Bókun við samkomulag undirrituð
Þann 20. nóvember sl. var atkvæðagreiðslu um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar sem hefjast átti þann dag, frestað um viku, til miðvikudagsins 27.nóvember.
Síðan þá hefur samninganefnd bænda átt samtal við ríkið um frekari útfærslu ákveðinna atriða samkomulagsins sem undirritað var 25. október síðastliðinn og var í dag skrifað undir bókun við fyrrnefnt samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar.
Það voru Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, og Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, sem undirrituðu bókunina fyrir hönd bænda ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í bókuninni er vikið að þremur atriðum; hámarksverði greiðslumarks, aðilaskiptum á greiðslumarki og tilfærslu greiðslumarks á milli lögbýla.
Bókunin hljóðar svo í heild sinni:
„Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að verð á greiðslumarki á hverjum tíma stuðli að aukinni verðmætasköpun á bújörðum og hagkvæmni í rekstri. Í samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem skrifað var undir þann 25. október 2019, kemur fram að ef verðþróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti sé ráðherra heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að setja hámarksverð á greiðslumark.
Aðilar eru sammála um að í janúar 2020 muni framkvæmdanefnd búvörusamninga taka afstöðu til þess hvort setja skuli hámarksverð á greiðslumark á fyrsta markaði með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Tillaga verði lögð fyrir ráðherra eigi síðan en 1. febrúar 2020. Hámarksverð getur aldrei orðið hærra en þrefalt lágmarksverð mjólkur til framleiðenda eins og það er á hverjum tíma.
Aðilar eru sammála um að öll aðilaskipti greiðslumarks mjólkur skuli fara fram á markaði samkvæmt ákvæðum samkomulags frá 25. október 2019. Þó verður áfram heimilt að staðfesta aðilaskipti á milli aðila innan sama lögbýlis og tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila, enda hafi öll lögbýlin verið í hans eigu fyrir 31. desember 2018.
Aðilar eru einnig sammála um að heimilt verði, frá og með gildistöku samkomulagsins, að staðfesta tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla ef framleiðandi, sem er einstaklingur, flytur búferlum með allan sinn rekstur, það er leggur niður rekstur á einu lögbýli í því skyni að hefja hann að nýju á öðru lögbýli, enda sé viðkomandi sannarlega ábúandi á nýju jörðinni, með skráð lögheimili þar og stundi þar búrekstur.
Fyrirkomulag viðskipta með greiðslumark skal nánar útfært í reglugerð í samræmi við samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 25. október 2019 og bókun þessa.“
Með þessari bókun er búið að skýra enn frekar hlutverk framkvæmdanefndar í búvörusamningum ásamt viðmiðum þeim sem nefndin skal starfa eftir við útreikning hámarksverðs. Í framkvæmdanefnd eiga bændur sem fyrr þrjá fulltrúa á móti þremur frá ríki.
Einnig er með bókuninni búið að tryggja að tilfærsla greiðslumarks utan markaðar geti aðeins átt sér stað hjá aðilum sem áttu lögbýli fyrir síðustu áramót og svo tilfærsla greiðslumarks í eigu framleiðanda, þá einstaklings, sannarlega við búferlaflutninga.
Drög að nýrri reglugerð, þar sem allar breytingar sem endurskoðaður nautgripasamningur hefur í för með sér, fer í Samráðsgátt stjórnvalda fyrir hádegi á morgun, 27. nóvember þar sem verður bæði hægt að kynna sér breytingarnar og skila inn umsögnum til úrvinnslu með málinu.
Viljum við enn og aftur hvetja bændur til að nýta rétt sinn í atkvæðagreiðslunni sem hefst kl. 12:00 á morgun og stendur til kl. 12:00 þann 4. desember n.k.
Atkvæðagreiðslan mun fara fram með rafrænum hætti og verður aðgengileg á vef Bændasamtakanna (www.bondi.is)