Danone gengur vel
Þriðja stærsta afurðafyrirtæki heims í mjólkuriðnaði, hið franska Danone, hefur nú birt hálfs árs uppgjör sitt og sýna niðurstöðurnar að fyrirtækið er í góðum vexti. Alls jókst velta þess um 2,4% á tímabilinu í samanburði við árið 2017 og nam hálfs árs velta þess 12,5 milljörðum evra eða um 1.530 milljörðum íslenskra króna! Í skýringum með uppgjörinu kemur þó fram að Danone eigi í töluverðum vandræðum í Norður-Afríku, en þar hafa neytendur tekið sig til og snúið baki við ýmsum alþjóðlegum fyrirtækjum sem heimamenn telja að hafi komið inn á markaðinn með óheilnæma viðskiptahætti og haft áhrif til hækkunar á neysluvörum. Sem dæmi má nefna að í Marokkó, á öðrum ársfjórðungi þessa árs, dróst salan hjá Danone saman um 40%.
Sé horft til markaðsmálanna í Evrópu þá hefur salan heldur dregist saman í Frakklandi og á Spáni en aukist í Stóra-Bretlandi, á Norðurlöndunum og í Austur-Evrópu. Þá hefur kínverska afurðafyrirtækið Mengniu hækkað verulega á markaði og hjálpar það Danone enda á fyrirtækið 9% í Mengniu/SS.