Því eldri kýr, því meiri hagnaður!
Það eru svo sem ekki beint stórtíðindi að með því að vera með eldri kúastofn þá skilar búið meiri hagnaði, enda dýrt að ala upp kvígur og kýr á fyrsta og öðru mjaltaskeiði mjólka að jafnaði minna en kýr á þriðja mjaltaskeiði svo dæmi sé tekið. Það getur þó verið all vandasamt að finna hina gullnu leið að því að hámarka hagnaðinn, enda setja flestir á allar kvígur og þegar þarf að finna þeim pláss í fjósinu er plássið oft fundið með því að taka út eldri kýrnar. Þetta er alþekkt aðferð sem er stunduð víða um heim, þ.e. að setja á allar kvígur, en undanfarin ár hafa áherslurnar á þennan þátt verið að breytast í þá átt að leita leiða til að að bæta endingu kúnna svo þörfin fyrir skipti verði minni.
Fyrirtækin Zoetis og Compeer Financial stóðu saman að rannsókn á Bandarískum gögnum sem náðu yfir rekstur rúmlega 40 kúabúa og samanstóð gagnasafnið af 11 ára rekstrarupplýsingum um hvert bú og samtals innihélt gagnasafnið 489 rekstrarár. Í ljós kom að munurinn á þeim búum sem voru með minnsta endurnýjun í kúastofninum á hverju ári, í samanburði við búin með mesta endurnýjun, var verulegur. Þannig var meðalnyt búanna 3,2 kg hærri á dag á hverja kú og aukinn hagnaður búanna var 376 dollarar á hverja kú á ári eða um 47 þúsund íslenskar krónur.
En hverju mæla svo vísindamennirnir með að bændur geri til að draga úr endurnýjunarþörf kúa? Hér er ekkert nýtt undir sólinni:
– fylgjast með og bregðast við frumutölu kúa yfir 200.000/ml
– huga sérstaklega vel að kúnum fyrstu þrjár vikurnar eftir burð þegar þær eru líklegastar til að veikjast
– vera með góða kynbótaáætlun svo þær kvígur sem koma inn séu þær mögulega bestu fyrir kúabúið
– ala kvígurnar rétt upp/SS.