Innflutningur á ófrosnu kjöti 0,8% af heildarinnflutningi fyrstu tvo mánuði ársins
Innflutningur á ófrosnu nautgripakjöti hefur farið töluvert hægar af stað en svartsýnustu spámenn töldu. Einungis hafa komið um 965 kg. fyrstu tvo heilu mánuðina 2020 eða frá áramótum til febrúarloka. Þetta er skv. bráðabirgðatölum sem LK hefur fengið afhentar og þær kunna að breytast. Á sama tíma hafa komið tæp 122 tonn af öðru nautgripakjöti, þannig að ófrosið kjöt er vel innan við 1% af heildarinnflutningi þessa tímabils eða 0,8%. Skv. eftirlitsskýrslu MAST sem birt var á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 25. febrúar sl. hafði einungis ein sending verið afgreidd 13. febrúar og kom hún frá Danmörku. Ekkert hafði þá verið flutt inn af öðru ófrosnu kjöti en nautakjöti. Þessi eina sending frá Danmörku var 680 kg. þannig að á síðustu dögum febrúarmánaðar hefur afgangurinn komið til landsins, eða um 300 kg. Þetta eru bæði færri sendingar og töluvert minna magn en gert hafði verið ráð fyrir en mögulega hafa óljósar reglur eða óvissa með afgreiðslu vottorða gert það að verkum að innflytjendur haldi að sér höndum.
Sala nautakjöts innanlands í janúarmánuði, skv. eftirlitsniðurstöðum þess sem áður var Búnaðarstofu en er núna hluti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dróst saman um tæp 10% eða rúm 50 tonn frá janúar í fyrra. Hér gæti að vísu verið um eðlilegar sveiflur að ræða. Birgðasöfnun hakks t.d. í landinu gæti skýrt þessa minnkun að einhverju leiti.
Ef aftur er horft til innflutnings á nautakjöti þá var hann tæplega 95 tonn í janúar og febrúar 2019 en var skv. bráðabirgðatölum tæp 123 tonn með ófrosna hlutanum á sama tíma 2020. Það var þannig um 29% aukning á innflutningi á nautgripakjöti fyrstu tvo mánuði ársins 2020. Þetta gæti einnig skýrt að einhverju leiti niðursveiflu í framleiðslu og sölu á innlendu nautakjöti í janúarmánuði. Sölu- og framleiðslutölur fyrir febrúarmánuð liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað.
Enn sem komið er má þannig segja að ófrosna kjötið sé ekki að hafa nein teljandi áhrif en þegar horft er til þess að tollkvóti hefur verið aukinn töluvert á innflutningi frá ESB svæðinu fyrir árið 2020 er alltof snemmt að fullyrða nokkuð um það hvernig framtíðin mun líta út. Staðan hins vegar núna sl. mánaðarmót var innan við tonn, sem telst afar lítið m.v. hvað svartsýnustu spámenn höfðu haldið fram.
Uppfært: Eftir að fréttin birtist á heimasíðu LK, naut.is gaf ANR út nýjar tölur. Skv. þeim var salan 387 tonn rúmlega í febrúar. Það er samdráttur upp á rúmlega 4% frá febrúar í fyrra. Rúllandi 3 mánaða hlutdeild innlendrar framleiðslu þegar innflutningur er leiðréttur fyrir beini er 80%.