30. mars 2005

Ársskýrsla til fagráðs frá embætti yfirdýralæknis

Skýrsla til fagráðs í nautgriparækt 2004

 

Sigurður Sigurðarson

forstöðumaður rannsóknadeildar yfirdýralæknis

 

Kúariða

Nær engar líkur eru taldar á því að kúariða komi upp á Íslandi. Slíka umsögn hefur Ísland fengið í Evrópusamfélaginu vegna árangurs af varnaraðgerðum sem beitt hefur verið gegn sauðfjárriðu og eftirlits með kúariðu.

Á hverju ári þarf að taka og skoða a.m.k. um 50 heilasýni úr nautgripum til vöktunar á kúariðu. Á árinu 2004 var 82 heilasýnum safnað úr nautgripum vegna vöktunar á kúariðu. Öll voru tekin úr heilbrigðum dýrum í sláturhúsum, 24 mánaða eða eldri, og öll voru neikvæð. Við greininguna var notuð vefjaskoðun. Auk þessara sýna voru 12 heilasýni úr nautgripum sem safnað var árið 2003, send til Noregs til ónæmisprófunar gegn kúariðu. Þessi sýni reyndust einnig öll neikvæð (1. tafla).

Mikilvægast er að rannsaka heilasýni úr nautgripum sem sýna óútskýrð einkenni frá miðtaugakerfi, í öðru lagi úr veikum gripum sem lóga þarf af öðrum ástæðum, og í þriðja lagi sjálfdauðum gripum og gripum sem lóga þarf vegna slysa. Engin sýni bárust úr slíkum gripum á árinu.

 

Fjöldi heilasýna
Heildarfjöldi Úr Úr dýrum með Jákv. Neikv.
skoðaðra heilbrigðum einkenni frá
sýna dýrum miðtaugakerfi*
2002 41 41 0 0 41
2003 120 119 1 0 120
2004 94 94 0 0 94

 

1.tafla.  Kúariðuvöktun á Íslandi á árunum 2002-2004. Fjöldi heilasýna úr nautgripum, sem tekin voru í sláturhúsum.*: Ekki kúariðueinkenni.

 

Garnaveiki í jórturdýrum

Garnaveiki erfiður og langvinnur sjúkdómur í öllum jórturdýrum, sem barst hingað til lands frá Þýskalandi við ógæfusamlegan innflutning á karakúlfé árið 1933. Það hefur komið í ljós, að vinna má bug á henni en það kostar nákvæm, oft tekjuskerðandi og oftast óvinsælar aðgerðir.  Eftirlit með veikinni byggir á upplýsingum, sem eigendur og dýralæknar gefa, skoðun líffæra í sláturhúsum og sending grunsamlegra sýna að Keldum.

Á árinu bárust hátt á 3. þúsund garnasýna úr sauðfé og 32 garnasýni úr nautgripum til rannsóknar á garnaveiki. Garnaveiki fannst ekki í nautgripum á árinu. Veikin var staðfest í sauðfé á 8 bæjum. Þetta eru heldur færri bæir en árið áður. Á fjórum bæjanna var veikin staðfest í fyrsta sinn (síðustu 10 árin). Í engu tilfelli fannst veikin á nýju svæði. Þessi fjöldi er eflaust vantalinn, m.a. vegna þess að það er dýrt fyrir eigendur að senda vanþrifakindur í sláturhús, þar sem þeim yrði líklega fleygt. Oft eru vanþrifakindur skotnar og grafnar heima, og því ekki látið vita af þeim og ekki tekin garnasýni. Samt hefur mönnum staðið það til boða árum saman að fá dýralækni til að skoða slíkar kindur  sér að kostnaðarlausu. Sýnataka og skoðun í sláturhúsum hefur sums staðar verið ófullkomin. Á mörgum svæðum hefur eftirlit með bólusetningu ekki verið sem skyldi bólusetning framkvæmd seint og jafnvel hafa bæir orðið útundan. Nauðsynlegt er að ráða bót á þessu.

Ljóst virðist að garnaveiki sé hægt að útrýma, en þar sem nautgripir eru sýktir er sú barátta erfiðari. Því má ekki gleyma að veikin getur einnig sýkt geitur og hreindýr, og öll jórturdýr geta verið einkennalausir smitberar um langan eða skamman tíma.

 

Í marslok 2005 er garnaveiki ekki lengur þekkt á Vestfjörðum og bólusetningu ásetningslamba gegn henni hætt þar, einnig í Miðfjarðarhólfi frá Hrútafirði að Hvammstanga, í Skjálfandahófi frá Skjálfandafljóti að Jökulsá á Fjöllum, í Héraðshólfi og Austfjarðahólfi frá Jökulsá á Brú að Lagarfljóti og frá Héraðsflóa að Reyðarfirði og í Eyjafjallahólfi frá Mýrdal að Markarfljóti. Nokkur svæði til viðbótar eru um þann veginn að ná þessum árangri og von til að garnaveikibólusetningu megi leggja niður á næstu árum þ.e. í Dalasýslu norðan Laxárdalsheiðar, á Austurlandi frá Melrakkasléttu að Hamarsfirði, í Rangárvallasýsla frá Markarfljóti að Ytri-Rangá og á Snæfellsnes vestan varnarlínu. Garnaveiki hefur aldrei fundist í Skaftafellssýslum vestan Kolgrímu, Dalahólfi nyrðra, Strandasýslu norðan Bitru og Austur-Barðastrandarsýslu, Mývatnssveit og Melrakkasléttu, ekki heldur í Grímsey eða Vestmannaeyjum.

 

Miltisbrandur

Miltisbrandur eða miltisbruni er einn af hinum alvarlegustu smitsjúkdómum, sem oft leiddu nautgripi til dauða hér á landi áður fyrr. Ástæða þykir til að nefna hann, þótt ekki hafi hann fundist í nautgripum hér á landi í 40 ár. Hann barst hingað til lands, er talið víst, með smitmenguðum húðum af stórgripum aðallega frá Afríku. Síðustu 100 árin hefur veikin oftast komið upp í kjölfar jarðrasks af einhverjum toga. Sjúkdómurinn leggst á öll dýr með heitu blóði en þó síst fugla. Sjúkdómurinn getur verið lífshættulegur fyrir fólk. Hann herjaði hér á landi eftir 1865 og drap helst nautgripi og hross, en einnig sauðfé, ketti og hunda. Sögur eru um að nálægt 10 manns hafi dáið af völdum þessa sjúkdóms en mun fleiri sýkst og fengið drepkýli á handleggi og í andlit sem læknuðust. Síðast drápust 5 kýr hér á landi árið 1965 á Þórustöðum í Ölfusi.  Jarðrask hafði orðið við skurðgröft og ræktun á gömlu mógrafasvæði, þar sem upp komu stórgripabein. Síðan er allt tíðindalaust hvað varðar miltisbruna í 40 ár. Í byrjun desember fannst miltisbrandur í hrossum sem drepist höfðu á Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Sagnir um miltisbruna á Vatnsleysuströnd og þær einu, sem þekktar eru nú, eru frá 1875 eða 130 ára gamlar. Þrír hestar drápust og þeim fjórða var lógað veikum. Hræin voru brennd til ösku á staðnum undir stjórn héraðsdýralæknis og askan flutt til dysjunar í Álfsnesi. Skömmu áður hafði rannsóknadeild yfirdýralæknis á Keldum varað við hugsanlegri hættu af miltisbrandi og hafið fræðslu um sjúkdóminn og jafnframt söfnun upplýsinga um staði þar sem áður voru grafin hræ af skepnum sem drápust úr miltisbrandi. Ástæðan var sú, að upplýsingar sem Sigurður fékk á ráðstefnu erlendis m.a. um sjúkdóma í villtum dýrum vöktu upp vissu um það, að smitefnið, bakterían Bacillus, sem myndar dvalargró, getur lifað ótrúlega lengi í jörðu eða a.m.k. 200 ár. Ljóst varð þá, að allir staðir, þar sem miltisbrunahræ hafa verið grafin hér á landi eru hugsanlega hættulegir og geta verið uppspretta miltisbrunasýkingar um ótiltekinn tíma. Fundað var með fornleifafræðingum og fleiri aðilum og dreift upplýsingum um þekkta staði til allra sveitarfélaga landsins og víðar, og þau beðin um aðstoð við frekari upplýsingaöflun. Góð viðbrögð hafa orðið við þessu. Skrásettir hafa verið rúmlega 90 staðir um allt land, misjafnlega vel staðsettir. Þó eru engar sögur um að veikin hafi verið greind á Suðurlandi milli Hornafjarðarfljóta og Ytri-Rangár. Mikilvægt er að njóta aðstoðar allra, sem geta hjálpað til að grafa upp heimildir, munnlegar eða ritaðar, um miltisbruna hér á landi, því að líklegt er að enn sé margt óupplýst. Hafin er tíð með jarðraski á ólíklegustu stöðum. Það þýðir að hættan á því að miltisbruni komi upp á ný hefur vaxið. Þekktir miltisbrunastaðir verða staðsettir og kortlagðir og upplýsingum um það þarf að koma til sveitarstjórna, skipulagsyfirvalda, vegagerðar og fleiri aðila auk yfirdýralæknis, landlæknis og heilbrigðisstétta sem vinna að manna og dýrameinum, en þetta er ekki nóg vegna þeirra staða, sem enn eru óþekktir. Þegar upp koma líkamsleifar dýra eða manna þarf alltaf að taka það alvarlega, forðast að snerta eða anda að sér ryki, tilkynna heilbrigðisyfirvöldum og tryggja fagleg vinnubrögð.

 

Illkynjuð slímhúðarbólga í nautgripum

Illkynjuð slímhúðarbólga (malignant catarrhal fever) er þekktur sjúkdómur hér á landi og er talinn fylgja nánu samneyti sauðfjár og nautgripa, sauðfé hýsi veiruna en sýkist ekki af henni, en nautgripir smitist. Sjúkdómnum veldur herpesveira (OvHv-2). Batahorfur eru litlar fyrir nautgripi sem taka hann. Sjúkdómurinn er ekki bráðsmitandi og dauðsföll eru tíðast eitt eða fá. Þess eru þó dæmi að 4 nautgripir hafi veikst og drepist á skömmum tíma á sama bænum. Engin tilfelli bárust til greiningar að Keldum á árinu.

 

Dauðfæddir kálfar

Talsvert ber á því, og jafnvel meira en víða erlendis, að fullburða kálfar fæðist dauðir, án þess að orsök þess finnist með vissu. Rætt hefur verið um að koma af stað rannsóknarverkefni um þetta og fá til þess doktorsnema. Óvíst er um fjármögnun þótt allir séu sammála um að verkefnið sé brýnt.

 

Slæm umhirða kálfa

Minna bar á því en árið áður að kálfar væru sendir inn vegna galla á umhirðu og aðbúð.

 

Sníkjudýr í og á nautgripum

Ormaveiki  í nautgripum, ekki síst ungviði, er vel þekkt  og á sök á vanþrifum og skituköstum, t.d. vinstrarormar (Ostertagia spp.). Ennfremur er nokkuð um hnísla í meltingarfærum ungneyta. Að þessu þarf að huga nánar því að tjón af völdum þessara sníkjudýra virðist mikið. Á árinu varð vart við naglús (Bovicola bovis) á einum bæ. Við útrýmingu á lúsinni er mikilvægt að farið sé nákvæmlega eftir leiðbeiningum dýralækna vegna hættu á mengun mjólkur með eiturefnum.

 

 

Sýni: Krufning og Unnin Aðrar
  líffæraskoðun vefjasýni athuganir
Nautgripir
Hræ/líffæri 42 77 7
Heilasýni 82
Garnasýni 32 32 16
Blóðsýni – garnaveikipróf 649
Blóðsýni – annað 0
Saursýni 0
Önnur sýni 1
Samtals 74 191 673

 

2. tafla.  Yfirlit yfir rannsóknir á aðsendum sýnum úr nautgripum 2004.

 

Blýeitrun

Enn má sjá rafgeyma sem skildir hafa verið eftir utan húss. Þar eru nokkurs konar tímasprengjur. Það endar með því að geymarnir brotna. Blýsaltið á plötunum er sérstakt sælgæti fyrir nautgripi, sem geta veikst illa og drepist á kvalafullan hátt af blýeitrun. Mjólk og afurðir geta verið menguð, þótt eitrunareinkenni sjáist ekki.

 

Vörtuæxli á kynfærum

Sláturhús senda til rannsóknar líffæri úr öllum nautum frá sæðingarstöðinni á Hvanneyri. Sjaldgæft er að sjúklegar breytingar finnist við skoðun þeirra, en þó kemur fyrir að æxli sjáist á kynfærum nautanna, oftast fremst eða framarlega á sininni, svokölluð vörtuæxli. Talið er víst, að orsök þeirra sé veirusýking og að smitefnið geti borist með sæðinum. Hugsanlegt er talið, að slíkar vörtur geti myndast í fæðingarvegi kúa sem afleiðing af veirusýktu sæði.  Því er rétt að stöðva töku á sæði til frystingar og dreifingar, þegar  slík æxli uppgötvast.

 

Skráningarskyldir sjúkdómar

Sjúkdómar í A-flokki samkvæmt skilgreiningu OIE hafa ekki greinst á Íslandi og fáir sjúkdómar í B-flokki samkvæmt sömu skilgreiningu.

 

Sigurður Sigurðarson dýralæknir