Umsóknarfrestur fyrir nýliðunarstuðning í landbúnaði

Dags. / Tími
1. september 2020
All Day


Opnað hefur verið fyrir umsóknir um nýliðunarstuðning í landbúnaði. Umsóknum skal skila inn rafrænt í Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins, eigi síðar en 1. september ár hvert. Sjá nánar reglur sem koma fram í reglu- gerð um almennan stuðning við landbúnað nr. 1260/2018 (vísun í hér á eftir) og breytingarreglugerð nr. 631/2020, IV. kafla.

Markmið stuðningsins er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði. Til að eiga rétt á nýliðunarstuðningi þarf að uppfylla kröfur skv. 16. gr. reglugerðar. Þær eru m.a.:

a. Umsækjandi sé á aldrinum 18–40 ára á því ári sem óskað er eftir stuðningi. b. Er að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt eða keypt búrekstur innan þriggja ára frá 1. janúar á umsóknarári. c. Umsækjandi uppfylli almenn skilyrði um stuðningsgreiðslur, skv. 3. gr. reglugerðar.

Með umsókn skulu fylgja upplýsingar og fylgiskjöl, skv. 17. gr. reglugerðar. Aðeins eftirfarandi fjárfesting telst styrkhæf við úthlutun nýliðunarstuðnings:

a. Kaup á jörð.
b. Kaup á fasteign.
c. Kaup á bústofni eða plöntum til framleiðslu garðyrkjuafurða.
d. Kaup á greiðslumarki.
e. Kaup á tækjum og búnaði til búskapar sem sannarlega eru hluti af fjárfestingu í tengslum við nýliðun.

Umsóknum er forgangsraðað með tilliti til menntunar, jafnréttissjónarmiða og heildarmats umsóknar. Upplýsingar um vinnureglur um forgangsröðun er að finna í rafrænni umsókn í Afurð (www.afurd.is) undir Umsóknir í aðalvalmynd. Stuðningur getur að hámarki numið 20% af heildarfjárfestingakostnaði á ári en heildarframlag til einstakra nýliða geta þó aldrei orðið hærri en níu milljónir króna. Heimilt er að veita stuðning við sömu fjárfestingu í allt að þrjú ár, þó aldrei umfram hámark skv. 1. mgr. uppfylli umsækjandi skilyrði 16. gr. reglugerðar.