Tilgangur landbúnaðar er meðal annars að framleiða mat, bæði fyrir Ísland og svo að einhverjum hluta til útflutnings. Það er markmið að gera þetta á þann hátt að landið okkar komi sem best frá því og því eru umhverfismál órjúfandi hluti af íslenskum landbúnaði.

Það er ekkert launungarmál að landbúnaðurinn eins og hver önnur atvinnugrein hefur þurft að taka breytingum með nýjum upplýsingum og aukinni vakningu í umhverfismálum. Breytingar og þróun í betri átt fyrir náttúru og land er eitthvað sem við eigum að fagna.
Sumar atvinnugreinar eru þannig, að lengri tíma tekur að skipta út ákveðnum hlutum fyrir umhverfisvænni kosti, það er ekki þar með sagt að ekki sé til staðar vilji til þess að gera betur í þessum málum.

Á síðasta aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var í lok mars s.l. voru umhverfismálin til umræðu.
Þar var einmitt talað um að gera áætlun til að minnka plastnotkun í landbúnaði. Þar verði meðal annars skoðaðar aðferðir við geymslu gróffóðurs sem þarfnast ekki plasts. Einnig verði tryggt að það plast sem er notað sé endurvinnanlegt og stuðlað sé að því að það skili sér til endurvinnslu.

Flokkun getur til dæmis verið umfangsmikið verk þegar rúlluplast fellur kannski til daglega og magnið eftir því. Það er því um að gera að skoða allar aðferðir sem geta dregið úr plastnotkun við fóðuröflun.
Þá var á fundinum rætt um fjármagn sem lagt hefur verið af stjórnvöldum til aðgerða í loftslagsmálum en bent var á að landbúnaðurinn hefur stóru hlutverki að gegna í átaki í kolefnisbindingu þegar kemur að skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis svo eitthvað sé nefnt.

Nú hefur sauðfjárræktin gert samkomulag við stjórnvöld um að kolefnisjafna greinina, kúabændur hafa verið viljugir til að skoða álíka útfærslu fyrir sína grein enda þörf á.
Þessi mál eru öll í vinnslu, við þurfum að vita hvar við stöndum til að vita hvar á að byrja og hvað sé hægt að gera. Þar mun Landssamband kúabænda njóta aðstoðar ráðgefandi aðila sem hafa þekkingu á málaflokknum og geta aðstoðað við þetta verkefni þar sem við viljum gera eins vel og við getum.