Búvörusamningar

Búvörusamningar

13. september 2016 samþykkti Alþingi breytingar á starfsskilyrðum landbúnaðar með breytingum á búvörulögum. Taka lögin gildi frá og með 1. janúar 2017.

Töluvert miklar breytingar verða á starfsumhverfi bænda með tilkomu nýrra samninga. Útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála hækka um rúmar níu hundruð milljónir árið 2017 en fara stiglækkandi út samningstímann og verða heldur lægri á síðasta ári samningsins en þau verða í ár.

Með samningnum er verið að efla íslenska nautgriparækt, skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri og undirbúa hana undir áskoranir næstu ára. Verið er að hvetja til þróunar og nýsköpunar í greininni með heilnæmi og gæði afurða, velferð dýra og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Stuðningsforminu er breytt og mun byggjast á fleiri viðmiðum en áður og tekinn er upp stuðningur við framleiðslu á nautakjöti með nýjum hætti. Áfram er stutt við kynbótaverkefni eins og skýrsluhald og ræktunar- og einangrunarstöðvar.

Helstu breytingar

Sú breyting verður á að kvótamarkaðir munu líða undir lok og við tekur innlausn ríkisins. Ríkið hefur þá innlausnarskyldu á greiðslumarki gagnvart þeim sem óska eftir henni á árunum 2017-2019. Innlausn fer fram með þeim hætti að greiðslumarkshafi fær greitt tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark (áður A-greiðslna) sem eftir eru og mun Matvælastofnun annast innlausn og sölu greiðslumarksins.

Eftir áramót mun kúabændum, sem og öðrum bændum, standa til boða styrkir til framkvæmda. Greidd verða framlög vegna nýframkvæmda og endurbóta á eldri byggingum sem varða umhverfi, aðbúnað og velferð gripa. Framlag ríkisins getur numið allt að 40% af stofnkostnaði en hver og einn getur þó ekki fengið meira en 10% af heildarupphæð stuðningsins ár hvert. Í upphafi verður Fjárfestingarstuðningurinn 192 milljónir króna og fer svo lækkandi niður í 180 milljónir króna árið 2026.

Stuðningi til framleiðslu á nautakjöti verður ráðstafað annars vegar til einangrunarstöðvar vegna innflutnings á erfðaefni holdanautgripa og hins vegar til að greiða sláturálag á nautakjöt sem uppfyllir tilgreindar gæðakröfur. Þannig er verið að hvetja til aukinnar og bættrar framleiðslu en eins og staðan er í dag þyrfti framleiðsla á íslensku nautakjöti að aukast um fjórðung til að sinna innanlandsmarkaði. Stuðningur við nautakjötsframleiðslu mun byrja í 173 milljónum króna árið 2017 og mun svo rokka á bilinu 98-186 milljónir króna til ársins 2026.

Endurskoðun samninganna

Samningarnir eru til 10 ára með tveimur endurskoðunarákvæðum, árin 2019 og 2023. Við endurskoðun er metið hvernig markmið hafa náðst og gangi þau ekki eftir er hægt að bregðast við og stjórnvöld hverju sinni geta lagt fram sínar áherslur. Það er því ekki búið að læsa starfsumhverfi landbúnaðarins í tíu ár, en það er mörkuð ákveðin stefna.

Við endurskoðun 2019 munu Bændasamtök Íslands láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Verði niðurstaðan sú að afnema ekki kvótakerfið mun framhald þess byggjast á grunni fyrra kerfis. Síðari endurskoðun skal fara fram árið 2023. Aðilar geti þá ákveðið að hefja viðræður um nýjan samning sem geti tekið gildi árið 2025.

Lagt er upp í nýja vegferð við mótun landbúnaðarstefnunnar. Mynda á samráðsvettvang stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um landbúnaðarstefnuna, en endanleg samningagerð áfram milli bænda og ríkisins. Hin níu tölusettu markmið sem taka á til skoðunar við endurskoðunina 2019 er hægt að taka undir. Bændur vænta uppbyggilegra umræðna um þau á hinum nýja samráðsvettvangi. Mikil áhersla er lögð á umhverfismál og var enn strikað undir það við 3. umræðu málsins.

  • Tollkvóta fyrir upprunamerktan ost frá ESB verður úthlutað með hlutkesti og getur enginn einn fengið meira en 15% kvótans, en ekki verði greitt fyrir hann.   Hann verður opnaður að fullu af Íslands hálfu strax á fyrsta ári, en ekki í áföngum eins og samið var um.
  • Dregið var úr fyrirhugaðri leiðréttingu á tollum mjólkurvara sem samið var um. Það er gert með því að miða við gengisþróun í stað verðlagsþróunar.  Þó að það sé galli þá er kostur á móti að ákvæði kemur inn að tollarnir verða hér eftir leiðréttir árlega.
  • Öllum ákvæðum um nýtt fyrirkomulag um verðlagningu á mjólk verði frestað.  Eldra verðlagningarfyrirkomulag mjólkur er látið haldast óbreytt fram yfir endurskoðun.
  • MS verður skylt að selja öðrum vinnsluaðilum allt að 20% af innlagðri mjólk hverju sinni á heildsöluverði.  Minni úrvinnslufyrirtæki fái áheyrnarfulltrúa í verðlagsnefnd.
  • Ýmis atriði sauðfjársamningsins verða skoðuð sérstaklega við útfærslu þeirra, m.a. staða nýliða, svæðisbundinn stuðningur og fleira.
  • Heimilt verður að svipta bændur opinberum greiðslum ef búfé er tekið af þeim með vörslusviptingu.  Eingöngu þó þær greiðslur sem varða það búfé sem er vörslusvipt.

Búvörusamningur um nautgriparækt 

Rammasamningur

Búvörulögin í heild sinni með breytingum.

Reglugerð um stuðning í nautgriparækt

Reglugerð um almennan stuðning við landbúnað

 

Síðast uppfært 5. janúar 2018/MG