í mjólkurframleiðslunni eða 5063 kg mjólkur að jafnaði eftir hverja árskú. Helstu lykiltölur ársins voru: Bú í skýrsluhaldi voru 722 og þar kom 28.721 kýr á skýrslu á árinu og reiknaðar árskýr voru samtals 20.503,4, meðalafurðir eru þegar tilgreindar og efnahlutföll breyttust lítið, próteinhlutfall 3,36% og fituhlutfall 4,03%. Kýrnar í Stóru-Hildisey II í Austur-Landeyjum settu glæsilegt Íslandsmet um afurðir á einu búi en þær skiluðu að jafnaði 7.450 kg af mjólk hver árið 2003 og magn verðefna var 548 kg að meðaltali hjá þeim. Mestar afurðir hjá einstökum kúm voru árið 2003 hjá Ámu 20 í Miðhjáleigu í Austur-Landeyjum en hún mjólkaði samtals 11.842 kg mjólkur yfir árið.

Þó að niðurstöður ársins 2004 liggi ekki enn fyrir þegar þetta er skrifað um áramót er samt ljóst að meðalafurðir hafa enn hækkað umtalsvert og verða meiri en nokkru sinni. Aukningin birtist einnig í því að afurðamunur á milli héraða eykst heldur.

 

Skoðun á kúm og kúasýning

Framkvæmd kúaskoðunar var með sama sniði árið 2004 og verið hefur nokkur síðustu ár. Skoðun miðar eingöngu að því að skoða yngstu kýrnar. Með þessu skipulagi er stefnt að því að ná til skoðunar nánast allar dætur þeirra nauta sem á hverjum tíma eru í afkvæmarannsókn frá Nautastöð BÍ. Á þennan hátt verða til útlitsdómar fyrir meginþorra mjólkurkúa í landinu. Við þessa skoðun eru einnig yfirfarnir eldri dómar fyrir allar kýr sem eru með nautsmæðraeinkunn og fer þannig fram virkt eftirlit með álitlegustu kynbótagripunum í stofninum á hverjum tíma. Einnig eru yfirfarnir fyrri dómar fyrir allar kýr sem hafa komið til skoðunar undan nautsfeðrum á hverju tímabili og voru þannig “endurskoðaðar” árið 2004 dætur nautsfeðranna sem fæddir voru árið 1996.

Dómstörfin voru árið 2004 unnin að sömu aðilum og áður, Guðmundur Steindórsson og Baldur H. Benjamínsson unnu þessi störf á Norðurlandi eystra, Guðmundur Jóhannesson og Sveinn Sigurmundsson skoðuðu kýr á Suðurlandi. Á öðrum svæðum féll í minn hlut að vinna þetta starf. Meginhluti þeirrar skoðunar var unninn, í maí og júní en í Húnavatnssýslum og Kjósarsýslu var þessi vinna unnin í desember. Umfang skoðunar eftir þessu skipulagi er líkt frá ári til árs eða skoðun á öðru hvoru megin 5000 ungum kúm á hverju ári.

Laugardaginn 27. ágúst hélt Búnaðarsamband Suðurlands kúasýningu úrvalskúa, KÝR 2004, í Ölfushöllinni. Líkt og áður var staðið að þessari sýningu af miklum myndarskap og tókst hún á allan hátt með glæsibrag. Sýndir voru glæsigripir og mikill fjöldi fólks sótti sýninguna og átti þar góðan dag. Ljóst er að slíkt starf verður sífellt veigameira til að efla tengsl fólks í landinu við grunn mjólkurframleiðslunnar, kúna sjálfa. Rétt er að nefna ákaflega ánægjulegan þátt þessara sýninga sem er sýning ungra sveitabarna á ungkálfum sem þau hafa tamið til sýningar. Líkt og áður var ég formaður dómnefndar á þessari sýningu.

 

Fagráð í nautgriparækt

Fagráðið starfaði að stórum hluta með rafrænum samskiptum á milli fagráðsmanna en það hélt tvo starfsfundi á árinu, auk aðalfundar, sem haldinn var í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd í mars. Í tengslum við aðalfundinn var haldinn almennur fagfundur fyrir bændur líkt og verið hefur nokkur undanfarin ár. Sá fundur var illa sóttur og hefur svo verið áður á þessu svæði, öfugt við það sem verið hefur í öðrum héruðum þar sem slíkir fundir hafa ætíð verið feikilega vel sóttir af bændum.

Á aðalfundi var ég, ásamt Halldóri Runólfssyni og Braga L. Ólafssyni, skipaður í starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir til að fá gleggri mynd af umfangi og mögulegum ástæðum óbærilegs kálfadauða hjá íslenskum mjólkurkúm. Mótuðum við tillögur að könnun sem hófust á haustdögum og er unnin af Baldri H. Benjamínssyni, Grétari Hrafni Harðarsyni og Þorsteini Ólafssyni og mun Baldur gera grein fyrir henni í starfsskýrslu sinni.

Vinnuhópur fagráðsins vegna ræktunarstarfsins var styrktur á árinu með því að Sigurgeir Hreinsson á Hríshóli í Eyjafjarðarsveit kom til liðs við hann. Starfshættir vinnuhópsins voru með líku sniði og áður, haldnir þrír fundir á árinu og á þeim öllum fer fram val á nautkálfum frá Uppeldisstöðinni til að flytjast til notkunar á Nautastöðinni á Hvanneyri.

Nautahópurinn, sem kom til afkvæmadóms á fyrri hluta ársins, voru naut Nautastöðvarinnar sem fædd voru árið 1997. Þarna kom fram á sjónarsviðið öflugasti hópur nauta með tilliti til afkastagetu sem fram hefur komið en hann er allbreytilegur með tilliti til annarra eiginleika. Þarna voru 24 naut, 2 þeirra fengu dóm sem nautsfeður, 18 til viðbótar fá notkunardóm og 4 voru dæmdir óhæfir til frekari notkunar. Nautsfeðradóm fengu: Teinn 97001 frá Akbraut í Holtum og Stígur 97010 frá Oddgeirshólum í Hraungerðishreppi. Í frekari notkun voru auk þess valin: Bylur 97002 frá Hríshóli í Eyjafjarðarsveit, Brimill 97016 frá Eystra-Seljalandi undir Eyjafjöllum, Kóri 97023 frá Berustöðum í Ásahreppi, Stallur 97025 frá Syðri-Bægisá í Öxnadal, Randver 97029 frá Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi, Kubbur 97030 frá Neðri-Hól í Staðarsveit, Þverteinn 97032 frá Þverlæk í Holtum og Hersir 97033 frá Birtingaholti IV í Hrunamannahreppi. Ástæða er að nefna að stefnt er að því að fá örfáa nautkálfa til notkunar undan sumum af þessum góðu nautum þó að þau fengju ekki nautsfeðradóm.

Viðurkenningu fyrir besta naut ársins fengu bændur í Oddgeirshólum fyrir Stíg 97010 og var þeim veitt viðurkenning á aðalfundi Bsb. Suðurlands, en þess skal getið að Oddgeirshólabúið er eina búið í landinu sem hefur fengið þessa viðurkenningu oftar en einu sinni en þetta er í þriðja skiptið sem þeir hampa henni.

 

Maríanna H. Helgadóttir og Hallgrímur Sveinn Sveinsson

Nautgriparæktarforritið ÍSKÝR

Við höfum á árinu séð um að aðstoða notendur ÍSKÝR sem lent hafa í vandræðum, þó að meginþungi þess starfs sé í höndum Maríönnu H. Helgadóttur.  Erfiðustu málin snúa yfirleitt að því að tölvur bila og ekki eru til öryggisafrit af gögnum búsins.  Það verður því ekki of oft brýnt fyrir mönnum að taka reglulega öryggisafrit af  gögnum sínum til varðveislu.

Hallgrímur hélt 3 námskeið á árinu 2004 um  ÍSKÝR, að Krossholti á Barðaströnd og tvö á Hvanneyri.  Námskeiðin eru haldin í samstarfi við UD, Upplýsingatækni í dreifbýli, sem niðurgreiðir þau.  Einnig sinnti Hallgrímur eftirfylgni námskeiðsins á Vestfjörðum en Laufey Bjarnadóttir sá um eftirfylgni vegna námskeiðs á Hvanneyri.  Ljóst er að bestur árangur næst með námskeiðum þar sem eftirfylgnin á sér stað í beinu framhaldi við námskeiðin þannig að viðkomandi bónda er komið af stað í forritinu strax eftir námskeiðið.

Forritun við ÍSKÝR var nokkur á árinu og voru sendar út tvær útgáfur, ein að vori og önnur að hausti.

Fjöldi skýrsluhaldara sem skila skýrslum rafrænt til okkar í gegnum ÍSKÚ eru rúmlega 120 talsins, en þess má geta að þau bú eru að jafnaði stærri en meðalbúin í skýrsluhaldi.

 

Hallgrímur Sveinn Sveinsson

Skýrsluhald í nautgriparækt

Ég vann að uppgjöri á mjólkurskýrslum í október í samstarfi við Jón Viðar Jónmundsson.   Kom annars aðallega að samskiptum ÍSKÝR og skýrsluhaldsvélar nautgriparæktarinnar AS/400.

 

Huppa, gagnagrunnur í nautgriparækt

Mikil vinna hefur farið í áframhaldandi þróun á Huppu, gagnagrunni í nautgriparækt.  Á árinu var bætt inn kynbótamati ásamt tilheyrandi skýrslum, lykiltölum og búsmeðaltali, auk þess sem unnið var að því að aðlaga og leiðrétta gögn.

Aðgangur bænda að Huppu ( www.huppa.is ) var opnaður á haustmánuðum og hafa þeir nú aðgang að kynbótamati gripa sinna, ætternisupplýsingum, lykiltölum búsins og búsmeðaltölum. Aðgangsorð að Huppu eru sameiginleg með Mark (www.bufe.is )

Í lok ársins var farið að vinna að því að koma Nautavali inn í Huppu.  Þeirri vinnu verður vonandi lokið fyrir sumarið, en mun meira mál var að koma fyrir reikningum á skyldleikaræktarstuðli en gert var ráð fyrir í upphafi.  Fór svo að lokum að Þorvaldur Árnason kynbótafræðingur var fenginn til verksins.  Samhliða verða skráningar á sæðingum fluttar yfir í Huppu.

Æskilegt er að taka vinnu við nýjan gagnagrunn nautgriparæktarinnar til gagngerar skoðunar þegar vinnu við nautaval er lokið.  Vænlegast er að greina kerfið í heild sinni áður en lengra verður haldið.   Líklegt er að sú vinna taki lungann af árinu 2005 en þá ætti líka að vera hægt að vinna kerfið á styttri tíma ef vel tekst til við greiningu.

 

MARK, einstaklingsmerkingar

Mín vinna í MARK var aðallega í tengslum við gagnaflutninga frá AS/400 yfir í MARK.  Ennþá eru að koma gögn frá skýrsluhöldurum sem uppfylla ekki skilyrði kerfisins og ljóst er að framundan er vinna við laga þau gögn til.

 

NorFor

Á síðasta ári varð ég hluti af IT-nefnd NorFor verkefnisins, en hlutverk þeirrar nefndar er að hanna tölvukerfi sem vinnur með þær reikniaðferðir sem NorFor verkefnið hefur unnið að undanfarin misseri.   Fór í desember til Danmerkur og kynnti mér verkefnið, auk þess að ræða vinnu Dana í tengslum við innleiðingu NorFor í fóðuráætlanagerð.  Greiningarvinna verkefnisins er langt komin og verður vonandi boðin út fljótlega.  Það sem að okkur Íslendingum snýr er síðan að hanna viðmót ofan á kerfið til að geta nýtt okkur þá vinnu sem búið er að leggja í verkefnið.  Vænlegast er fyrir okkur að leita eftir samstarfi við einhverja af þeim þjóðum sem standa að NorFor þar sem smæð okkar gerir okkur erfitt um við að standa að svona stóru verkefni einir.

 

Maríanna Hugrún Helgadóttir

Heimasíða Bændasamtaka Íslands, www.bondi.is

Ég hef haft umsjón með innsetningu efnis á vefinn er varða búgreinarnar í samvinnu við Jón Viðar Jónmundsson.  Nautgriparæktarvefurinn er uppfærður reglulega og a.m.k. mánaðarlega.

 

Baldur H. Benjamínsson

Helstu verkefni voru vinnsla á kynbótamati fyrir endingu mjólkurkúa, umsjón með útgáfu Nautaskrár og umsjón með athugun á orsökum kálfadauða, sem er einn sá mesti í heiminum. Með mér að því verkefni unnu þeir Þorsteinn Ólafsson hjá BSSL og Grétar H. Harðarson hjá LBHÍ. Þá hef ég einnig með höndum ýmis verkefni og ráðleggingar er varða einstaklingsmerkingar nautgripa.

Fundarhöld voru talsverð á árinu. Ég sat þrjá fundi vinnuhóps Fagráðs um ræktunarmál nautgripa á Selfossi á árinu og flutti erindi um kynbótamat fyrir frjósemi á ársfundi Fagráðs í nautgriparækt í febrúar. Einnig sótti ég nokkra bændafundi á vordögum þar sem ég kynnti Nautaskrána. Síðla árs sat ég nokkra fundi með ráðunautum BSE þar sem ég kynnti forritið huppa.is. Leiddi það oft af sér gagnlegar umræður um kynbótastarf í nautgriparæktinni.

Ég ritaði nokkuð á þriðja tug pistla í Bændablaðið um ýmis málefni tengd landbúnaði, bæði hérlendis og erlendis. Þá skrifaði ég þrjár greinar í Frey, eina með Jóni V. Jónmundssyni um niðurstöður kynbótamats 2004, önnur var hvatningarorð til bænda um að auka sæðingar á kvígum. Ljóst er að þar er að finna hvað mest sóknarfæri í ræktunarstarfinu. Sú þriðja fjallaði um úttekt á heyöflun kúabænda, en haustið 2003 voru heybirgðir kúabænda 57% umfram reiknaðar þarfir samkvæmt forðagæsluskýrslum. Sýnt þykir að þar er að finna mikla möguleika á hagræðingu í búskapnum, þar sem kostnaður af þessari umfram heyöflun nemur tugum milljóna kr.

Erlend samskipti voru þau helst á árinu að ég sat ársfund danskra kúabænda í Herning í lok febrúar. Ljóst er að þar er kúabúskapur í einna örastri þróun af öllum ríkjum Evrópu, búum fækkar hratt og stækkunin er í sama takti. Talsverð óvissa ríkir þar í landi um framtíð mjólkurframleiðslunnar vegna breytinga á styrkjakerfi ESB. Einnig eru sívaxandi kröfur vegna umhverfismála búgreininni nokkur fjötur um fót. Þó var það mál manna að nautgriparæktin ætti talsverða möguleika, hún væri ein sú tæknivæddasta á sínu sviði í Evrópu og meirihluti mjólkurinnar kæmi úr nýlegum fjósum. Þá væri kynbótastarf og ráðgjafaþjónusta einhver hin öflugasta sem þekktist. Önnur erlend samskipti voru þau að ég sótti námskeið, ásamt Þorvaldi Kristjánssyni M.Sc. nema á Hvanneyri, í Svíþjóð í desember sl. Tilgangur þess var að læra á tölvuforritið EVA (Evolutionary Algorithm), sem er notað til að reikna skyldleikaræktarstuðla og þróun skyldleikaaukningar í búfjárstofnum og “genetic contribution” (erfðaframlag) einstakra gripa. Einnig er forritið notað til að gera pörunaráætlanir sem hafa það að markmiði að hámarka erfðaframför með lágmarks aukningu í skyldleikarækt. Notkun þess er á verkefnaáætlun vormánaða 2005.

Í upphafi árs gerðist sá ánægjulegi atburður að ferð mín og Þórarins Lárussonar héraðsráðunautar um Austurland haustið 2003, skilaði verulegum árangri. Kúabændum í skýrsluhaldi fjölgaði um ríflega þriðjung og er þátttakan þar svipuð og í öðrum héruðum landsins. Þá ber þess að geta að öll bú í mjólkurframleiðslu í þeim fjórðungi eru nú með í einstaklingsmerkingum nautgripa.

Á haustdögum vann ég við að fá svör við spurningalistum vegna athugunar á kálfadauða, eins og áður hefur verið minnst á. Hafði ég samband við 50 bú (af 90) vegna þess verkefnis. Vil ég sérstaklega þakka bændum ánægjuleg samtöl og viðtökur hvað það verkefni varðar. Gerð var grein fyrir frumniðurstöðum þess verkefnis á Fræðaþingi landbúnaðarins 2005.

Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki mínu hjá Bændasamtökum Íslands, svo og bændum og búaliði öllu, ánægjuleg samskipti á árinu 2004.

 

Sveinbjörn Eyjólfsson

Nautastöðin á Hvanneyri

Starfsemi Nautastöðvarinnar var með venjubundnu sniði á árinu 2004.  Auk hefðbundinnar starfsemi, voru unnar miklar endurbætur á rannsóknarálmu stöðvarinnar, þarft og tímabært verk.

Á árinu notuðu öll búnaðarsambönd á landinu djúpfryst sæði, fyrir utan Búnaðarsamband Norður-Þingeyinga sem hefur hætt sæðingum vegna kúafæðar. Innheimta sæðingagjalda var með svipuðum hætti og verið hefur, þ.e.a.s. ákveðið gjald á hverja framtalda kú og kvígu á forðagæsluskýrslum.  Árið 2004 var gjaldið 893 kr. án vsk á hverja fullorðna kú og 446 kr. án vsk á hverja kvígu.  Gjaldið hækkaði nokkuð frá árinu á undan en á sama tíma hélt kúm áfram að fækka þannig að tekjur stöðvarinnar hækkuðu ekki að sama skapi.

Alls voru sendir út 47.613 skammtar af sæði á árinu á móti  50.292 skömmtum á árinu 2003, það er rétt um 2.600 skammta fækkun.  Ástæða þessar fækkunar getur m.a. verið hvernig afgreiðslu sæðis í kringum áramót er háttað og einnig hvernig síðustu skammtar Sunnlendinga eru skráðir. Skipting í flokka var þannig (innan sviga árið 2003) að 48,51% (47,2%) var úr reyndum nautum, 49,56% (50,11%) úr óreyndum nautum og einungis 1,93% (2,66%) úr holdanautum og hefur það hlutfall ekki verið svona lágt mjög lengi. Svo sem sjá má af þessum tölum er notkun á ungnautasæðinu hlutfallslega mest og er það gott og tryggir framgang þess kynbótakerfis sem við notum.  Ljóst er að lítil notkun holdanautasæðis endurspeglar mikla þörf fyrir ásetning á kvígukálfum.  Í ár gerðist það í fyrsta sinn að settur var formlegur kvóti á notkun sæðis úr tveimur nautum, þeim Tein 97001 frá Akbraut og Stíg 97010 frá Oddgeirshólum.  Var það gert vegna yfirburða þeirra.  Heilt yfir tókst þessi aðgerð mjög vel þó að erfið væri

Í upphafi árs voru 24 naut á stöðinni en í lok ársins 19 en fjósið tekur 27 gripi og á sumum tímum ársins var fjósið fullt.  Á árinu voru teknir 161.421 skammtar af sæði úr 47 nautum á móti 136.709 skömmtum úr 48 nautum árið 2002.  Af þessum 47 nautum voru 6 sem ekki gáfu nothæft sæði og fóru ekki í dreifingu.  Af nautum fæddum árið 2002 fóru 22 í dreifingu og af nautum fæddum 2003 eru þegar 20 farnir í dreifingu og trúlegt að þeim muni fjölga.

36 naut voru felld á árinu og var meðalaldur þeirra 21 mánuðir.  Í eftirfarandi töflu kemur fram flokkun fallanna og meðalþyngd hvers hóps 2004 og til samanburðar árin 2003, 2002, 2001, 2000 og 1999.

 

UNI A            UNI M+              UNI M          UN II M+         UN II M

2004 (36)          12 (211 kg)        12 (181 kg)         8 (146 kg)          4 (116 kg)       0 (136 kg)

2003 (44)          28 (200 kg)          7 (215 kg)         2 (154 kg)          6 (151 kg)       1 (136 kg)

2002 (20)          18 (245 kg)          1 (217 kg)                                   1 (162 kg)

2001 (26)          17 (230 kg)          6 (218 kg)         2 (145 kg)           0

2000 (38)          24 (245 kg)        10 (197 kg)         4 (154 kg)           0

1999 (28)       11 (225 kg)         6 (222 kg)        9 (214 kg)         2 (162 kg)

 

Öllum gripum var slátrað í Borgarnesi.

Á árinu var gengið í að lagfæra rannsóknarálmu stöðvarinnar.  Samið var við PJ-byggingar á Hvanneyri um verkið, sem fólst í að byggja ris á álmuna og klæða utan veggi.  Starfið gekk vel og tók skamman tíma.

Hey var sem fyrr keypt af Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og af sama aðila var keypt vinna við að tæma haughús.  Samstarf við háskólann og starfsmenn hans er stöðinni mjög mikilvægt. Fram að þessu hefur stöðin að mestu notað þurrhey en ákveðið var sumarið 2004 að hætta að fóðra með þurrheyi og nýta rúlluhey.  Það hefur gefist vel og sjá má á mati á skrokkum að það hefur batnað.

Á árinu sat ég þrjá fundi í vinnuhópi um ræktunarmál sem heyrir undir fagráð í nautgriparækt. Fundirnir fóru fram á Selfossi og í framhaldi þeirra farið í Þorleifskot og valdir nýir ungkálfar til flutnings að Hvanneyri.

Á árinu var nokkuð um gestakomur.  Við tókum sem fyrr á móti nemendum við Landbúnaðarháskólann, sýndum þeim stöðina og sögðum frá starfi og hlutverki hennar.  Þá tókum við á móti tveimur hópum bænda, annars vegar Eyfirðingum og hins vegar Hrunamönnum.  Þó að ekki sé mikil aðstaða til gestamóttöku hér á stöðinni voru þessar heimsóknir hinar ánægjulegustu í alla staði.

Nautaskráin var gefin út með sama hætti og undanfarin ár.

Ingimar Einarsson var sem fyrr aðalhirðir og aðstoðarmaður á stöðinni.  Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir á Hvanneyri sá um afleysingar í sumarfríum starfsmanna.  Eru þeim þökkuð vel unnin störf.

 

Þórfríður Haraldsdóttir og Sigurmundur Guðbjörnsson

Nautauppeldisstöðin

Árið 2004 voru teknir inn á stöðina 50 kálfar og skiptast þeir þannig eftir landshlutum: Vesturland 13, Norðurland 15,  Austurland 0 og Suðurland 22.

Nautsfeður voru þessir á árinu: Soldán 95010 3 synir, Hófur 96027 17 synir, Fróði 96028 10 synir, Hvítingur 96032 sex synir, Prakkari 96007 fjórir synir, Stígur 97010 fjórir synir, Túni 95024 tveir synir, Pínkill 94013 tveir synir, Sproti 95036 einn sonur, Bylur 97002 einn sonur. 30 naut urðu ársgömul á árinu og var meðalþungi þeirra 333 kg lifandi vigt og brjóstmál 162 sm. Alls voru flutt 33 naut að Nautastöðinni á Hvanneyri til sæðistöku. Hinn 16. mars fóru 13 naut, 26. júlí fóru átta naut, 17 september fóru fimm naut og 2. desember fóru fjögur naut. 15 naut voru send í sláturhús af ýmsum orsökum.

Störf okkar við stöðina voru með svipuðum hætti og undanfarin ár. Fóðrun gekk vel, heilsufar var gott og engin vanhöld urðu. Nautauppeldistöðin er sóttvarnarstöð og fara þarf eftir settum reglum. Þar af leiðandi verður allt hreinlæti að vera í góðu lagi, kálfakassa og stíur bæði í móttöku og sóttkví þarf að hvítþvo og sótthreinsa. Hálfsmánaðarlega eru allir gripir eins árs og yngri vigtaðir svo og fóðrið í þá með tilheyrandi skýrsluhaldi. Við 60 daga aldur er hver gripur veginn þrjá daga í röð til að fá nákvæmari vigt. Það er endurtekið þegar gripirnir eru eins árs. Við sjáum um hey- og fóðurblöndukaup og móttöku á því, svo og viðhald á tækjum og búnaði. Kálfa af Suðurlandi höfum við sótt sjálf. Köfnunarefnistankur er í okkar vörslu og sjáum við um sæðisdreifingu til frjótækna á Suðurlandi.

 

Gunnar Guðmundsson

Endurskipulagning á rekstri Nautastöðva BÍ

Snemma á árinu var hafin endurskoðun á fyrirkomulagi nautauppeldis og rekstri nautastöðvanna á vegum BÍ.  Byggingar sem starfsemin er rekin í eru komnar til ára sinna og þörf fyrir viðhald er vaxandi, auk þess sem viðhorf til aðbúnaðar búfjár hefur verulega breyst á síðustu árum.  Eitt af markmiðunum er að greina reksturinn og kanna færar leiðir til hagræðingar.  Aflað hefur verið upplýsinga um hvernig staðið er að hliðstæðri starfsemi í grannlöndunum.  Á stjórnarfundi í september var málið tekið á dagskrá og þar var samþykkt að vinna málið áfram með það að markmiði að leggja formlegt erindi fyrir búnaðarþing 2005 til afgreiðslu. Búnaðarþing 2005 hefur nú falið stjórn BÍ að vinna áfram að því að finna framtíðarlausn fyrir þessa starfsemi

 

Tæknilausnir í fjósum

Samningur BÍ/LK við Bútæknideild Rala um átaksverkefnið ,,Tæknilausnir í fjósum”, sem hófst árið 2003 var framlengdur til eins árs með sama umfangi og árið á undan.  Markmið verkefnisins var að veita bændum einstaklingsbundna ráðgjöf um aðgerðir til að auðvelda og létta vinnu í fjósum, – einkum með breyttum vinnubrögðum og hagnýtingu á einföldum tækni- og hjálparbúnaði.  Í framkvæmd hefur verkefnið leitað nokkuð ákveðið frá settum markmiðum, þ. e. í átt til byggingahönnunar og stærri framkvæmda á því sviði. Umfang á árinu nam hálfu stöðugildi og var það fjármagnað að jöfnum hluta af Framleiðnisjóði og Framkvæmdanefnd um búvörusamninga.  Framhald verkefnisins verður nú metið, en sýnt þykir að eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem í boði var réttlætir tæpast áframhald þess í óbreyttu formi.

 

 

Einstaklingsmerkingar nautgripa

Rekstur einstaklingsmerkingakerfis fyrir nautgripi og svín, sem hófst síðla árs 2003 gekk snurðulítið á árinu.  Það fyrirkomulag pantana og dreifingar merkja sem lagt var upp með gengur þolanlega. Allmargir bændur hafa kvartað um að eyrnamerkin væru ógreinileg og dökknuðu fljótt.  Um er að ræða vandamál sem allir merkjaframleiðendur eiga við að stríða og hefur framleiðandi merkjanna upplýst að verulegra lagfæringa á þessu sé að vænta á fyrstu mánuðum árins 2005.

 

Kennsla við LBHÍ

Starfsmenn Bændasamtakanna taka jafnan þátt í kennslu í ýmsum greinum við háskólann svo og einnig starfsmenntadeild hans. Haustið 2004 sáu starfsmenn samtakanna um verulegan hluta kennslu í nautgriparækt á þriðja og fjórða ári búvísindanáms. Samkomulag við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um þátttöku Bændasamtakanna í kennslu í sn. ráðunautafræðum á lokaári háskólanáms kom til framkvæmda á fyrri hluta ársins.  Starfsmenn BÍ og búnaðarsambandanna tóku þátt í þessari frumraun og virðist samdóma álit nemenda að bærilega hafi tekist til.  Héraðsráðunautar, af yngri kynslóðinni, sáu um kynningu á ráðgjafastörfum og greindu frá reynslu sinni.  Hagnýt verkefnavinna í ráðgjafarstörfum var í höndum starfsmanna Búnaðarsamtaka Vesturlands.

 

Rannsóknir á snefilefnum í fóðri

Mjög lítið var unnið í þessu verkefni á árinu, en búnaðarþing 2002 ályktaði um þörf rannsókna á þessu sviði.  Fyrir liggur áætlun um fyrsta verkhluta og fengist hefur fjármagn úr Framleiðnisjóði til verkefnisins.  Rannsóknastofnun landbúnaðarins var ábyrgðaraðili þess.  Nú liggur fyrir að lítið verður unnið í verkefninu fyrr en á fyrri hluta ársins 2005.

 

Samnorrænt fóðurmatskerfi  ,,NorFor”

Norræna samvinnuverkefninu um þróun á nýju fóðurmatskerfi fyrir jórturdýr miðaði vel á árinu.  Í kjölfar ítarlegs samanburðar á fjórum fóðurmatskerfum varð niðurstaðan að velja til áframhaldandi þróunar og aðlögunar norskt kerfi (AAT-Modellen) sem fóðurfræðingurinn Harald Volden við Norska landbúnaðarháskólann smíðaði fyrir tilstuðlan norsku mjólkursamlaganna,  TINE.  Fóðurmatskerfið hefur hlotið nafnið ,,NorFor-plan”. Stefnt er að því að hefja notkun á því við fóðurmat og fóðuráætlanagerð frá og með hausti 2005.  Ennfremur er hafin þróun á öflugum hugbúnaði til að þjóna fóðurmatskerfinu og í tengslum við hann verða byggðar upp norrænar fóðurtöflur sem verða aðgengilegar á netinu. Við innleiðingu fóðurmatskerfisins hér á landi er stefnt að því að mynda samvinnuverkefni BÍ, LBHÍ og búnaðarsambandanna.

 

Erlent samstarf- ,,NBC-Husdyr”

Um árabil hafa Bændasamtökin sent fulltrúa á árlega fundi ræktunarsamtaka nautgripa á Norðurlöndum.  Samstarf innan þessa hóps hefur fram til þessa einkum snúist um skýrsluhald og kynbætur en er nú í vaxandi mæli að færast inn á ný svið, s.s. fóðrun, fóðurmat, rannsóknasamvinnu og heilbrigði.

 

 

Ritstörf

Líkt og áður voru gefin út sérstök fagblöð af Frey um nautgriparækt. Í þeim er að finna töluverðan fjölda greina um nautgriparækt auk þess sem starfsmenn hafa skrifað allmarga pistla um nautgriparækt í Bændablaðið.

Útgáfu á sérstökum töfluheftum búfjárræktarinnar, sem gefin höfðu verið út um árabil, var hætt á árinu 2003 en í staðinn hefur komið vinna við að koma því efna til skila á Netinu þar sem það er nú og verður aðgengilegt.

 

Rvík. 15.03.2005.

/GG