Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki – Askurinn 2019
Íslandsmótið í matarhandverki fer fram 23. nóvember n.k. á Hvanneyri í samstarfi við Matarauð Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Matís, Markaðsstofu Vesturlands og Samtök sveitafélaga á Vesturlandi.
Keppni í matarhandverki er fyrir framleiðendur matarhandverks að sænskri fyrirmynd en var haldin í fyrsta sinn á Íslandi haustið 2014, þá í samstarfi Matís og Ný norræn matvæli (Ny Nordis Mad). Keppnin tókst mjög vel, 110 vörur tóku þátt í 8 matvöruflokkum frá öllum Norðurlöndunum.
Keppnin felur í sér að framleiðendur fá faglegt mat á gæði vörunnar og eru verðlaun, Askurinn, veitt fyrir þær vörur er þykja skara fram úr. Matarhandverk snýst um að skapa vörur þar sem lögð er áhersla á einstakt bragð, gæði og ekki síst ímynd, sem iðnaður getur ekki búið til.
Áherslan er á að nota staðbundin hráefni, framleiðslu í litlu magni sem er oft svæðisbundin. Matarhandverksvörur eru heilnæmar, án óþarfra aukaefna og vörur sem hægt er að rekja til upprunans. Aðalsmerki matarhandverks er að nota það hráefni, mannafla og verkkunnáttu sem fyrirfinnst á staðnum, í gegnum alla framleiðslukeðjuna.
Í matarhandverki er lögð áhersla á að þróa hefðbundnar vörur fyrir neytendur dagsins í dag.
Á sama tíma verður Matarhátíð 2019 haldin þar sem verður m.a. matarmarkaður, örfyrirlestrar frá matarframleiðendum og Reko-afhending.
Frekari upplýsingar um keppnisflokka, reglur og þátttöku má finna á heimasíðu MATÍS (HÉR).