Aðalfundur 2020

Aðalfundur Landssambands kúabænda, veffundur 6. nóvember 2020, kl. 09:00

Mættir eftirtaldir:

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Finnur Pétursson                                 Káranesi

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi

Brynjar Bergsson                                Refsstöðum

Egill Gunnarsson                                Hvanneyri

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Sigrún Hanna Sigurðardóttir              Lyngbrekku 2

Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum

Jónatan Magnússon                            Hóli

Nautgriparæktarfélag V-Hún

Guðrún Eik Skúladóttir                      Tannstaðabakka

Valgerður Kristjánsdóttir                    Mýrum III 

Félag kúabænda í A-Hún

Linda B. Ævarsdóttir                          Steinnýjarstöðum

Ingvar Björnsson                                Hólabaki

Félag kúabænda í Skagafirði

Ingi Björn Árnason                             Marbæli

Davíð Logi Jónsson                            Egg

Guðrún K. Eiríksdóttir                        Sólheimum

Félag eyfirskra kúabænda

Vaka Sigurðardóttir                            Dagverðareyri

Guðmundur Bjarnason                       Svalbarði

Birgir Arason                                      Gullbrekku

Kristín Hermannsdóttir                       Merkigili

Félag þingeyskra kúabænda

Ari Jósavinsson                                   Miðhvammi

Kjartan Stefánsson                              Múla 1

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Gauti Halldórsson                               Grænalæk

Félag nautgripabænda á Héraði og fjörðum

Björgvin Gunnarsson                          Núpi

Jón Elvar Gunnarsson                         Breiðavaði

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Erla Rún Guðmundsdóttir                  Viðborðsseli

Félag kúabænda á Suðurlandi

Charlotte Clausen                               Hvammi

Magnús Örn Sigurjónsson                  Eystri Pétursey

Haraldur Einarsson                             Urriðafossi

Samúel U. Eyjólfsson                         Bryðjuholti

Elín Heiða Valsdóttir                          Úthlíð

Anne B Hansen                                   Smjördölum

  1. Arnar Árnason, formaður LK, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Lagði hann fram tillögu um eftirtalda starfsmenn fundarins. Fundarstjóri:  Unnsteinn Snorri Snorrason. Fundarritari:  Katrín María Andrésdóttir. Tæknistjóri:  Höskuldur Sæmundsson. Skrifstofustjóri:  Margrét Gísladóttir. Samþykkt án athugasemda og tóku þau til starfa.

Fundarstjóri kynnti dagskrá og fór yfir fundarformið. Kjörnir fulltrúar hafa aðgang að fundarsvæði, gögnum og atkvæðagreiðslukerfi.  Auk kjörinna fulltrúa hafa 18 aðilar úr röðum félagsmanna tilkynnt komu sína sem gestir. Þá leitaði fundarstjóri eftir samþykki fundarins að Erna Bjarnadóttir verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni sæti sem gestur. Ekki voru gerðar athugasemdir við það. Fundarstjóri tilkynnir að búið sé að fara yfir kjörna fulltrúa og staðfesta lögmæti þeirra. Fundurinn samþykkti framangreinda fulltrúa.

  1. Skýrsla stjórnar.

Arnar Árnason formaður flutti fundarmönnum ávarp. Gerði hann grein fyrir ástæðum þess hve seint aðalfundur er haldinn þrátt fyrir áform og samþykktir um annað. Framan af ári stóð til að halda aðalfundi fleiri búgreinafélaga á sama tíma og sameinast um lokahóf en það gekk ekki eftir og í þokkabót hefur Hótel Sögu nú verið lokað.

Arnar minnti á að hann hefði á vordögum upplýst að hann myndi ekki gefa kost á sér áfram til starfa sem formaður Landssamband kúabænda. Rakti hann veru sína í því embætti frá árinu 2016 þegar hann kom til starfa í kjölfar sviptinga sem  höfðu átt sér stað og tengdust gerð búvörusamninga á þeim tíma. Öll stjórn LK ásamt framkvæmdastjóra hættu þá störfum og má með sanni segja að ný stjórn hafi byrjað með hreint borð. Fyrsta stóra áskorunin var að tryggja tekjugrunn samtakanna en búnaðargjaldið hafði þá nýlega verið lagt niður án þess að tekjugrunnur félagsins hefði verið tryggður.  Á þessum tímamótum heimsótti formaður og aðrir stjórnarmenn fjölda bænda í því skyni að þétta raðir um sameiginlega hagsmunagæslu. Þeirri vinnu lýkur þó aldrei fremur en bústörfum almennt.  Líta má svo á að atkvæðagreiðsla um framleiðslustýringu hafi leitt til afgerandi niðurstöðu um það fyrirkomulag sem bændur vildu viðhafa þar sem tæplega 90% atkvæða féllu á þann veg.  Sameiginlegur skilningur samningsaðila er að endurskoðunarákvæði í búvörusamningunum 2023 beri að nýta til að sníða agnúa af kerfinu ef einhverjir eru og leggja drög að nýjum samningi sem tekur við af þeim sem núna gildir í byrjun árs 2027.  Á næstunni ætti því að gefast ráðrúm til að sinna faglegum hluta starfsins enn betur, af nógu er að taka.

Erfðamengisúrval er verkefni sem búið er að fylgja starfinu nokkurn tíma. Á haustdögum tryggði LK fjármögnun næsta hluta þess og á þessum aðalfundi verður sú leið vörðuð enn frekar.  Mikilvægt viðfangsefni nýrrar stjórnar verður endurskoðun á félagskerfi landbúnaðarins. Vinna hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Síðustu mánuði hefur starfshópur á vegum Bændasamtaka Íslands unnið að útfærslu í samstarfi við bændur og félög þeirra. Mikilvægast er að hafa í huga hagsmuni félagsmanna og leggja áherslu á að breikka aðkomu ólíkra búgreina að stjórn nýrra Bændasamtaka. Aðeins þannig má auka vitund og efla samstöðu í íslenskum landbúnaði, það hefur aldrei verið nauðsynlegra en nú.

Í mörg horn er að líta í rekstri samtaka eins og LK og oft talsverðar vinnuskorpur. Töluverður hluti starfsins tengist samskiptum við pólitíkina og stjórnsýsluna. Það getur stundum verið „líflegt“ að taka þátt í því en stundum afar hægvirkt þegar kemur að stjórnsýslunni en Arnar játaði að það hentaði ekki alltaf sínum persónuleika. En oft er þolinmæðin sterkasta vopnið. Arnar stígur stoltur frá borði eftir rúmlega fjögurra ára starf fyrir LK. Fjárhagur er traustur og búvörusamningur gerir bændum kleift að efla starfið okkar enn frekar. Núna er LK með tvö 100% stöðugildi ásamt formanni og vel má efla starfið enn frekar, það þarf bara að ákveða að gera það og gera það svo.

Arnar vill að endingu öllu því góða fólki sem hann hefur fengið tækifæri til að starfa með. Oft hefur nokkuð verið tekist á við stjórnarborðið en alltaf hafa menn skilið sem vinir enda borið virðingu fyrir skoðunum annarra. Sérstaklega vill Arnar þakka öllum sem setið hafa í stjórninni á þessu tímabili. Þar hafa mörg og ólík sjónarmið mæst en alltaf náðst að lenda málunum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Arnar þakkar einnig sérstaklega nánasta samstarfsmanni sínum allan þennan tíma, sem hann hefur setið, framkvæmdastjóranum Margréti Gísladóttir. Þeir sem settust í stjórn 2016 fengu eðliega það verkefni að ráða framkvæmdastjóra. Ákveðið var að reyna óhefðbundna leið í þeim efnum. Í ljósi þeirrar vinnu sem framundan var við útfærslu nýgerðra búvörusamninga var óskin að fá liðs við LK manneskju með reynslu úr stjórnsýslunni, vel „plöggaða“, ósérhlífna, klára, vinnusama og umfram allt manneskju sem hefði annað sjónarhorn á landbúnaðinn og umgjörð hans en starfandi bændur. Hvað var þá eðlilegra en að ráða manneskju sem hafði starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, sem almannatengill og ýmislegt fleira?

Arnar þakkar Margréti Gísladóttir kærlega fyrir farsælt samstarf, honum hefur verið sannur heiður og afar lærdómsríkt að vinna með henni.  Tvisvar hefur Margrét farið í fæðingarorlof á þessum árum og hefur þá komið til afleysinga. Í fyrra skiptið hljóp Axel Kárason dýralæknir í skarðið og leysti málin af stakri prýði. Síðar fékk LK til liðs Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttir til að sinna starfi framkvæmdastjóra. Jóhanna María lenti svo beint inn í endurskoðunarvinnuna en hún kallar ekki allt ömmu sína eins og flestir sennilega vita.

Fyrir hönd LK þakkar Arnar öllum þeim af heilum hug það sem þeir hafa lagt til málanna, þvílíkur mannauður sem félagið býr yfir.

Að lokum þakkaði Arnar fyrir allt það traust sem íslenskir kúabændur hafa sýnt honum á þessum tíma og lauk máli sínu á orðunum: „ég trúi því að framtíð okkar sem framleiðum matvæli á Íslandi sé björt. Takk fyrir mig“.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri fór í stuttu máli yfir störf á liðnu starfsári en vísaði einnig til fyrirliggjandi ársskýrslu og gagna sem send voru fundarmönnum.

Verkefnin undanfarið starfsár, sem hefur verið með lengra lagi sökum Covid-19, hafa verið afar umfangsmikil. Ber einna helst að nefna endurskoðun búvörusamningana og svo tollaumhverfi landbúnaðarins og þar með nautgriparæktarinnar. Nýr starfsmaður bættist við og LK lagði aukna áherslu á nautakjötið.  Þá eru í vinnslu breytingar á félagskerfi bænda sem munu líklega skipa stóran sess í vinnu næsta starfsárs.

Hefð hefur verið fyrir því á aðalfundum að fyrir að fara yfir framleiðslu og sölu liðins árs og þó nú sé langt liðið á árið 2020 verður farið stuttlega yfir helstu stærðir ársins 2019. Innvigtunin dróst aðeins saman á milli ára en Íslandsmet var slegið í sölu á fitugrunni eða 147 milljónir lítra. Áfram dró því miður úr sölu á próteingrunni og hefur sú þróun haldið áfram á líðandi ári.

Greiðslumarkið fyrir 2020 var óbreytt frá árinu áður en framleiðsluskyldan var aukin í 100% í samræmi við aðalfundarályktun 2019. Samkvæmt uppfærðri framleiðsluspá fyrir árið 2020 má ætla að innvigtun þessa árs endi í kringum 151 milljón lítra, eða á svipuðu róli og í fyrra. Því miður hefur bilið á milli sölu á prótein- og fitugrunni haldið enn áfram að aukast og stóð nú eftir septembermánuð í 22,6 milljónum lítra. Þrátt fyrir Covid hefur sala náð að halda sér ágætlega miðað við önnur matvæli.

Endurskoðun búvörusamninga lauk með atkvæðagreiðslu í desember 2019 þar sem 76% kusu með samningnum. Helstu breytingar sneru að því að kvótakerfið var fest í sessi líkt og var niðurstaða í atkvæðagreiðslu meðal kúabænda í ársbyrjun 2019. Þá fór stærstur hluti samningaviðræðanna í útfærslur á viðskiptafyrirkomulagi með greiðslumark mjólkur. Varð endingin sú að ráðherra væri heimilt að setja hámarksverð á greiðslumark ef markaðsaðstæður væru taldar kalla á það og að í janúar yrði tekin afstaða til þess hvort hámarksverð yrði á fyrsta markaði og hvað það þá yrði. Ef hámarksverð yrði sett mætti það þó aldrei vera hærra en sem nemur þreföldu afurðastöðvaverði.  Líkt og flestir þekkja eflaust náðist það í gegn að hafa hámarksverð á fyrsta markaði ársins og nam það tvöföldu afurðastöðvaverði. Þegar nær dró öðrum markaði ársins lögðu svo fulltrúar bænda í tvígang fram tillögu um að halda því hámarksverði en mættu mikilli mótspyrnu. Varð niðurstaðan eftir mikið krafs að sáttamiðlunartillaga LK og BÍ um þrefalt afurðastöðvaverð, en það gilti þá út árið 2023, var samþykkt.

Stór skref voru tekin í loftslagsmálum og skuldbundu kúabændur sig til að setja allt að 30 milljónir króna á ári í verkefni þeim tengdum, til að ná því markmiði að greinin yrði kolefnisjöfnuð fyrir árið 2040. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu var að semja við EFLU verkfræðistofu um að vinna úttekt á kolefnislosun í íslenskri nautgriparækt í samræmi við aðalfundarályktun frá 2018. Á þeirri skýrslu var svo aðgerðaáætlun starfshóps um loftslagsmál í nautgriparækt m.a. byggð.

Í endurskoðuninni var ákveðnum málum, sem ekki hafði náðst niðurstaða um, vísað til tveggja annarra starfshópa, annars vegar varðandi verðlagsmál og hins vegar aðlögunarsamninga, minni búa o.fl. Er sú vinna enn í gangi. Vert er að taka fram að samkomulag byggt á niðurstöðum þeirra nefnda verður ekki sjálfkrafa hluti af samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar, bændur munu kjósa um það sérstaklega.

Tollamál verða nokkuð til umræðu á fundinum í dag enda ljóst að þar þarf að taka verulega til hendinni. Nú fer hæst umræðan um misræmi í tollskráningum út frá ESB og inn til Íslands, en þar gæti hugsanlega verið um stórtækt tollasvindl að ræða. Á því þarf að taka fljótt og örugglega og er sú vinna í fullum gangi á öllum vígstöðvum. Ber að þakka Ernu Bjarnadóttur og MS sérstaklega fyrir hve vel þau hafa leitt þá vinnu. Tollasamningurinn við ESB hefur gríðarleg áhrif á innlenda framleiðslu enda stóraukast kvótarnir á örskömmum tíma, bæði í osti og nautakjöti.

Einu virðist gilda hversu stjórnmálafólk trúir því að þetta skili sér allt til neytenda, raunveruleikinn er sá að það gerir það ekki. Á sama tíma og tollkvótar hafa stóraukist og verð á þeim lækkað, hefur verð til neytenda bara farið upp. Einu áhrifin sem þetta hefur er að að öllu óbreyttu gæti þetta tollaumhverfi gengið af íslenskri nautakjötsframleiðslu dauðri. Verðvísitala afurðaverðs til bænda lækkar um 11,4%, þrátt fyrir betri gripi sem annars myndu hífa hana upp, og verð til neytenda hækkar um 6,5%.

Starfsárið hefur einkennst af nokkrum sveiflum í afurðaverði. Verð fyrir mjólk innan greiðslumarks hefur hækkað í tvígang, um 8,13% samanlagt á árinu 2020. Verð fyrir umframmjólk var hins vegar lækkað í sumar niður í 20 krónur á lítrann þar sem aðstæður á erlendum mörkuðum hafa afar þungar og verð lág. Covid hefur haft mikil áhrif þar á og langan tíma tekur að afsetja vörur á erlendan markað.

Líkt og fyrr var sagt hefur VATN talan lækkað um 11,4% frá ársbyrjun 2018. Töluverðar verðlækkanir urðu um og eftir áramótin 2019/20 og aftur nú í haust. Ljóst er að bregðast verður hratt við ef ekki á að fara illa og hefur LK ásamt BÍ og öðrum búgreinafélögum unnið að þeim málum undanfarnar vikur og mánuði og verða þessi mál einnig til umræðu síðar á þessum fundi.

Í ljósi alls þessa var það mikið fagnaðarefni þegar LK gat ráðið inn nýjan starfsmann til að sinna sérstaklega málum tengdum nautakjötsframleiðslunni. Verðlagsvísitalan er hans verk sem og hinar ýmsu greiningar á nautakjötsmarkaðnum sem hafa birst á naut.is undanfarið. Þá birtir LK nú í október skýrslu um aðstöðu í nautakjötsframleiðslu og í vinnslu er bæklingur um gæðaframleiðslu íslensks nautgripakjöts sem og sérstakt vörumerki fyrir íslenskt gæðanautakjöt. Nú hefur verið tryggð fjármögnun til þess að framlengja verkefnið út árið 2021, sem annars hefði lokið nú um næstu áramót.

Rekstur LK hefur gengið vel og það er gott að sjá að einungis á þriðja ári eftir afnám búnaðargjalds er rekstur félagsins réttu megin við núllið. Vissulega hafði styrkur til að ráðast í eflingu nautakjötsmála þar mikið að segja en ef það verkefni er alveg tekið til hliðar er rekstur félagsins engu að síður að skila 160 þúsund krónum í hagnað. Félagsgjöld skiluðu  40 milljónum á síðasta ári, sem er 11,4% hækkun frá 2018. Þar telur fyrst og fremst hækkun á félagsgjöldum sem ákveðin var á aðalfundi í fyrra. Það eru greidd félagsgjöld af 73% innlagðrar mjólkur.

Endurskoðun félagskerfis bænda hefur verið í fullum gangi síðan á Búnaðarþingi 2018. Tillögur hafa tekið nokkrum breytingum en byggja á því að það verði búgreinadeildir undir BÍ í stað sjálfstæðra félaga líkt og er í dag. Þetta er líklega stóra verkefni næstu stjórnar því það er að mörgu að huga og gæta þarf þess að ef af sameiningu yrði – væri hagsmunagæsla og rödd kúabænda að styrkjast en alls ekki að dregið yrði úr.

Fundarstjóri fór yfir fyrirkomulag atkvæðagreiðslu og með hvaða hætti fulltrúar gætu hvatt sér hljóðs. Í framhaldi af því var orðið gefið laust.

Valgerður Kristjánsdóttir tók til máls.  Þakkaði fráfarandi formanni, stjórn og starfsfólki góð störf. Verð á mjólk hefur verið hátt þó verð á kjöti sé mjög lágt. Nauðsynlegt er að ná að hefta tolllausan innflutning. Vonast eftir að nýr formaður verði öflugur. Hefur efasemdir varðandi sameiningu búgreinafélaga og Bændasamtakanna varðandi hagsmuni kúabænda. Telur erfitt að gera betur fyrir bændur en LK hefur verið að gera, tryggja þarf áfram sterka rödd og hagsmunagæslu fyrir kúabændur .

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs.

  1. Afgreiðsla mála.

Tillögur frá starfsnefnd 1.

Í starfsnefnd 1 sátu:  Guðmundur Bjarnason formaður, Guðrún Eik Skúladóttir ritari, Finnur Pétursson, borghildur Kristinsdóttir, Hjalti Þór Vignisson og Ingi Björn Árnason.

Guðmundur Bjarnason gerði grein fyrir tillögum starfsnefndar 1.

1.1 Launamál stjórnar

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, leggur til að laun stjórnar haldist óbreytt milli ára í krónutölu.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt með 28 greiddum atkvæðum.

1.2 Þóknun aðalfundarfulltrúa

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, leggur til að þóknun verði óbreytt milli ára, 19.000 kr á dag og að vegna aðstæðna verði ekki greiddir dagpeningar í ár.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt með 28 greiddum atkvæðum.

1.3 Félagsgjöld LK

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, leggur til að félagsgjald í mjólk og kjöti haldist óbreytt, 0,33 krónur á líter og  550 kr á sláturgrip.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt með 28 greiddum atkvæðum.

1.4 Uppsögn tollasamnings Íslands við Evrópusambandið

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, krefst þess að stjórnvöld leiti allra leiða til að segja upp samningi við ESB um tolla og tollfrjálsa kvóta fyrir búvörur, frá 17. september 2015. Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og fækkun ferðamanna undanfarin ár er ljóst að forsendur samningsins eru með öllu brostnar. Bretland hefur verið helsti markaður Íslands fyrir útflutning landbúnaðarvara á meðan innflutningur kemur hins vegar að mestu frá öðrum ESB löndum.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt með 28 greiddum atkvæðum.

1.5 Rannsaka þarf ósamræmi í tollflokkun landbúnaðarvara

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, skorar á fjármálaráðherra að leggja höfuðáherslu á að komast til botns í því af hverju misræmi í útflutningstölum frá Evrópusambandinu og innflutningstölum Hagstofunnar stafar og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir slíkt. Ljóst er að eftirliti er mjög ábótavant og hugsanlega um alvarleg lögbrot að ræða. Um er að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir kúabændur, neytendur, ríkissjóð og fyrirtæki sem sannanlega fara eftir settum lögum og reglum.

Þá krefst fundurinn þess að tollflokkun á ostum, sem ranglega hafa verið fluttir inn og tollafgreiddir sem jurtaostar á tollskrárnúmerinu 2106.9068, verði leiðrétt hið fyrsta. Í sumar tilkynnti Tollgæslustjóri að umræddar vörur yrðu framvegis tollflokkaðar í 4. kafla tollskrár eins og annar ostur. Þrátt fyrir það var í ágúst 2020 slegið met í magni sem flutt var inn á tollnúmeri 2106.9068.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt með 28 greiddum atkvæðum.

1.6 Fallið verði frá nýrri úthlutunaraðferð á tollkvótum

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020 beinir því til landbúnaðarráðherra að fallið verði frá þeirri nýju úthlutunaraðferð á tollkvótum sem tók gildi um mitt þetta ár, á sama tíma og tollkvótar eru að stóraukast. Verð á tollkvótum fyrir nautgripakjöt hefur lækkað um 75% frá ársbyrjun 2019 og með nýrri úthlutunaraðferð lækkaði verð um 40% frá fyrra útboði í ársbyrjun 2020. Verð á tollkvótum fyrir osta lækkaði um 5,5% frá fyrra útboði í byrjun árs 2020 og hefur frá byrjun árs 2019 lækkað um 12%. Þessar lækkanir hafa ekki skilað sér til neytenda. Miklar verðlækkanir hafa dunið á íslenskum nautakjötsframleiðendum á sama tíma, og ef fer sem horfir er hætta á að sá árangur sem náðst hefur í greininni undanfarin ár verði fyrir bí. Þannig hefur verð til nautakjötsframleiðenda lækkað um 11,4% en vísitala nautakjöts hækkað um 6,5% frá ársbyrjun 2018.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt með 28 greiddum atkvæðum.

Tillögur frá starfsnefnd 2.

Í starfsnefnd 2 sátu:  Ingvar Björnsson formaður, Kristín Hermannsdóttir ritari, Reynir Þór Jónsson, Ari Jósavinsson, Halldóra Andrésdóttir.

Ingvar Björnsson gerði grein fyrir starfi nefndarinnar.  Nefndinni bárust sjö tillögur en leggur fjórar fyrir fundinn eftir starf nefndarinnar.

2.1 Endurskoðun félagskerfis bænda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, tekur undir ályktun Búnaðarþings 2020 um endurskipulagningu félagskerfis bænda, þar sem stjórn BÍ er falið að leggja fram tillögur að nýju og fullmótuðu skipulagi félagskerfis eigi síðar en á Búnaðarþingi 2021. Lögð er rík áhersla á að staða hagsmunagæslu nautgripabænda verði tryggð í nýju skipulagi, sem taki mið af umfangi greinarinnar innan landbúnaðarins hér á landi. Fundurinn beinir því til stjórnar LK að vinna náið með stjórn Bændasamtaka Íslands að framgangi málsins.

Greinargerð: Nefnd um endurskipulagningu á félagskerfi bænda skilaði tillögu til Búnaðarþings 2020. Í afgreiðslu þingsins var lögð sérstök áhersla á eftirfarandi þætti við þá endurskipulagningu:

  • Ein öflug hagsmunasamtök fyrir landbúnaðinn.
  • Bein aðild félagsmanna að BÍ með veltutengdu félagsgjaldi.
  • Byggt á tveimur megin stoðum, bændum og landbúnaðartengdum fyrirtækjum.

Bein aðild bænda að Bændasamtökum Íslands kallar á allsherjar endurskoðun á uppbyggingu og starfsemi núverandi aðildarfélaga BÍ. Nautgriparæktin hefur um árabil staðið undir 40-45% af efnahagslegum umsvifum landbúnaðar á Íslandi. Sú staðreynd þarf að endurspeglast í starfsemi og áherslum heildarsamtaka bænda hér á landi, eigi þau að vera öflugur málsvari landbúnaðarins.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan samþykkt mótatkvæðalaust með 27 greiddum atkvæðum.

2.2 Skoðanakönnun meðal kúabænda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, leggur til að staðið verði fyrir skoðanakönnun meðal nautgripabænda um framtíðaráform í búskap. Hafi menn áform um að hætta búskap þá skal greint hverjar ástæðurnar séu.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson tók til máls.  Spyr hann hver tilgangur könnunarinnar eigi að vera?  Er ætlunin að gera litla könnun eða ítarlega líkt og gert var um árið og kynnt á aðalfundi á Egilsstöðum. Þyrfti að gera ráð fyrir könnuninni í fjárhagsáætlun eða verður könnunin mögulega framkvæmd á samfélagsmiðlum, sbr. næstu tillögu, og hafi þá væntanlega lítinn kostnað í för með sér?

Ingi Björn Árnason kvaddi sér hljóðs.  Tekur undir með Samúel. Til hvers er könnunin og hver verður kostnaður við hana.  Tillagan er opin eins og hún kemur fyrir fundinn og stjórn LK þar með skylt að framkvæma hana. Væri kannski rétt að hafa gerð könnunar valkvætt verkefni.

Herdís Magna Gunnarsdóttir tók til máls.  Hún hefði viljað sjá ítarlega könnun líkt og var á Egilsstöðum 2013. Mikilvægt er að taka púlsinn í greininni og að félagsmenn finni að þeir hafi eitthvað um málin að segja.

Finnur Pétursson, spyr hvað eigi að fá fram með gerð könnunarinnar.

Ingvar Björnsson gat þess að tillagan hefði í raun komið frá tveimur aðildarfélögum og starfsnefndin því ákveðið að leggja hana fyrir fundinn. Telur hann að gott sé að taka stöðuna en stjórn verði falið að útfæra könnunina nánar. Bendir á að gerð könnunarinnar þurfi ekki að vera kostnaðarsöm, vinna megi hana með hagkvæmum hætti.  Áhugavert sé að kanna m.a. af hvaða ástæðum fólk lætur af búskap.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir bendir á að margt hafi breyst síðan könnunin 2013 var gerð og vert sé að gera kannanir reglulega. Hún telur tillöguna góða og ekki þurfa að hafa mikinn kostnað í för með sér.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson tók fram að mögulega mætti leggja könnunina frá 2013 fyrir aftur og bera niðurstöðurnar saman í því skyni að greina hver þróun hefði orðið.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir taldi mögulega óþarft að greina sérstaklega af hverju fólk léti af búskap en lagði þó ekki fram breytingartillögu við fram komna tillögu frá starfsnefndinni.

Ingvar Björnsson leggur til að tillagan verði borin upp óbreytt.

Tillagan borin upp og samþykkt með 23 atkvæðum gegn einu mótatkvæði.

2.3 Samskiptasíða LK

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að kanna þörf fyrir sérstakan samskiptavettvang fyrir nautgripabændur. Um yrði að ræða lokaðan samskiptahóp  félagsmanna í LK til að skiptast á skoðunum. Vettvangurinn myndi einnig nýtast stjórn til að viðra málefni eða efna til óformlegra skoðanakannana.

Jón Elvar Gunnarsson tók til máls. Telur ekki nauðsynlegt að stofna sérstaka síðu. Margir hópar séu þegar til staðar á facebook sem geti verið og sé nú þegar vettvangur umræðu.

Finnur Pétursson.  Bendir á að ekki kemur ekki fram í tillögunni að ætlunin sé að vera á facebook samfélagsmiðlinum. Leggur til að fyrirkomulagið verði þannig að ekki þurfi að kaupa áskrift til að hafa aðgang að umræðunni.

Tillagan borin upp.  Samþykkt með 16 atkvæðum á móti 4.

2.4 Umhverfismál

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, hvetur stjórn LK til að vinna að framförum í loftslagsmálum fyrir greinina og að nautgriparæktin verði kolefnisjöfnuð fyrir árið 2040. Í þeirri vinnu verði stuðst við þau markmið og aðgerðir sem eru lagðar til í skýrslu starfshóps um loftslagsmál nautgriparæktarinnar. Jafnframt hvetur fundurinn stjórn til þess að skoða útfærslu á mögulegri staðfestingu eða vottun kolefnishlutlausra kúabúa.

Skorar fundurinn á landbúnaðarráðherra að leggja greininni til nýtt fé til framkvæmda á bújörðum sem ætlaðar eru til að draga úr plastnotkun, minnka kolefnislosun og auka kolefnisbindingu.

Greinargerð: Starfshópur um loftslagsmál í nautgriparækt var skipaður í framhaldi af undirritun samkomulags um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar þar sem m.a. kemur fram það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Starfshópurinn skilaði skýrslu af sér í maí 2020 þar tekin eru saman víðtæk markmið og leiðir að kolefnishlutleysi greinarinnar. Starfshópurinn leggur megináherlsur á að fram að næstu endurskoðun búvörusamninga 2023 verði tími og fjármunir nýttir annars vegar til að bæta þau gögn sem liggja til grundvallar losunarbókhaldinu í nautgriparækt og hins vegar til fræðsluverkefna. Þýðingarmikið er að bændur hafi aðgang að sem bestum gögnum um losun frá sínum búum, séu meðvitaðir um hana og þá möguleika sem þeir hafa til að draga úr henni. Fjármunir sem verða til ráðstöfunar eftir endurskoðunina 2023 verði síðan nýttir til að ýta undir beinar aðgerðir á búunum.

Finnur Pétursson tók til máls.  Setur spurningamerki við ýmislegt sem er í gangi í málaflokknum almennt.  Telur t.d. að kúabúskapur geti verið kolefnisjafnaður og jafnvel gott betur.  Til dæmis eru til umbúðir um rúllur sem má nýta sem fóður samhliða rúllugjöf.  Vantar að draga betur fram kolefnisfótspor innfluttra afurða til samanburðar. Veiran hefur haft mikil áhrif til að draga úr mengun.

Birgir H. Arason óskaði skýringa á orðalagi varðandi fjármögnun.

Finnur Pétursson.  Öllum tímabilum virðast fylgja mismunandi ógnir sem mögulega hefur verið gert of mikið úr. Í hans uppvexti var mikið talað um súrt regn og talið að eyðing skóga myndi leiða til pappírsskorts í náinni framtíð. Hvorugt virðist þó hafa gengið eftir.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir hnýtur um orðalag þar sem rætt er um að leggja greininni til nýtt fé. Betra að nota orðið fjármagn.

Björgvin Gunnarsson tekur undir með Finni. Bændur eiga ekki að taka þátt í öfgum sem eru í gangi í loftlagsmálum.  Þarf að skoða bindingu og losun af óháðum aðilum.  Vantar betri þekkingu til að hægt sé að byggja aðgerðir á.

Ingvar Björnsson nefnir að í tillögunni sé ætlunin að tryggja fé til að fara í framkvæmdir – aðstoða við að fara í umhverfisvænni lausnir.  Lagt verði fjármagn í beinar aðgerðir.  Skógrækt, landgræðslu, endurheimt votlendis o.fl..  Bændur verða að taka þátt í loftlagsumræðum.  Loftlagsmálin eru stórt mál til framtíðar og bændur halda á lausninni. Umdeilt hvernig kolefnisfótspor nautgriparæktar er útreiknað.  Metan hefur 25 sinnum meiri virkni en CO2, á að taka tillit til þess eða ekki?.

Bændur hafa land, þekkingu og tækifæri. Eiga að stimpla sig inn. Að sitja hjá væri neikvætt.  Bendir hann á að tillagan er í samræmi við umhverfisstefnu sem samþykkt var á síðasta búnaðarþingi.  Verið að hnykkja á því sem þar kom fram. Loks tekur hann undir að styrkja þurfi þekkingu í málaflokknum.

Herdís Magna Gunnarsdóttir tekur undir með Ingvari. Bændur verða að taka þessi mál föstum tökum.  Aðgerðaáætlanir hafa verið settar fram í loftlagshóp þar sem fyrstu skrefin snúast einmitt um að auka þekkingu miðað við íslenskar aðstæður. Jákvætt og nauðsynlegt.

Tillagan borin upp. Samþykkt með 27 atkvæðum móti einu.

Ingvar Björnsson gerði stuttlega grein fyrir tillögum sem nefndinni bárust en fóru ekki áfram fyrir fundinn.  Þær voru að þessu sinni tvær og snerust um samþykktir félagsins. Annars vegar að framboð til stjórnar skyldi liggja fyrir með tveggja vikna fyrirvara og hins vegar að formaður skuli kjörinn af öllum félagsmönnum með rafrænni kosningu.  Nefndin mat það svo að ekki væri tímabært að leggja mikla vinnu í samþykktir félagsins fyrr en niðurstöður úr félagskerfisbreytingum bænda liggi fyrir. Þegar nýtt fyrirkomulag verður ljóst þarf væntanlega að ganga til heildarendurskoðunar á samþykktum.

Tillögur frá starfsnefnd 3.

Í starfsnefnd 3 sátu:  Samúel Unnsteinn Eyjólfsson formaður, Davíð Logi Jónsson ritari, Björgvin Gunnarsson, Vaka Siguðardóttir, Linda B. Ævarsdóttir og Kjartan Stefánsson.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson gerði grein fyrir tillögum starfsnefndar 3 og fyrirliggjandi tillögum.

3.1 Verðlagsmál

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til starfshóps um verðlagsmál, og nefnd sem vinnur að landbúnaðarstefnu Íslands, greina þróun á afkomu kúabænda síðastliðin 20 ár og bera saman við launaþróun í landinu á sama tíma. Við endurskoðun verðlagsmála verði kjörum bænda haldið til haga og ekki hrundið af stað breytingum á núverandi kerfi nema að vel ígrunduðu máli. Haft verði að leiðarljósi að breytingar raski ekki forsendum búvörusamnings þar sem ákveðið var að halda í kvótakerfi og að greiðslur til bænda út á framleiðslu séu tryggðar. Fundurinn leggur áherslu á að áfram skuli opinber aðili ákvarða lágmarksverð frá afurðastöð til bænda þar sem ákveðið hefur verið að halda í framleiðslustýringu í formi kvótakerfis.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan borin upp og samþykkt mótatkvæðalaust með 25 atkvæðum.

3.2 Útflutningur

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til mjólkuriðnaðarins að nýta sína útflutningsgátt, Ísey Export, til þess að koma íslenskum mjólkurafurðum á sem hæstum verðum á erlenda markaði. Leggur fundurinn höfuðáherslu á að ávinningur leyfisgjalda Ísey Export vegna skyrsölu erlendis skili sér til íslenskra kúabænda.

Ari Heiðmann Jósavinsson spyr hvort gerð hafi verið könnun á því hvort erlendir ferðamenn sem hingað koma hafi kynnst íslenska skyrinu? Telur að skyr hafi verið vinsælt til morgunverðar m.a. til ferðafólks.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri tók til máls. Benti hún á að stjórnarformenn Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar sitji fundinn sem gestir og spyr hvort Elín Margrét Stefánsdóttir stjórnarformaður Auðhumlu megi svara fyrirspurninni?

Elín Margrét Stefánsdóttir tók til máls.  Greindi frá því að ýmis konar markaðsstarf og kannanir séu í gangi þó þetta hafi ekki verið kannað sérstaklega.  Skyrsala hefur minnkað í heimsfaraldrinum, þrátt fyrir að sala í verslunum hafi almennt aukist. Það bendir til þess að ferðafólk hafi töluvert verið að neyta skyrs hérlendis.

Fleiri tóku ekki til máls. Tillagan borin upp og samþykkt með 27 atkvæðum gegn einu.

3.3 Efnahalli

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, hvetur mjólkuriðnaðinn til að halda áfram með nýsköpun og vöruþróun mjólkurvara á próteingrunni, ásamt því að auka útflutningstækifæri í gegnum Ísey Export, til að mæta efnahalla sem nú er kominn í 22,6 milljónir lítra. Finna þarf farveg fyrir þessa framleiðslu svo að bæði mjólkuriðnaðurinn og bændur hafi arð af.

Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan borin upp og samþykkt með 26 samhljóða atkvæðum.

3.4 Styrking gæðastjórnunnar

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK, að auka samskipti sín og samstarf við mjólkuriðnaðinn til að styrkja frekar gæðastjórnun.

Valgerður Kristjánsdóttir tók til máls. Bendir á hversu nauðsynlegt sé fyrir bændur að hafa aðhald í gæðamálum. Hafi hún haft efasemdir í fyrstu en sakni nú heimsókna og ráðgjafar Jarle.  Styður tillöguna.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir tók undir orð Valgerðar. Glöggt er gests augað. Gott er að fá utanaðkomandi ábendingar og aðra sýn.

Tillagan borin upp og samþykkt með 27 atkvæðum gegn einu.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson gerði að lokum stuttlega grein fyrir þeim tillögum sem ekki fóru áfram frá starfsnefndinni til fundarins. Þar var m.a. um að ræða tillögur sem varða niðurstöður samningaviðræðna og koma því til endurskoðunar við samningsborðið 2023.

Tillögur frá starfsnefnd 4.

Í starfsnefnd 4 sátu:  Sigrún Hanna Sigurðardóttir formaður, Brynjar Bergsson ritari, Elín Heiða Valsdóttir, Anne B. Hansen og Jónatan Magnússon.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og tillögum sem fyrir liggja.

4.1 Heimild kjötafurðastöðva til frekara samstarfs

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Nautgripabændur hafa þurft að þola miklar verðlækkanir undanfarna mánuði, en verðlækkanir það sem af er ári samsvara um 150 milljón króna tekjutapi fyrir greinina á ársgrundvelli. Er þess krafist að í stað þess að stöðugt sé gengið á hlut bænda, sem nú þegar er af ansi skornum skammti, sé greininni búið eðlilegt starfsumhverfi, ráðist verði í frekari hagræðingaraðgerðir innan afurðastöðva og stjórnvöld geri þeim kleift að gera það. Með aukinni samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir á ódýrum aðflutningsgjöldum og miklum launahækkunum hefur geta afurðastöðva til að greiða bændum ásættanlegt verð fyrir afurðir okkar skaðast verulega.

Auk aðgerða í tollamálum er því beint til stjórnvalda að veita afurðastöðvum í kjötframleiðslu heimild til að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti ná fram töluverðri hagræðingu á ýmsum sviðum rekstrarins og rými skapast til að borga bændum ásættanlegt verð fyrir sínar afurðir.

Björgvin Gunnarsson spyr hvort Höskuldur Sæmundsson starfsmaður LK sé ekki í góðu sambandi við sláturleyfishafa og hafi því tilfinningu fyrir því hver afstaða þeirra gæti verið.

Höskuldur Sæmundsson  skýrði með hvaða hætti hann safnar gögnum og háttar samskiptum við afurðastöðvar.  Hefur rætt efni tillögunnar og svo virðist sem samstaða sé efnislega um innihald hennar. Heimildir frá hinu opinbera og samstarf í kjölfarið gæti leitt til umtalsverðar hagræðingar.  Hefur ekki verið reiknað sérstaklega út en mjög mismunandi er hversu vel húsin eru útbúin og endurnýjunarþörf mismunandi. Sameiginlegrar fjárfestingar væru gott mál og vel til hagræðingar fallnar.

Valgerður Kristjánsdóttir telur jákvætt að stefna að samstarfi. Minnist þó þess hver örlög Goða urðu á sínum tíma, slíkt þurfi að varast.

Herdís Magna Gunnarsdóttir telur rétt að fram komi á fundinum að hún hafi verið verið í samskiptum við formann sláturleyfishafa.  Frekara samstarf er talið vera eitt stærsta tækifæri sem gefst nú til að ná fram hagræðingu.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs. Tillagan borin upp og samþykkt með 24 atkvæðum gegn tveimur.

4.2 Álagsgreiðslur á nautgripi

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að beita sér fyrir því að álagsgreiðslur hætti á P+ gripi og greiðist eftirleiðis einungis á gripi O- og ofar með það að markmiði að auka og styðja betur við framleiðslu íslensks nautakjöts af meiri gæðum. Þá verði einnig skoðað að þyngdarmörk nautgripa til að fá álagsgreiðslur verði hækkuð.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson hefði viljað að aldurinn væri tengdur við þessar álagsgreiðslur.  Mikilvægt sé að horfa til þess hvað markaðurinn vill.

Björgvin Gunnarsson verðlækkun hefur verið umtalsverð. Beinir hann því til stjórnar LK að beita sér fyrir að RML þjónusti sérstaklega þá sem ekki ná nægilegum ræktunarárangri.

Guðrún Eik Skúladóttir styður tillöguna. Telur ekki að verðlækkun komi í veg fyrir að kjarnfóður borgi sig.  Sammála Samúel um að taka þurfi tillit til aldurs gripa.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri, upplýsti að árið 2019 hefðu 5547 uppfyllt kröfur en hefðu í raun verið  um 764 gripum færri ef ný viðmið skv. tillögunni hefðu verið uppi.

Gauti Halldórsson tekur undir með Samúel varðandi aldurstengingu.

Birgir H. Arason spyr hvort þekkt sé meðalvigt á P gripum.   Kjötmat er almennt flókið, margir flokkar.  Verðugt væri að fækka flokkum og einfalda.

Valgerður Kristjánsdóttir tók til máls. Telur að taka þurfi tillit til hvort um kvígur sé að ræða. Þær eru léttari en kjötið gott.

Arnar Árnason bendir á að nú þegar séu tímamörk inni í flokkun. Miðað sé við 30 mánuði núna.  Vilja fundarmenn breyta því?

Höskuldur Sæmundsson svaraði framkominni spurningu varðandi meðalvigt gripa og birti meðfylgjandi töflu á skjá.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson telur nauðsynlegt að hafa samspil milli þyngdar og aldurs gripa í kjötmatinu.  Hver yrði krónutöluhækkunin ef greitt yrði skv. fyrirliggjandi tillögu?

Ingi Björn.  Flokkunarkerfi hvati til að bæta sig eða hætta.  Óttast mjög að tillaga frá Samúel flæki málið.  Skoða frekar að lækka úr 30 mánuðum.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir ítekar að í tillögunni felist einungis að þetta verði skoðað ekki kvöð um að þetta skuli gert.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri spyr nánar út í hugmyndir um breytingar á tillögunni, er ætlunin að miða við 250 kg og meira eða 30 mánuðir. Dugir að einungis annað skilyrðið verði uppfyllt?

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson skýrði hugmyndina og að aldur og þyngd yrðu vegin saman. Veltir einnig upp hvort Sýrufelldir gripir fái álagsgreiðslur í dag?

Eftir umræður á fundinum kom fram eftirfarandi breytingatillaga:

4.2 Álagsgreiðslur á nautgripi

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að beita sér fyrir því að álagsgreiðslur hætti á P+ gripi og neðar og greiðist eftirleiðis einungis á gripi O- og ofar með það að markmiði að auka og styðja betur við framleiðslu íslensks nautakjöts af meiri gæðum. Þá verði einnig skoðað að þyngdarmörk nautgripa til að fá álagsgreiðslur verði hækkuð og að tekið verði tillit til aldurs gripa.

Tillagan borin upp.  Samþykkt með 19 atkvæðum gegn fjórum mótatkvæðum.

4.3 Uppbygging rannsóknaraðstöðu á Hvanneyri

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, styður hugmyndir LbhÍ um uppbyggingu á  fullbúinni rannsóknaraðstöðu fyrir mjólkurframleiðslu og nautgriparækt á Hvanneyri. Í dag er engin viðunandi rannsóknaraðstaða á landinu sem er til þessa fallin en núverandi aðstaða í kennslu- og rannsóknarfjósi LbhÍ er með öllu ófullnægjandi til að stunda hágæða rannsóknir í fóðrun og aðbúnaði nautgripa.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson veltir upp hvort sé um að ræða kennslufjós eða rannsóknafjós. Mögulega þurfi að útfæra það betur í tillögunni.

Egill Gunnarsson telur að LBHÍ hafi ekki fjármagn til að uppfæra aðstöðu og tækni.  Í tillögunni sé fjósið sem bæði kennslufjós og rannsóknafjós.  Hvergi sé í raun til nothæft rannsóknarfjós í landinu í dag.  Þyrfti að vera byggt upp þar sem háskólinn og starfsmenn hans eru.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir telur að uppbygging rannsóknaraðstöðu á Hvanneyri er vænlegur kostur. Svona fjós myndi styrkja LBHÍ þar er mannauður fyrir hendi til að sinna verkefninu.

Jón Elvar Gunnarsson tekur undir tillöguna og telur tímabært að vinna í þessu.

Tillagan borin upp. Samþykkt með 24 atkvæðum gegn einu.

4.4 Framlag til þróunar og rannsókna

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að tryggja skuli aukið framlag til þróunar og rannsókna í nautgriparækt með auknum fjárframlögum í þróunarfé nautgriparæktarinnar ellegar skoða kosti þess að stofna sérstakan vísindasjóð fyrir greinina sem fjármagnaður væri af lögbundnu auragjaldi.

Finnur Pétursson.  Í dag er skylduskráning á ólíklegustu hlutum í miðlægan gagnagrunn.  Þar er mikil auðlind upplýsinga sem mætti nota betur til þróunar og endurbóta.  Vert að velta þeim möguleikum upp.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson spyr hvað felist í síðustu setningunni þar sem kveðið er á um lögbundið auragjald?

Sigrún Hanna Sigurðardóttir skýrði að um væri að ræða gjald sem tekið yrði af innleggi.

Linda Björk Ævardóttir telur það vera opinn tékka. Betur færi að tilgreina ákveðinn aurafjölda í tillögunni.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir segir það mögulega óþarft þar sem einungis sé verið að samþykkja að skoða þann síðari valkost áhersla væri á að semja um aukin framlög til þróunar- og rannsóknarstarfs.

Ingi Björn Árnason bendir á að nú þegar séu til ýmsir rannsókna- og þróunarsjóðir og spyr hvernig þeir hafi verið nýttir.

Egill Gunnarsson segir að þróunarfé til nautgriparæktar sé í raun lítið en nauðsynlegt sé að styrkja rannsóknir.  Mætti mögulega taka fé af búvörusamningum.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri taldi upp ýmsa möguleika til fjármögnunar rannsókna- og þróunarstarfs og nefndi nokkra sjóði sem í boði eru. Að baki tillögunni nú er að innheimta gjald í vísindasjóð á sama hátt og félagsgjald/afurðagjald.

Herdís Magna Gunnarsdóttir tók undir að þróunarfé til nautgriparæktar væri ekki mikið.   Skoða þyrfti skiptingu í rammasamningi í því skyni að auka hlut nautgriparæktar.

Bessi Freyr Vésteinsson tekur undir að auka þurfi fjármagn í þróunarsjóði nautgriparæktar.

Björgvin Gunnarsson leggur til að leitað verði leiða til að auka ráðstöfunarfé til rannsókna- og þróunarstarfs en best væri að taka auragjaldið út úr tillögunni.

Arnar Árnason bendir á að tillagan sé í raun opin og feli bara í sér að málið verði skoðað.

Fram er komin tillaga um að fella hluta síðustu málsgreinar út, þ.e. varðar auragjald og tillagan svo breytt lögð fyrir fundinn:

4.4 Framlag til þróunar og rannsókna

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að tryggja skuli aukið framlag til þróunar og rannsókna í nautgriparækt með auknum fjárframlögum í þróunarfé nautgriparæktarinnar ellegar skoða kosti þess að stofna sérstakan vísindasjóð.

Samúel Unnsteinn Eyjólfson spyr hvort hægt sé að lögleiða greiðslu í vísindasjóð þegar tekið er tillit til þess að félagsaðild sé frjáls.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir styður fram komna breytingatillögu.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs.

Breytingatillagan borin upp og samþykkt.

Tillagan svo breytt borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum 28 talsins.

4.5 Erfðamengisúrval í íslenskri nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórna LK, BÍ og RML að tryggja fjármögnun innleiðingar og rekstur erfðamengisúrvals í íslenskri nautgriparækt og koma í gagnið svo hratt sem kostur er. Við fjármögnun verkefna sem þarf að ráðast í til innleiðingar sé meðal annars sótt um styrki úr Matvælasjóði og þróunarfé nautgriparæktar og einnig litið til fjármuna af samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Fyrir liggur að utanumhald og rekstur verkefnisins til framtíðar er kostnaðarsamt og tryggja þarf framtíðarfjármögnun þess. Beinir fundurinn því til stjórnar LK að tryggja verkefninu framtíðarfjármagn í gegn um búvörusamninga.

Að mati kúabænda er ekki eftir neinu að bíða með að hefja innleiðingu á þessari byltingarkenndu aðferð, sem hefur það að markmiði að skera úr um kynbótagildi gripa fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. Fyrir liggur að fá ef nokkur verkefni en það sem hér um ræðir, geta með öruggari hætti dregið úr framleiðslukostnaði og þar með aukið samkeppnishæfni, sjálfbærni og verðmætasköpun í mjólkurframleiðslu til frambúðar.

Gauti Halldórsson.  Finnst kúabændur hafa tapað tíma, koma þarf kynbótastarfi í betri farveg og hefja hefði þurft þá vinnu fyrr. Vantar tengingu milli RML og LK, hagsmunir LK að verkefnin gangi vel. RML annast verkið en LK er í raun með veskið. Veltir því upp hvort ætti að vera stýrihópur eða verkefnisstjórn sem heldur utan um þetta?

Guðrún Eik Skúladóttir telur verkefnið mikilvægt og tekur undir að tími hafi tapast. Fagnar tillögunni en telur að leita þurfi fjármagns víðar, ekki einvörðungu horfa til þess að fjármagna verkefnið af búvörusamningum.

Ingi Björn Árnason tekur undir mikilvægi verkefnisins. Spyr hver staða og framgangur verkefnisins sé og kostnað vegna þess.

Ingvar Björnsson benti á að fagráð í nautgriparækt leiðir verkefnið og spyr um hvort einhver úr þeirra röðum geti svarað.

Gauti Halldórsson telur mikilvægt að kúabændur leggi sjálfir fé í verkefnið. Gefur sterkari stöðu til að sækja viðbótarfjármagn.  Eðlilegt þar sem verkefnið er jú unnið í þágu kúabænda.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri upplýsti að í sumar var lögð fram kostnaðaráætlun og greining á þeim verkþáttum sem þarf að ráðast í fyrir innleiðingu.   Kostnaður um 62 milljónir   og áfangaskipt niður á þrjá áfanga.  Fyrsti áfangi vinnst næsta árið og kostar um 40 milljónir. Þeir fjármunir fengust gegnum framleiðslujafnvægislið búvörusamninga.

Allir eru meðvitaðir um að tryggja þarf næstu verkþætti, þ.e. 62 alls milljónir fram að innleiðingu.  Bendir á að sækja má í ýmsa sjóði og LK á enn fjármuni frá því framleiðsluráðssjóður var  lagður niður og verkefnið ætti ekki að stöðvast vegna fjárskorts.  Auka þarf þróunarfjármuni í búvörusamningum. Í tillögunni felst einnig að tryggja þarf utanumhald og rekstur til lengri tíma, þ.e. eftir að innleiðingu lýkur.

Herdís Magna Gunnardóttir bendir á að verkefnið hefur ekki verið stopp vegna fjárskorts. Eðlilegt að það taki tíma fyrir nýtt fólk að setja sig inn í verkefnið og þó að það sé fjárfrekt er það mjög arðvænlegt, og borgar sig jafnvel upp á einu ári vegna ávinnings sem af því hlýst.

Eftir umræður á fundinum varð samhljómur um að fella úr tillögunni tengingu við fjármögnun úr búvörusamningum og breytingatillaga svohljóðandi lögð fram:

4.5 Erfðamengisúrval í íslenskri nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórna LK, BÍ og RML að tryggja fjármögnun innleiðingar og rekstur erfðamengisúrvals í íslenskri nautgriparækt og koma í gagnið svo hratt sem kostur er. Við fjármögnun verkefna sem þarf að ráðast í til innleiðingar sé meðal annars sótt um styrki úr Matvælasjóði og þróunarfé nautgriparæktar og einnig litið til fjármuna af samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Fyrir liggur að utanumhald og rekstur verkefnisins til framtíðar er kostnaðarsamt og tryggja þarf framtíðarfjármögnun þess. Beinir fundurinn því til stjórnar LK að tryggja verkefninu framtíðarfjármagn.

Að mati kúabænda er ekki eftir neinu að bíða með að hefja innleiðingu á þessari byltingarkenndu aðferð, sem hefur það að markmiði að skera úr um kynbótagildi gripa fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. Fyrir liggur að fá ef nokkur verkefni en það sem hér um ræðir, geta með öruggari hætti dregið úr framleiðslukostnaði og þar með aukið samkeppnishæfni, sjálfbærni og verðmætasköpun í mjólkurframleiðslu til frambúðar.

Breytingartillagan borin upp og samþykkt með 26 atkvæðum gegn tveimur.

Tillagan svo breytt afgreidd samþykkt mótatkvæðalaust með 27 atkvæðum.

4.6 Notkun erfðabreyttsfóðurs í nautgriparækt.

Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldin í fjarfunarbúnaði 6. nóvember 2020 beinir því til stjórnar LK að greina kosti og galla, hindranir og tækifæri í að banna notkun erfðabreytts fóðurs í mjólkurframleiðslu.

Guðrún Eik Skúladóttir tók til máls og benti á að áður hafi verið flutt efnislega samhljóða tillaga.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri upplýsti að málið hefði verið til umræðu í stefnumótunarstarfi 2018, en ákveðið hefði verið þá að hvetja til fjölbreytilegrar innlendrar fóðurframleiðslu.

Ingvar Björnsson telur umræðuna áhugaverða. Brýnt er að hafa í huga að ef þetta er bannað mun kjarnfóðurkostnaður hækka mjög verulega. Ímyndarlegur ávinningur gæti orðið en  vegur hann upp efnahagslegan kostnað?   Hvetja þarf mjög til innlendrar framleiðslu á fóðri.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir .  Fóðurvörð mun hækka með aðgerðum á borð við þessa. Ekki heppilegt eyða fjármunum í þetta.  Frekar að vinna með öflugum hætti að öðrum þáttum í umhverfisáætlun,  t.d. varðandi pálmolíu.

Davíð Logi Jónsson. Bendir á að tillagan varðar í raun ekki bara mjólkurframleiðslu.  Bann getur líka haft áhrif á möguleika til að geta selt innmat og aðrar afurðir.  Hann er ekki endilega fylgjandi tillögunni sem felur í sér bann en bendir þó á að í því kunni að felast tækifæri.

Rafn Bergsson tillagan snýst um að kanna kosti þessa, ekki að innleiða.  Telur því rétt að kryfja þetta og taka svo ákvörðun.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir. Kostnaður byrjar strax að telja um leið og verkefnið hefst. Telur áhrif efðfabreytts fóðurs á gripi ekki sannaða eða fullrannsakaða. Telur önnur verkefni skipta meira máli núna og horfa eigi fyrst til þeirra.

Egill Gunnarsson bendir á að hugsunin er að fólk kaupi vöruna frekar  ef vottunin er fyrir hendi. Telur að enginn fótur sé fyrir því að skaðleg áhrif séu af erfðabreyttri ræktun við hlið annarrar. Minna kolefnisfótspor sé jafnvel af þeim afurðum. Hvetur bændur til að nýta efðabreytt fóður.  Ef ekki er hægt að sýna fram á skaðsemi en samt á að banna er verið að ganga á atvinnufrelsi.

Guðrún Eik Skúladóttir, tekur heilshugar undir orð Egils og leggur til að tillögunni verði vísað frá.

Frávísunartillaga borin upp og samþykkt með 21 atkvæði gegn fjórum.

Tillögur frá starfsnefnd 5.

Í starfsnefnd 5 sátu Jón Elvar Gunnarsson formaður, Egill Gunnarsson ritari (varamaður fyrir Halldór Jónas Gunnlaugsson), Birgir Arason, Magnús Örn Sigurjónsson (varamaður fyrir Rafn Bergsson), Valgerður Kristjánsdóttir, Guðrún K. Eiríksdóttir.

Jón Elvar Gunnarsson gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og fyrirliggjandi tillögum.

10 tillögur bárust nefndinni. Fjórar bárust frá stjórn og eru þær lagðar fyrir fundinn.  Einni vísað frá en fimm tillögum áfram til fundarins.

5.1 Aðgengi að dýralæknum

Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, gerir alvarlega athugasemd að víða um land séu fáir dýralæknar á bakvakt á stórum svæðum þar sem eru langar vegalengdir og illfærir vegir að vetri, slíkt kemur niður á velferð og þjónustu við bændur. Í samræmi við nýja reglugerðir (nr 405/2020 og nr 406/2020) verður að tryggja aðgengi að dýralæknum  enda um mikilvæga grunnþjónustu að ræða fyrir nautgripabændur og aðra bændur.

Greinargerð: Sem dæmi má nefna þessu til stuðnings að aðeins einn dýralæknir er á bakvakt á jafn stóru svæði og Norðurlandi-vestra. Aðeins einn dýralæknir er starfandi í báðum Húnavatnssýslunum, en hinir dýralæknarnir á svæðinu eru staðsettir í Skagafirði. Í kjölfar óveðursins í desember 2019, þar sem yfir hundrað hross drápust í Húnavatnssýslum varð álagið á dýralækninn gríðarlegt. Nauðsynlegt er að gera þjónustusamning við annan dýralækni í Húnavatnssýslum og fjölga dýralæknum á bakvakt á Norðurlandi-vestra sem fyrst! Einnig þarf Matvælastofnun að taka mið af veðurspám og fjölga dýralæknum á vakt þegar veður eru válind, þar sem erfitt getur reynst fyrir dýralækna að komast á milli staða í slæmu veðri og færð.

Guðrún Eik Skúladóttir bendir á að frá því tillagan var unnin hafi aðstæður breyst, t.d. á Norðurlandi vestra. Í ljósi þess þurfi að endurskoða texta tillögunnar.

Björgvin Gunnarsson telur að orða þurfi tillöguna meira almennt, vandinn er fyrir hendi í öllum landshlutum, vestur á fjörðum, fyrir austan og víðar.

Ingvar Björnsson telur nauðsynlegt að þétta samstarf Bændasamtakanna og Matvælastofnunar því stjórnsýslu þessarar þjónustu sé ábótavant.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir tekur undir með Björgvini varðandi almennara orðalag.

Valgerður Kristjánsdóttir vill gjarnan hafa greinargerðina í svipuðu horfi og hún er, telur að sértækt orðalag geri tillöguna skarpari.

Jón Elvar Gunnarsson segir frá því að var verið að bjóða út stöðugildi fyrir austan. Matvælastofnun hefur reynt að fá dýralækna til starfa og virðist vera að vinna í málinu.

Birgir H. Arason.  Tillagan kom án greinargerðar til nefndarinnar en nefndin bætti greinargerðinni við. Í raun mætti bara sleppa henni og láta tillöguna standa eina og sér.

Guðrún Eik Skúladóttir tekur undir með Birgi og leggur til að greinargerðinni verði sleppt.

Tillaga um að sleppa greinargerð við framlagningu tillögu 5.1 samþykkt með 25 atkvæðum gegn einu.

Fyrir liggur þá svohljóðandi tillage:

5.1 Aðgengi að dýralæknum

Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, gerir alvarlega athugasemd að víða um land séu fáir dýralæknar á bakvakt á stórum svæðum þar sem eru langar vegalengdir og illfærir vegir að vetri, slíkt kemur niður á velferð og þjónustu við bændur. Í samræmi við nýja reglugerðir (nr 405/2020 og nr 406/2020) verður að tryggja aðgengi að dýralæknum  enda um mikilvæga grunnþjónustu að ræða fyrir nautgripabændur og aðra bændur.

Tillagan borin upp og samþykkt mótatkvæðalaust með 27 atkvæðum.

5.2 Forgangsröðun fjárfestingastuðnings

Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, leggur til að fjárfestingarstuðningi úr samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verði forgangsraðað í þágu framkvæmda sem hafa að markmiði að uppfylla ákvæði reglugerðar um velferð nautgripa nr. 1065/2014 og reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri nr. 804/1999. Mótaðar verði tillögur þar að lútandi á vettvangi samtaka nautgripabænda sem fundinn verði staður í reglugerð um stuðning í nautgriparækt.

Greinagerð: Undanfarin ár hefur ásókn í fjárfestingastuðning úr samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verið langt umfram þær fjárhæðir sem ráðstafað er í þann lið samningsins. Skerðast allar samþykktar umsóknir hlutfallslega ef fjármunir hrökkva ekki til, án tillits til þess að hve miklu leyti viðkomandi framkvæmd samrýmist markmiðum með fjárfestingastuðningi. Enn eru nokkuð á þriðja hundrað básafjós í notkun hér á landi, frá sjónarhóli dýravelferðar er mikilvægt að endurnýjun þeirra yfir í lausagöngu verði hraðað sem kostur er. Þá eru fimm ár frá því að undanþáguákvæði reglugerðar 804/1999 frá sex mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð féll úr gildi og því afar brýnt að fullnægjandi haugrými verði komið upp alls staðar svo fljótt sem verða má. Í nýrri skýrslu Eflu verkfræðistofu um kolefnisspor íslenskrar nautgriparæktar, kemur fram að um 20% af kolefnisspori nautgriparæktarinnar má rekja til notkunar og meðhöndlunar á húsdýraáburði. Dreifing búfjáráburðar við óhentugar aðstæður dregur einnig úr nýtingu næringarefna og skaðar ímynd greinarinnar.

Björgvin Gunnarsson spurði af hverju tillagan kæmi fram og hvort köfnunarefnismengun vatns væri vandamál á Íslandi?

Ingvar Björnsson bendir á að í núverandi reglugerð séu sett fram ákveðin skilyrði og spyr hvað tillagan feli nákvæmlega í sér. Hvaða framkvæmdir myndu detta út úr stuðningsmöguleikum ef tillagan er samþykkt?

Arnar Árnason. Tillagan er í anda þess sem LK hefur talað fyrir í framkvæmdanefnd varðandi foragangsröðun fjárfestingastuðnings. Fjármagnið takmarkað og kannski best varið til að uppfyllla ákvæði dýravelferðarreglugerða heldur en annarra verkefna á borð við hellulagnir og plön.

Björgvin Gunnarsson spyr að nýju um köfnunarefnismengun og hvort hún sé vandamál.

Unnsteinn Snorri Snorrason, fundarstjóri upplýsti að reglugerðin sé gömul og endurspegli í raun fremur verkfni sem uppi er í nágrannalöndunum.  Snýr ekki síður að geymslutíma og þ.h.  Reglugerðin þarfnast endurskoðunar í heild. Tillagan byggist því ekki á því að hér sé stórkostlegt vandamál með nítatmengun heldur sé horft til lengri tíma.

Fleiri tóku ekki til máls.  Tillagan borin upp.  Samþykkt samhljóða með 27 atkvæðum.

5.3 Eftirfylgni með fanghlutfalli

Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, leggur til að Nautastöðin fylgist með fanghlutfalli bænda og frjótækna og geri tillögur að úrbótum þegar þurfa þykir. Jafnframt verði sæðingamönnum tryggð endurmenntun með reglulegu millibili og þá jafnvel í samstarfi við erlenda aðila.

Greinargerð: Með tillögunni, sem er að norskri fyrirmynd, er lagt til ákveðin eftirfylgni með fanghlutfalli til að bæta fanghlutfall. Í Noregi eru frjótæknar teknir í námsskeið og próf ef fanghlutfall sæðinga fellur niður fyrir ákveðna prósentu. Þeir bændur sem ná ekki viðunandi árangri verður boðið upp á ráðgjöf til að bæta úr. Þá er einnig gagnlegt fyrir aðra bændur að vita sínar tölur til að bæta fanghlutfall kúa. Það sparað talsverða fjármuni ef sæðingar ganga betur og þannig lækkað sæðingargjöld.

Finnur Pétursson spyr hvort þessar upplýsingar liggi ekki fyrir í Huppu ef rétt er skráð inn?

Elín Heiða Valsdóttir.  Bendir á orðalag fylgjast með kúm bænda en ekki bændum og árangri frjótækna ekki frjótæknum.

Björgvin Gunnarsson. Telur upplýsingarnar liggja fyrir í Huppu eins og bent hefur verið á.

Jón Elvar Gunnarsson segir að upplýsingarnar liggi fyrir en séu ekki í raun nýttar. Um það snúist tillagan.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir styður tillöguna. Í henni felst m.a. að  Nautastöðin fylgist með og hnippi í frjótækna t.d. ef frávik verða.

Ingi Björn Árnason tekur undir ábendingar varðandi nauðsynlegar orðalagsbreytingar. Upplýsingarnar liggja fyrir og vinna þarf með þær.

Arnar Árnason telur að upplýsingarnar liggi fyrir en vinna þurfi með þær og gera skráningu og vinnslu aðgengilegri. Í dag er t.d. handskráð fjórum sinnum við hverja sæðingu sem getur boðið hættunni heim varðandi mistök o.þ.h. auk þess sem þar er tímafrekt og stirt til úrvinnslu.

Egill Gunnarsson.  Undirstrikar að nýta þurfi fyrirliggjandi gögn betur. Frjótæknar hafa ekki greiðan aðgang að þessum upplýsingum..  Nauðsynlegt að straumlínulaga ferlið og gera það betur úr garði og meira rafrænt og sjáflvirkt svo hægt sé að kalla eftir upplýsingum og nýta.

Finnur Pétursson telur tillöguna góða. Hefur persónulega góða reynslu af eftirfylgni frá Nautastöðinni.

Vegna ábendinga fundarmanna voru lagðar fram eftirfarandi orðalagsbreytingar á tillögunni:

5.3 Eftirfylgni með fanghlutfalli

Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, leggur til að Nautastöðin fylgist með fanghlutfalli hjá kúm bænda og árangri frjótækna og geri tillögur að úrbótum þegar þurfa þykir. Jafnframt verði sæðingamönnum tryggð endurmenntun með reglulegu millibili og þá jafnvel í samstarfi við erlenda aðila.

Greinargerð: Með tillögunni, sem er að norskri fyrirmynd, er lagt til ákveðin eftirfylgni með fanghlutfalli til að bæta fanghlutfall. Í Noregi eru frjótæknar teknir í námsskeið og próf ef fanghlutfall sæðinga fellur niður fyrir ákveðna prósentu. Þeir bændur sem ná ekki viðunandi árangri verður boðið upp á ráðgjöf til að bæta úr. Þá er einnig gagnlegt fyrir aðra bændur að vita sínar tölur til að bæta fanghlutfall kúa. Það sparað talsverða fjármuni ef sæðingar ganga betur og þannig lækkað sæðingargjöldum.

Breytingin samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, 28 talsins.

Tillagan samþykkt svo breytt samþykkt mótatkvæðalaust með 28 atkvæðum.

5.4 Samrekstur búa

Aðalfundur LK haldinn í fjarfundi 6. nóvember áréttir að starfshópur (Starfshópur um aðlögunarsamninga, minni bú o.fl.) sem kanna átti kosti/galla og mögulegar útfærslur á samrekstri kúabúa skili tillögum og niðurstöðu fyrir 31. desember 2020.

Arnar Árnason tók til máls og gerði stuttlega grein fyrir tillögunni.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs.

Tillagan borin upp og samþykkt með 25 atkvæðum mótatkvæðalaust.

5.5 Fræðslufundir bænda

Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, ályktar að gott væri að efla tengingu RML, LK og aðra aðila við bændur og efla félagslegar tengingar bænda, sér í lagi á tímum Covid-19. Góð fyrirmynd eru fjarfundir sem RML hélt síðasta vor um ákveðin málefni og kynnti einnig starfsemi RML fyrir bændum. Þannig má ræða um hvað er að gerast í nautgriparæktinni t.d kynna ýmis frávik/upplýsingar sem má lesa út úr skýrsluhaldinu á landsvísu, t.a.m. sveiflur í frjósemi, heygæðum o.fl.

Herdís Magna Gunnarsdóttir lýsti ánægju sinni með tillöguna og hversu auðvelt er með hjálp tækni að hafa samtal og viðburði.

Jón Elvar Gunnarsson.  Bendir á að gott væri að hafa fjarfundi og fyrirlestra tekna upp svo hægt sé að nýta þá t.d. í viku á eftir, þá geti fleiri notið viðkomandi fræðsluefnis.

Fleiri tóku ekki til máls.

Tillagan borin upp og samþykkt með 26 samhljóða atkvæðum.

Jón Elvar Gunnarsson gerði stuttlega grein fyrir þeim tillögum sem ekki komu fyrir fundinn. Ástæða þess var fyrst og fremst sú að þau mál voru þegar í vinnslu.

Umfjöllun um tillögur starfsnefnda lokið.

Fyrir liggur svohljóðandi tillaga frá stjórn og framkvæmdastjóra:

,,Lagt er til að skráning í LK taki áfram gildi um næstu mánaðamót eftir að tilkynning berst samtökunum og úrsögn ur samtökunum taki gildi 3 mánuðum eftir að tilkynning berst skrifstofu LK.  Árgjald hollvina samtakanna skal áfram vera 4.000 krónur.  Lagt er til að styrkir til aðildarfélaga LK nemi áfram í heild 1.000.000 krónum”

Ingvar Björnsson telur að úrsögn þurfi að taka fyrr gildi og telur að rétt sé að miða við næstu mánaðarmót.  Saknar þess að tillaga um verðlagsmál hafi ekki skilað sér úr nefnd fyrir fundinn.  Telur að betri rökstuðning þurfi fyrir því að leggja tillögur ekki fyrir fundinn sem berast til nefnda.

Arnar Árnason skýrði að ákvörðun um félagsaðild og tímalengd væri hugsuð þannig að fólk gæti síður hópast inn til að kjósa og svo út aftur án þess að vera raunverulega þátttakendur í félaginu eða í starfinu.

Ingi Björn Árnason vill halda þessum þremur mánuðum sem nú eru uppsagnarfrestur, fyrst og fremst til að gæta að lýðræðinu í félginu.  Í framhaldi af orðum Ingvars bendir hann á að nefndirnar séu settar á fót til þess að afgreiða mál, vinna og ákveða hvað fer fyrir fundinn. Ekkert ólýðræðislegt við að sía út.  Hver og einn getur lagt sitt til þegar til fundarins er komið.

Unnsteinn Snorri Snorrason fundarstjóri, leggur til að umræðum um störf nefnda og tillögum til fundarins verði fram haldið undir liðnum önnur mál.

Jón Elvar Gunnarsson tók undir með Inga Birni varðandi hlutverk nefnda og nefndastarfs. Ekki sé óeðlilegt að nefndir vinni málin og tillögur fyrir aðalfund.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson tók í sama steng og Ingi Björn og Jón Elvar varðandi verkefni nefnda fyrir aðalfund.

Valgerður Kristjánsdóttir lýsti því að hún væri sammála því að miða við þrjá mánuði til úrsagnar líkt og um er getið í tillögunni, telur það sanngjarnt.

Björgvin Gunnarsson tekur undir þetta og telur vel hafa verið útskýrt hvað liggi á bak við tillöguna.

Fram er borin svohljóðandi breytingatillaga Ingvars Björnssonar:

Lagt er til að skráning í LK taki áfram gildi um næstu mánaðamót eftir að tilkynning berst samtökunum og úrsögn ur samtökunum taki gildi næstu mánaðamót eftir að tilkynning berst skrifstofu LK.  Árgjald hollvina samtakanna skal áfram vera 4.000 krónur.  Lagt er til að styrkir til aðildarfélaga LK nemi áfram í heild 1.000.000 krónum.

Breytingatillagan borin upp og felld með 20 atkvæðum gegn einu.

Tillagan óbreytt borin upp og samþykkt með 26 atkvæðum án mótatkvæða.

Unnsteinn Snorri Snorrason fundarstjóri gaf nú orðið laust, í samræmi við óskir fundarmanna, til umræðna um afgreiðslu tillagna í nefndum.

Birgir H. Arason. Spyr hvers vegna ákveðið hafi verið í nefnd að tillaga frá Félagi eyfiskra kúabænda varðandi ákvörðun greiðslumarks í mjólkurframleiðslu kæmi ekki til umræðu á fundinum?

Davíð Logi Jónsson.  Telur að í tillögunni geti í raun falist ófyrirsjáanleg heimild til að lækka verð til bænda líkt og í tillögu frá Baulu varðandi efnahalla.  Ekki sé skynsamlegt að tillögur sem geta falið í sér verðlækkun til bænda komi frá bændum sjálfum. Hins vegar sé ekki óeðlilegt að slíkar tillögur komi frá iðnaðinum og þeim sem þurfa að annast þann rekstur.

Herdís Magna Gunnarsdóttir bendir á að algengt sé að tillögum sé vísað frá en alltaf sé líka sjálfsagt að taka þær til sérstakrar umræðu ef óskað er.

Björgvin Gunnarsson lítur svo á að sumar tillögur eigi frekar að ræða á vettvangi afurðastöðva.  Tollamálin hafi t.d. mikil áhrif á efnahallann.  Skýrði hann frá því að hann hefði setið í starfsnefndinni og þar hefði ekki verið ágreiningur um undirbúning og fyrirlagningu þeirra tillagna sem komu frá nefndinni fyrir fundinn.

Haraldur Einarsson tekur undir með Björgvini og Davíð Loga. Gott er að taka umræðuna hér á þessum fundi. Hann telur að LK eigi fyrst og fremst að standa vörð um hagsmuni og kjör bænda.  Umræður um efnahallann eigi ekki heima hér heldur á vettvangi iðnaðarins.

Herdís Magna Gunnarsdóttir segir að tillagan hafi komið inn á fund hjá Auðhumlu fyrr á árinu.  Starfsmenn iðnaðarins mæla ekki með tillögunni, af hverju ættu bændur þá að mæla með þeirri breytingu sem í henni felst?

Ingvar Björnsson bendir á að eiginlega sé uppi pattstaða.  Á deildafundum sé alltaf rætt að mjólkuriðnaðurinn geti ekki breytt verðlagsmálum og sama umræða sé uppi hér. Ingvar minnir á að mjólkuriðnaðurinn sé m.a. í eigu bænda og bændur því beggja megin borðsins. Telur rétt að skoða verðsamsetningu á mjólk, ekki lækka verð til bænda.  Verð til bænda þurfi að vera sanngjarnt en iðnaðurinn þurfi að geta staðið undir því verði. Mælir með þriggja þrepa verðlagskerfi. Nauðsynlegt að ræða tilfærslu.

Elín Heiða Valsdóttir þakkar Ingvari fyrir að koma inn á þessi mál. Nauðsynleg umræða. Spyr hvort metið hafi verið hversu mikið tillagan sem sett var fram myndi lækka laun til bænda ef hún næði fram að ganga?  Skiptir máli hvernig kökunni sé skipt og nauðsynlegt er að fyrirkomulagið sé gagnsætt.

Birgir H. Arason þakkar fyrir áhugaverða umræðu og þau svör sem hafa komið fram. Rétt sem Ingvar tekur fram að bændur séu beggja megin borðsins. Birgir situr nú í fyrsta sinn sem fulltrúi á aðalfundi LK.  Hann bendir á að iðnaðurinn hafi áhyggjur af efnahalla og fyrir hendi sé umframframleiðsla. Ábyrgð bænda er mikil og nauðsynlegt að ræða stöðuna.

Herdís Magna Gunnarsdóttir segir umræðuna nauðsynlega og ekki eigi að hræðast að taka samtalið. Hún sat áður í stjórn SAM og efnahallinn er reglulega ræddur þar. Unnið hefur verið á þeim vettvangi í mótvægisaðgerðum að vinna með efnahallann, best væri að auka fitumagnið í mjólkinni en takmörk eru fyrir því hvað hægt er að gera í þeim efnum.  Ekki heppilegt að flytja inn fituna og miða greiðslur við próteinið. Vert væri að taka saman talnaefni um þetta og birta félagsmönnum.  Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar / útreikninga frá iðnaðinum, myndi tillagan sem lögð var fram ekki borga sig fyrir iðnaðinn og ekki bændur heldur.

Davíð Logi Jónsson kvað hugmyndir Ingvars um þriggja þrepa kerfi áhugaverðar og gott að ræða á vettvangi félagsins. Ályktun um að bændur lækki tekjur sínar ættu ekki að koma frá LK,  eðlilegra væri að tillögur þess efnis kæmu frá iðnaðinum.

Björgvin Gunnarsson fagnar umræðunni og telur að tillagan frá Félagi eyfirskra kúabænda hafi í raun snúist um að fella hina tillöguna.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson kvaðst ekki vera því sammála að tillaga Eyfirðinga hefði snúist um að fella hina tillöguna.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs undir þessum lið.

Ársreikningur Landssambands kúabænda 2019.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri fór yfir ársreikning og skýrði einstaka liði hans.  Rekstur var með hefðbundnu sniði og jákvætt er að félagið skuli skila rekstrarafgangi þrátt fyrir að nú hafi búnaðargjöld verið aflögð og treysta þurfi á félagsgjöld til reksturs félagsins. Tekjur félagsins á árinu 2019 námu 59.968.643.  20 milljónir af þeirri upphæð var styrkur vegna nautakjötsverkefnis, en aðrar tekjur, tæpar 40 milljónir voru félagsgjöld. Gjöld ársins námu alls 49.543.402. Stærstur hluti útgjalda er laun, rektsur skrifstofu og starfskostnaður stjórnar. Hagnaður eftir fjármagnsliði var kr. 14.593.463,-.

Fundarstjóri gaf orðið laust um ársreikning.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson spurði hvort ársreiningur væri ekki áritaður.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri upplýsti að ársreikningur væri áritaður af skoðunarmönnum félagsins og hefði að auki verið til umfjöllunar og afgreiðslu hjá starfsnefnd 1.

Fleiri tóku ekki til máls undir þessum lið.

Ársreikningur Landssambands kúabænda 2019 borinn upp og samþykktur með öllum greiddum atkvæðum 28 talsins.

Fjárhagsáætlun Landssambands kúabænda fyrir árið 2020

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri fór yfir fjárhagsáætlun og þar sem langt er liðið á starfsárið ber yfirferðin þess merki.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir rekstrarafgangi fyrir fjármagnsliði kr. 8.135.000.

Fundarstjóri gaf orðið laust.

Björgvin Gunnarsson spyr um nautakjötsverkefnið sem hann telur er kostnaðarsamt og væntan árangur þess.

Jón Elvar Gunnarsson spurði einnig um nautakjötsverkefnið og hvort rétt sé skilið að eftirstöðvar kostnaðar við það séu í raun 31 milljón?

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri fór yfir fjárflæði og helstu verkþætti í nautakjötsverkefninu.  Á árinu 2019 fékkst framlag til þess kr. 20 milljónir til að mæta kostnaði 2019 og 2020.  16 milljóna framlag hefur verið samþykkt á þessu ári 2020, til að mæta rekstrarkostnaði ársins 2021.  Framlögin hafa komið af framleiðslujafnvægislið í búvörusamningi og nægja fyrir öllum rekstrarkostnaði verkefnisins.

Hún telur að verkefnið skili bændum virkilega vel.  Þar verði til góð gögn og mun betri yfirsýn, sem afar mikilvægt er að hafa. Verðlækkanir til bænda eru mikið áhyggjuefni, tollamálin þarfnast úrbóta, rekstrarhagræðing innan afurðastöðva og fl. er í vinnslu til að vinna gegn verðlækkununum.  Þar er um að ræða mikla vinnu og tímafreka en góð yfirsýn og gögn séu afar nauðsynleg.  Nýlega kom út skýrsla um stöðumat um aðstöðu í nautakjötsframleiðslu og búið er að þróa verðvísitölu afurðaverðs til bænda, unnið er að gerð bæklings og fræðsluefnis í samstarfi við RML og verið er að vinna að vörumerki fyrir gæðakjöt.

Haraldur Einarsson spyr hvort í raun sé búið að tekjufæra allt framlag vegna verkefnsins en útgjöldin eigi eftir að skila sér á árinu 2021? Hann spyr einnig hver þróun félagsgjalda gæti orðið með breytingum á félagskerfi bænda.  Spyr hvort rétt væri að gera átak í að safna fleiri félögum?

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri tók til máls. Skýrði að skilningur Haraldar varðandi greiðsluflæði vegna nautakjötsverkefnis væri réttur. Verkefninu er haldið aðskildu í reikningum frá annarri starfsemi félagsins. Margrét benti á að þegar búnaðargjaldið var aflagt hafi allir kúabændur fengið boð um áframhalandi þátttöku í félaginu. Haft var samband við þá með símtölum, póstum og heimsóknum.  Nú sé fyrirkomulag í félagskerfi bænda óljóst næstu misserin. Að þeim breytingum loknum verði mögulega auðveldara að gera slíkt átak.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs.

Fjárhagsáætlun borin upp og samþykkt samhljóða með 28 atkvæðum.

  1. Kosning formanns

Fyrir fundinum liggja framboð frá tveimur félagsmönnum í starf formanns til eins árs.

Fundarstjóri gaf frambjóðendum orðið í stafrófsröð.

Herdís Magna Gunnarsdóttir og Þröstur Aðalbjarnarson tóku til máls, kynntu sig og áherslur sínar.

Höskuldur Sæmundsson tæknimaður fundarins fór yfir fyrirkomulag kosninga í embætti. Kosið er í gegnum rafrænt kosningakerfi sem tryggir að atkvæðagreiðslan er leynileg.  Gylfi Orrason fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands hefur eftirlit með kosningum í embætti.

Gengið var til atkvæða.

Niðurstaða:

Herdís Magna Gunnarsdóttir, 24 atkvæði.

Þröstur Aðalbjarnarson, 4 atkvæði.

Auð og ógild atkvæði engin.

Herdís Magna Gunnarsdóttir nýr formaður tók til máls. Þakkaði hún traustið sem henni er sýnt með kjörinu og málefnalegt mótframboð. Þakkaði hún einnig fráfarandi formanni og allri stjórninni og rifjaði upp krefjandi tíma þegar stjórn og framkvæmdastjóri komu til starfa, þar sem allir voru nýir og starfsumhverfi í mikilli óvissu m.a. vegna nýgerðra búvörusamninga.

Fundarmenn fögnuðu nýjum formanni og þökkuðu fráfarandi formanni með lófaklappi.

Þröstur Aðalbjarnarson tók til máls, óskaði nýjum formanni velfarnaðar í störfum.  Lýsti hann jafnframt framboði sínu í stjórnarkjöri sem fram fer síðar á fundinum.

  1. Kosningar

Kosning fjögurra stjórnarmanna til eins árs.

Sex félagsmenn gáfu kost á sér. Frambjóðendur til stjórnar voru eftirtaldir:

Bessi Freyr Vésteinsson, Hofstaðaseli.

Brynjar Bergsson, Refsstöðum.

Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu.

Sigurbjörg Ottesen, Hjarðarfelli.

Vaka Sigurðardóttir, Dagverðareyri.

Þröstur Aðalbjarnarson, Stakkhamri.

Tóku þeir til máls í stafrófsröð, kynntu sig og helstu áherslur sínar.

Gengið var til atkvæða.

Niðurstaða:

Bessi Freyr Vésteinsson, 27 atkvæði

Rafn Bergsson, 25 atkvæði

Sigurbjörg Ottesen, 22 atkvæði

Vaka Sigurðardóttir, 20 atkvæði

Þröstur Aðalbjarnason, 8 atkvæði

Brynjar Bergsson, 7 atkvæði

Davíð Logi Jónsson, 1 atkvæði

Guðrún Eik Skúladóttir, 1 atkvæði

Ingvar Björnsson, 1 atkvæði.

Rétt kjörnir stjórnarmenn til eins árs:  Bessi Freyr Vésteinsson, Rafn Bergsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir.

Kosning tveggja varamanna í stjórn til eins árs:

Fundarstjóri lýsti eftir framboðum.

Guðrún Eik Skúladóttir tók til máls og lýsti framboði sínu.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir tók einnig til máls og bauð sig fram til setu í varastjórn.

Finnur Pétursson tók til máls og lýsti stuðningi við frambjóðendurna, en kvaðst ekki leggja í að greiða atkvæði í rafræna kosningakerfinu.

Jón Elvar Gunnarsson kvaddi sér hljóðs og lýsti framboði sínu.

Fleiri tóku ekki til máls. Gengið var til atkvæða.

Niðurstaða:

Guðrún Eik Skúladóttir, 24 atkvæði

Jón Elvar Gunnarsson 13 atkvæði

Sigrún Hanna Sigurðardóttir, 11 atkvæði

Ingi Björn Árnason, 3 atkvæði

Þröstur Aðalbjarnason, 1 atkvæði

Auð og ógild, 1 atkvæði.

Réttkjörnir varamenn í stjórn til eins árs:  Guðrún Eik Skúladóttir og Jón Elvar Gunnarsson.

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins varamanns þeirra til eins árs.

Fyrir fundinum liggur tillaga um óbreytta skipan þeirra embætta.

Aðalmenn:  Guðmundur Bjarnason og Aðalsteinn Hallgrímsson.  Varamaður:  Kristín Hermannsdótir.

Ekki komu fram aðrar tillögur og var tillagan því borin upp.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum 28 talsins.

  1. Önnur mál

Egill Gunnarsson tók til máls og mæti fyrir svohljóðandi tillögu:

,,Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020 í fjarfundabúnaði leggur til kúabændum standi til boða gripamerki sem taka DNA sýni úr gripunum um leið og kálfar eru merktir, eins og skylt er að gera skv. reglugerð 965/2012 um merkingar búfjár. Slík merki hafa fengist um nokkurt skeið hjá framleiðanda og nefnast þau OS ID TST®.

Greinargerð: Eitt af grundvallaratriðum í erfðamengisúrvali er að grunnerfðahópurinn sé sem tengdastur stofninum eins og hann er á hverjum tíma. Ein skilvirkasta leiðin að viðhaldi grunnerfðahópsins er að tekin verði í notkun gripamerki sem taka DNA sýni um leið og þau eru sett í kálfinn“.

Ingi Björn Árnason tók til máls.  Veltir því upp hvort hægt sé að koma með tillögur í lok aðalfundar undir dagskrárliðnum önnur mál eða hvort réttara væri að senda inn tillögur sem þá fengju umfjöllun í nefndum fyrir fudninn.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson spyr um innihald tillögunnar. Hvert er geymsluþol á sýnum, hvað kostar sýnatakan og greiningin? Hver er framvinda eftir að sýnataka hefur farið fram?

Valgerður Kristjánsdóttir spyr einnig um kostnað en líst annars ágætlega á tillöguna.

Egill Gunnarsson gat ekki upplýst um kostnað við sýnatökur og greiningar. Bendir á að í tillögunni felist tilmæli um að bændum standi þetta til boða en sé valkvætt svo enginn verði fyrir kostnaði sem ekki vill sýnatöku. Verið er að endurnýja sýnabankann, RML gæti búið til verklag svo hægt væri að nýta merkin.

Rafn Bergsson telur að nánari skýringar og forsendur vanti. Erfitt sé að taka ákvörðun út frá svo takmörkuðum upplýsingum eins og fyrir liggja hér á fundinum.

Sigrún Hanna Sigurðardóttir spyr hvort samþykkt þessarar tillögu á fundinum væri vel til þess fallin að flýta endurnýjun sýnabankans?

Egill Gunnarsson upplýsir að hugmyndin með tillögunni hafi einmitt verið að flýta fyrir endurnýjuninni.

Tillagan lögð fram og borin upp.  Samþykkt mótatkvæðalaust með 25 atkvæðum.

Orðið gefið laust undir þessum lið – önnur mál.

Guðmundur Bjarnason tók til máls. Óskar hann nýjum formanni til hamingju og þakkar fráfarandi formanni vel unnin störf.

Björgvin Gunnarsson kvaddi sér hljóðs. Lýsti ánægju með hve fundurinn hefði gengið vel fyrir sig í vefumhverfinu og hrósar sérstaklega og þakkar fundarstjóra sem stóð sig vel.

Davíð Logi Jónsson færði nýju stjórnarfólk hamingjuóskir og þakkar þeim sem nú hverfa af þeim vettvangi. Varpar fram þeirri hugmynd að nefndarstörf fyrir aðalfundi félagsins fari fram á fimmtudegi, mögulega með aðstoð fjarfundarbúnaðar, aðalfundur verði svo í framhaldi á föstudegi.

Arnar Árnason tók til máls og óskaði Herdísi Mögnu til hamingju með kjörið. Telur hann félagið í góðum höndum. Óskar nýrri stjórn velfarnaðar. Framundan eru krefjandi en skemmtileg verkefni.  Hann kveður stjórnarstarfið sáttur.

Finnur Pétursson þakkar fráfarandi stjórnarmönnum og óskar nýkjörnum til hamingju með óskum um velfarnað í störfum. Hann þakkar stjórnendum félagsins fyrir að halda rafrænan fund og lýsir ánægju með það fundarform. Telur m.a. að nefndastörf geti hæglega farið fram með því formi og rétt sé að vinna þau í góðum tíma fyrir aðalfund.

Rafn Bergsson þakkar það traust sem honum er sýnt með kjöri hans til setu í stjórn. Óskaði hann jafnframt Herdísi til hamingju með árangur í formannskjöri og þakkaði Arnari gott samstarf. Arnar er fylginn sér en samstarf við hann hefur verið mjög gott. Rafn óskaði Arnari alls góðs í framtíðinni.  Þá þakkaði hann fundarmönnum samveruna og starfsmönnum fundarins fyrir þeirra störf.

Jón Elvar Gunnarsson færði nýkjörnu stjórnarfólki hamingjuóskir og þakkir til fráfarandi stjórnarfólks.  Hann saknar þess að ekki skuli vera árshátíð og lagði til að fundarmenn myndu skála rafrænt í beinni útsendingu fundarins.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri tók til máls.  Þakkaði hún fundarmönnum þátttökuna og lýsti ánægju með að margir félagsmenn skuli vera tilbúnir til að taka að sér störf fyrir félagið. Landssamband kúabænda býr yfir dýrmætum mannauði. Margrét þakkaði Arnari og öðrum stjórnarmönnum fyrir traust og gott samstarf.

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson færði fram hamingjuóskir og þakkir. Krefjandi verkefni framundan. Fjarfundartækni ætti endilega að nýta til að hafa nánari samskipti og meira samráð.

Bessi Freyr Vésteinsson þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum og Arnari sérstaklega. Telur greinina á nokkuð góðum stað, þrátt fyrir allt þó ýmis verkefni séu framundan.

Fleiri báðu ekki um orðið.

Unnsteinn Snorri Snorrason fundarstjóri þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og gaf nýkjörnum formanni orðið.

Herdís Magna Gunnarsdóttir tók til máls.  Óskaði hún nýkjörnum félagsmönnum til stjórnar og varastjórnar til hamingju með kjörið. Jónatan Magnússon hverfur nú frá stjórnarstörfum og þakkaði Herdís honum fyrir hans framlag og samstarfið. Hún telur félagsmenn reynslunni ríkari eftir að hafa nýtt tæknina við fundarhaldið.  Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri hafi nú fengið gott veganesti frá fundinum til starfsins á næstunni.  Herdís tók undir orð þeirra fundarmanna sem telja einfalt og heppilegt að auka samstarf og samtal um málefni kúabænda með fjarfundartækni. Að lokum þakkaði Herdís fundarstjóra og starfsmönnum fundarins. Telur hún að kúabændur megi vera stoltir af framlagi sínu á matarborð landsmanna.

Að svo mæltu þakkaði hún samveruna á fundinum, óskaði velfarnaðar og sleit 34. aðalfundi Landssambands kúabænda kl. 16:35.

Katrín María Andrésdóttir, fundarritari.