Hámarksverð á kvótamarkaði verður 294 krónur
Frá og með markaði fyrir greiðslumark mjólkur sem haldinn verður þann 1. september 2020 verður hámarksverð greiðslumarks sem nemur þreföldu afurðastöðvaverði og mun það gilda fyrir alla markaði út árið 2023. Á markaði sem haldinn verður þann 1. september verður hámarksverð kr. 294,- og mun krónutalan uppfærast samhliða breytingum á afurðastöðvaverði á tímabilinu.
Auk þess er nú skýrar kveðið á um forgang nýliða en eftir fyrsta markað ársins, þann 1. apríl sl., gerði stjórn LK athugasemdir við túlkun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á forkaupsrétti nýliða á 5% þess magns sem í boði er hverju sinni. Forgangsmagn skiptist nú hlutfallslega milli nýliða í samræmi við þann lítrafjölda sem þeir óskuðu eftir að kaupa. Það greiðslumark sem þá er eftir skal boðið öðrum kaupendum á sama hátt, sem og aðilum sem nutu forgangs.
Við minnum á að bændur þurfa að skila inn tilboðum um kaup/sölu vegna greiðslumarks mjólkur fyrir 10. ágúst nk. fyrir markaðinn 1. september. Hægt er að senda inn tilboð frá og með 5. ágúst nk.
Verð á umframmjólk lækkar og þrýstingur eykst
Hámarksverð á fyrsta markaði ársins fyrir greiðslumark mjólkur, sem haldinn var þann 1. apríl sl. var 185 krónur eða sem nam þá tvöföldu lágmarks afurðastöðvaverði. Á þeim markaði voru 9 gild sölutilboð og 218 gild kauptilboð. Greiðslumark sem boðið var fram voru alls 586.046 lítrar en óskað var eftir 9.836.190 lítrum. Greiðslumark sem viðskipti náðu til voru 585.981 lítrar að andvirði 108.406.485 kr. Eftirspurn var því tæplega 17föld á við framboðið. Gerði LK athugasemdir á þeim tíma við þá ákvörðun að sett hámarksverð greiðslumarks gilti einungis um einn markað og bent var á vegna þess myndu líklega margir framleiðendur bíða með að bjóða greiðslumark til sölu og sjá hvernig fyrirkomulagið myndi þróast.
Þann 27. júní sl. kom tilkynning frá Auðhumlu um að verð á umframmjólk myndi lækka frá og með 1. ágúst nk., úr 29 krónum í 20 krónur á lítrann. Þegar litið er til þeirrar verðlækkunar ásamt þróunar á framboði og eftirspurn undanfarin ár og þess mikla þrýstings sem kominn er á kerfið var niðurstaða framkvæmdanefndar búvörusamninga að gera tillögu að því að hámarksverð yrði sett sem þrefalt afurðastöðvaverð og að sú ákvörðun gilti fram að næstu endurskoðun samningsins 2023.
Hér má sjá frétt af vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.