Af endurskoðun búvörusamninga
Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem hefur verið til endurskoðunar frá því í vor.
Markmið samkomulagsins er óbreytt fyrir utan að við bætist að stuðla eigi að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Þá er áhersla lögð á rannsóknir og menntun ásamt sjálfbærari og umhverfisvænni framleiðslu.
Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016.
Sú vinna sem lagði drög að endurskoðuninni núna var meðal annars aðalfundur Landssambands kúabænda, stefnumörkun LK, kosning um framhald kvótakerfis í mjólkurframleiðslu og stefna Bændasamtaka Íslands.
Fallið verður frá niðurfellingu heildargreiðslumarks sem átti að taka gildi þann 1. janúar 2021 og mun því greiðslumark gilda áfram út samningstímann. Greiðslumark heldur sér þar af leiðandi sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Er þetta í samræmi við niðurstöðu kosningar meðal mjólkurframleiðenda um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu.
Viðskipti með greiðslumark verða leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggja á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2011-2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptum með greiðslumark sem verða útfærðar nánar í reglugerð en þar má nefna hámarkseign af heildargreiðslumarki og hámarksboð á greiðslumarksmarkað svo eitthvað sé nefnt.
Í samningnum kemur fram að aðilar hafi gert með sér samkomulag um markmið í kolefnisjöfnun nautgriparæktar, þ.e. að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Ein helsta forsenda þess að markmiðinu verði náð er að byggja upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, bættri fóðrun, meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar ásamt því að auka enn frekar þekkingu bænda á sínu landi og um leið efla getu þeirra til að auka bindingu kolefnis á því og draga úr losun.
Nánari útfærsla verk- og fjárhagsáætlunar verður í höndum starfshóps sem skilar af sér eigi síðar en 1.maí 2020. Fjármagn í þennan lið mun koma af framleiðslujafnvægisgreininni og er þar miðað við að um 30% af fjármagni því sem fellur undir greinina verði ráðstafað til slíkra verkefna og mun því falla undir hlutverk framkvæmdanefndar. Þessi verkefni eru mörg og misjafnlega stór, því verður leitast eftir frekari fjármögnun utan samningsins eftir því sem verkefnin gefa tilefni til, enda er fyrirhugað að verja verulegum fjárhæðum af hálfu stjórnvalda til aðgerða á sviði loftslagsmála á næstu árum. Tekið verður til skoðunar að innleiða fjárhagslega hvata fyrir bændur til að ná árangri í að auka bindingu kolefnis.
Gerð verður greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Þá verður fyrirkomulag verðlagningar mjólkurvara á heildsölustigi tekið til endurskoðunar og skoðaður sá möguleiki að hætta opinberri verðlagningu mjólkurafurða. Umgjörð verðlagsnefndar búvöru verður tekin til endurskoðunar með það að markmiði að taka upp nýtt fyrirkomulag í stað Verðlagsnefndar búvöru, án þess að slíkt raski forsendum búvörusamnings. Skipaður verður starfshópur sem fær það hlutverk að útfæra þessi atriði nánar.
Í samkomulaginu er einnig kveðið á um skipan starfshóps sem hefur það hlutverk að fara yfir hugmyndir samningsaðila varðandi aðlögunarsamninga og aukinn stuðning við minni bú. Hópnum er ætlað að meta þörf á aðgerðum annars vegar vegna svæða þar sem framleiðsla hefur dregist saman og hins vegar vegna fyrirhugaðs banns við básafjósum. Jafnframt verði skoðað hvernig hægt er að styðja betur við rannsóknarstarf og hagnýtar rannsóknir fyrir greinina ásamt fræðslu og menntun kúabænda. Þá verði skoðaðir möguleikar til samrekstrar búa til hagræðingar. Í samkomulaginu kemur einnig fram að aðilar séu sammála um að greina skattalegt umhverfi viðskipta með búrekstur og bújarðir með það að markmiði að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti og tryggja þannig áframhaldandi búrekstur og búskap.
Samkomulagið var undirritað að hálfu bænda af Guðrúnu S. Tryggvadóttur, formanni Bændasamtaka Íslands og Arnari Árnasyni, formanni Landssambands kúabænda, með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu samninginn fyrir hönd stjórnvalda með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum. Unnur Brá Konráðsdóttir var formaður samninganefndar ríkisins og vottur að undirskriftinni.
Samkomulagið má lesa nánar hér: Endurskoðun vegna samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt.
Stjórn LK hefur nú boðað til haustfunda þar sem m.a. verður farið yfir samkomulagið. Tíma- og staðsetningar funda má finna HÉR.