Aðbúnaðarreglugerð nautgripa

Aðbúnaðarreglugerð nautgripa

Ritað var undir nýja reglugerð um velferð nautgripa 24. nóvember 2014 af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði allra nautgripa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að nautgripir geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

Gefinn var aðlögunartími til 1. október 2016 til að ná lágmarks málum á básum í básafjósum:

 • Báslengd, mæld frá aftanverðum jötukanti að flór, skal vera að lágmarki 140 sm.
 • Æskilegt er að básar séu 145 sm langir hjá fullorðnum kúm.
 • Básbreidd, mæld frá miðju milligerða, skal vera að lágmarki 110 sm.
 • Herðakambsslá skal ekki vera lægri en 135 sm.
 • Opnir flórar skulu ekki vera dýpri en 25 sm.
 • Hæð fasts jötukants frá básgólfi skal vera að hámarki 20 sm.
 • Átsvæði skal vera að minnsta kosti 5 sm hærra en það gólf sem gripir standa á.
 • Flórristar: Breidd teina skal að lágmarki vera 16 mm; rifubreidd skal að hámarki vera 36 mm.

Aðrar helstu breytingar:

 • Öll nýbyggð fjós skuli vera lausagöngufjós. Í sjálfu sér felst ekki mikil breyting í þeirri kröfu einni og sér, þar sem nánast öll fjós sem byggð hafa verið undanfarin ár hafa verið lausagöngufjós.
 • Nautgripir skulu haldnir í fjósum þar sem þeim er tryggð dagleg hreyfing. Hinn almenni skilningur er sá að básafjós með mjaltabás, þar sem kýr fara til mjalta tvisvar á dag, uppfylli skilyrði um daglega hreyfingu.
 • Ekki verður heimilt að halda kýr í básafjósum, þar sem kúm er ekki tryggð dagleg hreyfing, frá og með 1. janúar árið 2035.
 • Burðarstíur skulu vera komnar í fjós eigi síðar en 31. desember árið 2024.
 • Ákvæði um getu, hæfni og ábyrgð er nýjung en þar er kveðið á um að hver sá sem ber ábyrgð á umönnun nautgripa hafi lokið prófi í búfræði frá landbúnaðarskóla, lokið námskeiði í nautgripahaldi viðurkenndu af Matvælastofnun eða hafi starfað við umsjá nautgripa sem nemur tveimur árum í fullu starfi.
 • Óheimilt að kelfa kvígur yngri en 11 mánaða gamlar. Almennt er miðað við að kvígur skuli kelfdar við 15 mánaða aldur, eða þegar þær hafa líkamlegan þroska til. Þá er óheimilt að kelfa kvígur með holdanautum.
 • Gripir sem eru úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðrum. Að vetri skal skjól þetta vera gripahús eða legusvæði í skýli sem tekur mið af þörfum viðkomandi gripa.

Í viðaukum við reglugerðina koma fram helstu mál og stærðir í gripahúsum. Leyfð eru 10% frávik frá þeim gildum í byggingum sem byggðar eru fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Þá er heimilt að hafa 5% fleiri gripi en básar eru fyrir í lausagöngufjósum með mjaltaþjónum, þar sem umferð kúnna er með þeim hætti að básarnir eru aldrei allir í notkun samtímis.

Reglugerðina í heild sinni má nálgast hér.