Fonterra: plöntuafurðadrykkir eru verri fyrir umhverfið!
Stöðugur áróður fyrir neyslu matvæla sem ekki innihalda búfjárafurðir er oft tengdur við neikvæð umhverfisáhrif matvæla sem innihalda búfjárafurðir og er oft erfitt að fóta sig í þessari umræðu allri saman. Nú hefur nýsjálenska afurðafélagið Fonterra snúið vörn í sókn og sérfræðingar þess hafa reiknað út að umhverfisálagið af neyslu drykkja úr plöntuafurðum, sem sumir líta á sem staðgönguvöru fyrir mjólk, sé mun meira en ef fólk drekkur hefðbundna mjólk!
Samkvæmt fréttatilkynningu Fonterra þá felast nefninlega tvöfalt dýpri sótspor við neyslu plöntudrykkja sem framleiddir eru úr soja, hnetum, höfrum eða hrísgrjónum ef horft er til þeirra næringarefna sem fólk fær í samanburði við hefðbundna drykkjarmjólk! Þannig fá neytendur 30% meira af próteini með neyslu á drykkjarmjólk umfram sojadrykk, sem inniheldur mest prótein af hefðbundnum plöntuafurðadrykkjum á markaðinum, og þrisvar sinnum meira af próteini fæst úr drykkjarmjólk í samanburði við þá plöntuafurðadrykki sem innihalda minnst af próteini eins og t.d. drykk sem framleiddur er úr hnetum.
Fonterra hefur látið skoða þetta nákvæmlega í samstarfi við bæði háskóla í Bandaríkjunum og Svíþjóð og var niðurstaðan sú, eftir að hafa skoðað 21 algenga plöntuafurðadrykki á markaðinum, að losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu á hefðbundinni drykkjarmjólk var langtum minni en við framleiðslu á samanburðardrykkjunum þegar tekið var tillit til næringarinnihaldsins.
Þannig verður til helmingi minna magn af gróðurhúsalofttegundum við framleiðslu á hefðbundinni drykkjarmjólk en t.d. við framleiðslu á drykk sem framleiddur er úr sojabaunum og 10% minni losun verður í samanburði við framleiðslu á drykk sem framleiddur er úr hrísgrjónum.
Þá kom í ljós í sömu rannsókn að mikill munur er á milli landa hve sótspor hefðbundinnar mjólkur er stórt og t.d. er sótspor mjólkurframleiðslu í Nýja-Sjálandi 30% lægra en sótspor sænskrar mjólkur/SS.