Aðalfundur 2019

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 22. – 23. mars 2019

 1. Fundarsetning

Arnar Árnasonformaður LK setti fund kl. 10.15, bauð fundarfólk velkomið og lagði fram tillögu um starfsmenn fundarins. Inga Björn Árnason og Borghildi Kristinsdóttur sem fundarstjóra, Sigurgeir B. Hreinsson fundarritara og skrifstofustjóra Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur. Í kjörbréfanefnd voru tilnefnd Ingvar Björnsson formaður, Magnús Örn Sigurjónsson og Elín Margrét Stefánsdóttir. Fundurinn samþykkti tillöguna og tóku fundarstjórar við stjórn fundarins.

 1. Skýrsla stjórnar – Arnar Árnason og Margrét Gísladóttir

Arnar Árnason formaður LK flutti skýrslu sína og fór yfir marga af þeim þáttum sem snúa að nautgriparæktinni. Í upphafi nefndi formaður þá ánægjulegu þróun að framleiðendum innan LK hafi fjölgað um 10% og eru nú 430 og vaxandi skilningur á mikilvægi þess að standa saman að hagsmunabaráttunni. Niðurstaða kosninga um kvótann sýnir að stéttin stendur saman um það sem framundan er.

Nautakjötsframleiðslan býr við þá ógn að kjötverð hefur lækkað á sama tíma og verð til neytenda hefur hækkað. Þar er hörð barátta framundan vegna lækkandi tolla og aukins þrýstings vegna innflutnings á kjöti. Stórt skref í þeirri baráttu var stigið þegar einangrunarstöð var byggð og nýtt erfðaefni til eflingar kjötframleiðslu var flutt inn.

Félagsmálnefnd sem skipuð var samkvæmt ákvörðun Búnaðarþings er að störfum og eru bundnar miklar væntingar um gott starf og niðurstöðu sem leiði til öflugri þátttöku bænda.
Nokkra gremju hefur vakið að innan stjórnsýslunnar hefur vægi landbúnaðar stöðugt minnkað og er nú svo komið að innan þess ráðuneytis sem fer með málefni landbúnaðar er sá málaflokkur orðinn hluti af skrifstofu alþjóðamála. Þeim breytingum hefur verið mótmælt.
Mikil nauðsyn er á öflugu skólastarfi fyrir þróun greinarinnar, þar sem Landbúnaðarháskólinn er í lykilhlutverki og óskaði formaður nýjum rektor velfarnaðar í sínum störfum.
Formaðurinn ræddi síðan framkomið frumvarp landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu á innfluttu kjöti sem hann taldi þurfa skynsamlega nálgun. Við búum á eyju og höfum einstaka stöðu sjúkdómastöðu búfjár sem við þurfum að verja.

Síðan þakkaði hann fyrir gott samstarf í stjórn þó, því betur sé stundum tekist hressilega á.
Framkvæmdastjóri fer í fæðingarorlof í apríl og hefur Jóhanna María Sigmundsdóttir verið ráðin til starfa a.m.k. út þetta ár.

„Að lokum hvet ég bændur til að standa saman“ voru lokaorð formannsins.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri LK bauð fundarfólk velkomið á 33. aðalfund LK og kynnti með glærum og útskýringum samantekt á stöðu mjólkur- og nautakjötskjötframleiðslu liðins árs.
Mjólkurframleiðendur voru 558 og þar að auki 105 kjötframleiðendur. Meðalbú framleiddi rúmlega 270 þús. lítra af mjólk með 47 árskúa meðalfjölda og skilaði hver þeirra að jafnaði 6.275 kg.
Innheimt félagsgjöld LK á árinu voru alls 35,8 mkr. sem er 54% hærra en árið á undan. 430 framleiðendur eru félagar í LK en fyrir ári 398.  71% framleiddar mjólkur og 9.800 sláturgripir eru á bakvið félagsaðildina.

Innvigtuð mjólk liðins árs var 152,4 m lítra sem gera á fitugrunni 144,8 m og próteingrunni 129,5m lítra. Þar er munur 15,3 m í svokölluðum efnahalla. Útflutningur á fitugrunni 7,5 m lítra.
Hækkun á grundvallarverði til bænda á árinu var 3,52% og er nú  90,48 kr. á hvern lítra mjólkur og hækkun heildsöluverðs 4,86%. Greiddar eru 29 kr. fyrir umframmjólk.

Innlausn ríkisins á hvern lítra mjólkur voru 122 kr. á árinu 2018. Alls voru viðskipti með tvær millj. lítra. Innlausnarverðið er 100 kr. á þessu ári.

88,35% framleiðenda greiddu atkvæði í atkvæðagreiðslu um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og var niðurstaðan afgerandi, tæp 90% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við því að kvótinn verði áfram.
Vinna er að hefjast við búvörusamninga þar sem skipting stuðningsgreiðslna, viðskipti með greiðslumark, verðlagning mjólkur, nautakjötsframleiðsla, umhverfismál og samkeppnisstaða greinarinnar eru þau mál sem verða helst verða uppi á borði við endurskoðun samningsins.
Framkvæmdastjórinn fór síðan yfir nautakjötsframleiðsluna sem er grein á tímamótum. Framleidd voru á síðasta ári 4.775 tonn sem er nokkur aukning. Tekið var upp EROP kjötmat sem lengi hafði verið í undirbúningi. Uppbygging einangrunarstöðvar á Stóra-Ármóti er komin í góð not og þar fæddust 12 Aberdeen Angus kálfar sem urðu til við fósturvísainnflutning. Farið er að reikna uppgjör skýrsluhalds fyrir nautakjötsframleiðslu. Íslenskur markaður er örmarkaður þar sem lítið má útaf bera. Bæta þarf upprunamerkingar matvæla og upplýsingar um lyfjanotkun við framleiðslu búvara. Innfluttar landbúnaðarvörur eiga að uppfylla sömu eða sambærilegar kröfur og eru hér á landi.

Að lokum kom framkvæmdastjórinn inn á að það þurfi átak til að lyfta upp sérstöðu Íslands sem matvælaframleiðslu lands með það að markmiði að efla umræðu og auka skilning á mikilvægi hennar þannig að neytendur séu tryggir um að fá örugg matvæli.

 1. Umræður um skýrslu stjórnar

Jóhann Nikulásson fékk orðið og þakkaði fyrir skýrslur formanns og framkvæmdastjóra en saknaði þess þó að ekki hefði verið minnst á afkomu greinarinnar og framtíðarhorfur. Söfnun hagtalna hefur um árabil verið í skötulíki en mikilvægt er að forystufólk greinarinnar hafi ávalt sem nýjastar upplýsingar um afkomuþróun. Að hans mati hefur afkoman verið nokkuð góð þó blikur séu á lofti.

Ræðumaður lýsti áhyggjum af afkomu mjólkuriðnaðarins og kvað miður af forystu bænda að stinga hausnum í sandinn vegna ákvörðunartöku. Þar má nefna að það gangi ekki að greitt sé meira fyrir mjólkina en markaðstekjur gefi tilefni til. Efnahallinn er vaxandi án þess að brugðist sé við. Verðlagningakerfið þarf að nýta eins og ætlast er til í 12. gr. búvörusamningsins með því sem kallað er tekjumarkaleið, en því ákvæði samningsins þurfa forystumenn kúabænda að fylgja fast eftir. Enn á eftir að gera upp umframmjólk fyrir liðið ár og minnti á ákvæði búvörulaga þar um. Búa þarf mjólkuriðnaðinn undir samkeppni erlendis frá sem verður vaxandi með lækkandi tollum.
Niðurstaða í kvótakosningu kom ekki á óvart, en í undirbúningi kosningarinnar vantaði að væru settar upp mismunandi sviðsmyndir eins og lofað var. Hvernig verður útfærsla á kvótaviðskiptum? Passa þarf að hengja ekki of mikinn pening á viðskiptin verði til að þau verði eðlileg. Ef ákveðið verður fast verð verður markaðurinn áfram frosinn og þá verður krafa um frjálst framsal með öllum þeim göllum sem því fylgir.

Verkefni fundarins er að leggja línur varðandi endurskoðun búvörusamnings. Fjölmargar ályktanir félaga kúabænda eru í þá veru að stuðningsgreiðslur beinist að minni og meðalstórum búum. Við því þarf að bregðast. Það er umhugsunarefni að sé notuð séu um 50 þúsund tonn  af innfluttu kjarnfóðri til framleiðslu mjólkurinnar. Það þarf að gera framleiðsluna hagkvæmari og nýta innlenda ræktun og fóður betur. Plastnotkun í landbúnaði er um 1.700 tonn á ári. Það er tímaspursmál hvenær það leiðir til neikvæðrar umræðu. Það þarf að auka fjárfestingastyrki t.d. vegna mikillar nauðsynjar á byggingu haugrýmis til að standast þær kröfur og reglur sem í gildi eru. Þróunarfé þarf að aukast til að efla greinina. Það þarf að styðja þétt við nautakjötsframleiðsluna og leggja í hana meira fjármagn. Athyglisvert er skoða afkomu greinarinnar og þær miklu skuldir sem sem sjást við skoðun ársreikninga einkahlutafélaga þar sem kúabú eru rekin.

Ekki voru fleiri sem báðu um orðið undir þessum lið.

 1. Ávörp gesta.

Sigurður Eyþórssonframkvæmdastjóri BÍ flutti ávarp formanns sem komst ekki vegna veðurs. Í upphafi flutti hann góðar kveðjur frá stjórn BÍ. Aðalmál næstu vikna er endurskoðun búvörusamninga. Tollverndin virkar ekki í dag þegar búið er að fella niður tolla á flestu nema örfáum landbúnaðarvörum. Getum sameinast um að þar sem tollvernd á að vera skuli hún bíta. Frystiskylda skiptir máli og má þar nefna greinar og skýrslur sér fróðara aðila sem benda á mikilvægi hennar. Sýklalyfjaónæmi er mikil heilbrigðisvá og vinna þarf ötullega til að viðhalda þeirri góðu stöðu sem er hér á landi. Höldum í það sem við eigum því það verður ekki endurheimt ef tapast. Samstarf við LK í hagsmunabaráttu hefur verið mjög gott og var þakkað fyrir það. Hagsmunir allra bænda eru þeir sömu og þar þurfa allir að hafa sama takmark. Rekstur félagskerfisins er erfiður og víðast rekinn með halla. Vonandi náum við að snúa vörn í sókn við endurskoðun félagskerfisins.

Elín M. Stefánsdóttirformaður MS tók næst til máls. Framtíðin er þeirra sem trúa á fegurð drauma sinna sagði  Eleanor Roosevelt. Við verðum að trúa á okkar framtíð og vinna samkvæmt því.  Bæði hjá bændum og afurðastöðvum hefur orðið gífurleg hagræðing frá 1990 en á þeim tíma hefur framleiðslan tvöfaldast. Endurskoðun tollasamninga vegna Brexit skiptir miklu máli. Það á ekki að samþykkja frumvarp landbúnaðarráðherra um afnám frystiskyldu án breytinga. Við eigum ekki að vera feimin við að fara fram á stuðning stjórnvalda við landbúnaðinn. Kolefnisfótspor þarf að skoða og er MS að fara yfir alla sína ferla til að minnka plastnotkun sem getur gefið okkur tækifæri til bættrar ímyndar. Mikilvægt er að styðja við frumkvöðla m.a. til að styrkja nýsköpun. Unnið er að þróun á heilsupróteini. Ísey skyr er nú á 17 mörkuðum í öðrum löndum og stendur til að auka það til muna. Þar gefur íslenskt hugvit okkur miklar tekjur.

Jóhanna Hreinsdóttir formaður SAM. Árið 2017 voru 118 milljónir kúabúa í heiminum en meðal bústærð er ekki nema 3.1 kýr. Hér á landi var enn eitt metið sett á síðasta ári þegar innlögð mjólk var yfir 152milljónir lítra. Mikill munur er á framleiðslu fyrri- og seinnipart árs og fer vaxandi, sem er áhyggjuefni. Í Noregi eru álagsgreiðslur eða frádráttur milli mánaða þegar framleiðslan er minnst og mest til að auka hagkvæmnina. Þurfum að efla tengsl við neytendur og vera bjartsýn.
Flutti formaðurinn heillakveðju frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaðarins til fundarins.

Gert var fundarhlé á meðan haldið var fræðaþing nautgriparæktarinnar sem Fagráð í nautgriparækt stóð fyrir.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn.
Ráðherra nefndi fyrst þá samstöðu bænda sem var við atkvæðagreiðslu um kvótakosningu. Unnur Brá Konráðsdóttir mun leiða hóp um endurskoðun búvörusamninga þar sem aukin verðmætasköpun, rannsóknir og þróun, opinber innkaup matvæla með tilliti til kolefnisfótspors eru þættir sem verða uppi á borði. Einnig er unnið að stefnumótun við gerð matvælastefnu fyrir Ísland þar sem umhverfis- og auðlindamál hafa vægi. Stofnuð verði sérstök matvælanefnd í tengslum við gerð matvælastefnunnar.

Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er áhyggjuefni, stofnaður var starfshópur um þá hættu þegar ráðherrann stýrði heilbrigðisráðuneytinu. Unnið er að mörkun opinberrar stefnu um varnir gegn þeirri vá, þar sem heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra eru í samstarfi um.
Umræða um innflutning á ófrystu kjöti á miklum villigötum að mati ráðherra. Unnið er að því að efla matvælaöryggi í tengslum við frumvarpið. Við þær varnir sem voru settar fram hefur verið bætt við þremur þáttum. Í fyrsta lagi að óskað verði eftir viðbótartryggingum um svína og andakjöt. Í öðru lagi að þróun tollverndar verði skoðuð sérstaklega. Í þriðja lagi er ekki til staðar tryggingasjóður vegna tjóns á búfé sem hugsanlega verða af sjúkdómum af völdum innflutnings, sem á að setja á inn í frumvarpið. Í þessu felast miklar úrbætur.
Bændur hafa haft stór orð um ráðherrann vegna fyrrgreinds frumvarp sem byggir oft á misskilningi. Vinna þarf að samstilltu átaki stjórnvalda og bænda um að innlend vara verði fyrsta val við innkaup. Stefnt er að átaki um merkingar matvæla til hagsmuna fyrir framleiðendur og neytendur, og skipaður verði um það starfshópur. Vaxandi kröfur eru um innihald matvæla, en  auðveldara er að fá þær upplýsingar úr nærumhverfinu og rétt að nýta það.

Orðið var gefið laust fyrir spurningar til ráðherra.

Jóhann Nikulásson saknaði úr ræðu ráðherra stefnu ríkisins í búvörusamningum. Í öðru leiti er stefnan ekki skýr. Hornsteinninn fjölskyldubú sem þarf að hlúa að. Hvernig á að útfæra það? Draga þarf úr vægi kvótaeignar á stuðningsgreiðslur.

Samúel U. Eyjólfsson vildi fá upp hjá ráðherra hvort hafið verið gefið leyfi til flutnings kvóta eftir að lokað var á flutning milli bæja.

Jóhanna Hreinsdóttir spurði um hvort lagt verði upp með 12 sporin sem kynnt var með frumvarpinu.
Ráðherra sagðist ekki hafa gefist tími til að skoða niðurstöður starfshóps vegna búvörusamninga. Sagðist virða niðurstöðu og samstöðu í kosningu meðal bænda. Vandasamara að leiða niðurstöðu sem er ekki full sátt um. Ráðherra kvaðst ekki afgreiða kvótaflutninga þegar kom að því að svara spurningu Samúels. Bændur óskuðu eftir að reglur yrðu þrengdar. Í meðferð frystiskyldumálsins komu ekki fram niðurstöður um lagfæringar sem hægt er að nota og taldi ráðherra búið að fara yfir þær breytingar sem til stendur að gera. „Kom í ráðuneytið í vonlausri stöðu en er að reyna að byggja upp varnir, t.d. með aukinni þekkingu og sýnatöku, sem er grunnur að góðum vörnum“ voru lokaorð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ráðherra var þakkað fyrir að mæta á fundinn og óskað velfarnaðar.

 1. Niðurstöður kjörbréfa- og uppstillinganefndar.

Ingvar Björnsson kynnti niðurstöður kjörbréfanefndar. Gild kjörbréf bárust frá öllum félögum og allir löglega mættir og niðurstaðan eftirfarandi:

Mjólkursamlag Kjalarnesþings
Finnur Pétursson, Káranesi

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi
Jóhanna María Sigmundsdóttir, Mið-Görðum
Egill Gunnarsson, Hvanneyri

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Hallur Pálsson, Nausti

Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Jónatan Magnússon, Hóli

Nautgriparæktarfélag V-Hún
Guðrún Eik Skúladóttir, Tannstaðabakka
Valgerður Kristjánsdóttir, Mýrum III

Félag kúabænda í A-Hún
Linda B. Ævarsdóttir, Steinnýjarstöðum
Ingvar Björnsson, Hólabaki

Félag kúabænda í Skagafirði
Davíð Logi Jónsson, Egg
Ingi Björn Árnason, Marbæli
Guðrún K. Eiríksdóttir, Sólheimum

Félag eyfirskra kúabænda
Elín Margrét Stefánsdóttir, Fellshlíð
Vaka Sigurðardóttir, Dagverðareyri
Guðmundur Bjarnason, Svalbarði
Kristín Hermannsdóttir, Merkigili (varamaður)

Félag þingeyskra kúabænda
Friðgeir Sigtryggsson, Breiðamýri
Kjartan Stefánsson, Múla 1

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar
Gauti Halldórsson, Grænalæk

Félag nautgripabænda á Héraði og fjörðum
Björgvin Gunnarsson, Núpi
Jón Elvar Gunnarsson, Breiðavaði

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu
Hjalti Þór Vignisson, Flatey

Félag kúabænda á Suðurlandi
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti
Jóhann Nikulásson, Stóru Hildisey
Arnór Hans Þrándarson, Þrándarholti (varamaður)
Magnús Örn Sigurjónsson, Eystri Pétursey (varamaður)

Fundurinn samþykkti framangreinda fulltrúa.

 1. Nefndarstörf

Fyrir fundinn voru lagaðar tæplega 60 tillögur frá aðildarfélögum og stjórn LK. Starfsnefndir fundarins voru fimm:

Starfsnefnd 1. Formaður Gauti Halldórsson

Starfsnefnd 2. Formaður Jóhanna María Sigmundsdóttir

Starfsnefnd 3. Formaður Samúel Eyjólfsson.

Starfsnefnd 4. Formaður Guðrún Eik Skúladóttir.

Starfsnefnd 5. Formaður Guðmundur S. Bjarnason.

Nefndir störfuðu frá kl 17:20 til 18:30 á föstudag og frá kl. 08:00 á laugardagsmorgni fram til kl. 11:30 og auk þess eftir formannskosningu og fram í hádegið.

 1. Kosning formanns LK

Arnar Árnason tilkynnti að hann gæfi kost á sér til endurkjörs með stuttri tölu.
Jóhann Nikulásson bað um orðið og lét fundarmenn halda í örfá stutt andartök að hann gæfi kost á sér í kosningu formanns, sem kom í ljós að hann gerði ekki.

Ekki bárust önnur framboð. Kosningin var skrifleg og úrslit voru eftirfarandi:

Arnar Árnason                         22 atkvæði

Ásta A. Pétursdóttir                1 atkvæði

Herdís M Gunnarsdóttir         1 atkvæði

Elín M Stefánsdóttir                1 atkvæði

Auðir seðlar                            3 atkvæði

Gert var hlé til áframhaldandi nefndastarfa og matarhlés. Rétt að taka fram að maturinn var afar góður.

Fundur var settur aftur kl. 13.20

Kosningum fram haldið

Ingvar Björnsson formaður kjörbréfa- og uppstillinganefndar kynnti niðurstöðu nefndarinnar vegna kjörs til stjórnar LK.

Pétur Diðriksson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson gefa kost á sér áfram og auk þess Jónatan Magnússon.

Frambjóðendur kynntu sig síðan með nokkrum orðum.

Gengið var til skriflegra kosninga, atkvæði féllu þannig:

Rafn Bergsson                           27 atkvæði

Bessi Freyr Vésteinsson           26 atkvæði

Herdís Magna Gunnarsdóttir 26 atkvæði

Jónatan Magnússon                 24 atkvæði

Eru þau því réttkjörin sem aðalmenn í stjórn LK næsta starfsár.

Ingvar Björnsson tilkynnti tillögu uppstillinganefndar til varastjórnar, þær Borghildi Kristinsdóttur og Lindu Björk Ævarsdóttur, sem sögðu nokkur orð til kynningar.

Fengu þær báðar 22 atkvæði og var dregið um hvor þeirra yrði 1. varamaður sem er Linda Björk.

Kosning til búnaðarþings (formaður er sjálfkjörinn). Tillaga uppstillinganefndar er eftirfarandi:

Bessi Freyr Vésteinsson, Rafn Bergsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Jónatan Magnússon. Ekki komu fram fleiri tillögur og var tillagan samþykkt samhljóða.

Varamenn. Uppstillingarnefnd lagði fram tillögu um varamenn til setu á Búnaðarþingi:
1. varamaður Linda Björk Ævarsdóttir
2. varamaður Borghildur Kristinsdóttir
3. varamaður Magnús Örn Sigurjónsson
4. varamaður Friðgeir Sigtryggsson
5. varamaður Davíð Logi Jónsson

Ekki komu fram aðrar tillögur og var tillagan samþykkt samhljóða.

Skoðunarmenn reikninga verði Guðmundur Bjarnason og Aðalsteinn Hallgrímsson og Kristín S. Hermannsdóttir til vara. Samþykkt samhljóða.

 1. Afgreiðsla tillagna

Frá starfsnefnd 1. Gauti Halldórsson formaður nefndarinnar kynnti tilllögurnar.

Tillaga 1.1. Tekjuskattur

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 skorar á Alþingi að afgreiða lagafrumvarp til breytinga á tekjuskatti, 18. mál á 149. löggjafarþingi.

Greinargerð: Í frumvarpinu felst að ef seljandi bújarðar/fyrirtækis gefur út skuldabréf fyrir hluta af kaupverðinu greiðir hann skatt af söluhagnaði jafnóðum eftir því sem greitt er af bréfinu. Samkvæmt frumvarpinu má þetta vera til allt að 20 ára. Þetta gæti liðkað verulega fyrir kynslóðaskiptum, án þess að kosta ríkissjóð neitt.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 1.2. Launamál stjórnar

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggur til að laun stjórnar haldist óbreytt milli ára í krónutölu.
Til máls tóku Jóhann Nikulásson sem taldi varhugavert að laun tækju ekki verðlagsbreytingum, og Arnar Árnason sem útskýrði að vegna hallareksturs LK hefði stjórn lagt fram tillögu þess efnis að laun yrðu óbreytt að þessu sinni.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 1.3. Þóknun aðalfundarfulltrúa

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggur til að þóknun verði óbreytt milli ára og greiddir dagpeningar verði í samræmi við ríkistaxta.

Til máls tók Samúel Eyjólfsson sem spurði um akstursgreiðslur en þær lækkuðu úr 110 kr/km í 100 kr/km á aðalfundi LK 2018.

Tillagan síðan samþykkt með þorra atkvæða.

Tillaga 1.4. Félagsgjöld LK

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggur til að félagsgjald í mjólk fari úr 0,30 krónum í 0,32 krónur og verði áfram óbreytt eða 500 kr. á sláturgrip.

Greinargerð:  Fyrir meðalbúið (270.000 L) þýðir þetta að greiðslan fer úr 81.000 kr. í 86.400 kr. fyrir mjólkurhlutann. Þetta þýðir í auknar tekjur að upphæð ca. 2.000.000 kr. fyrir LK miðað við framleiðsluspá.

Til máls tóku Jóhann Nikulásson og formaður nefndarinnar.

Jóhann lagði fram breytingartillögu þess efnis að félagsgjaldið verði hækkað í 0,33 á mjólk og 550 kr á sláturgrip. Tillagan er því svohljóðandi:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggur til að félagsgjald í mjólk fari úr 0,3 krónum í 0,33 krónur og 550 kr. á sláturgrip.

Greinargerð:  Fyrir meðalbúið (270.000 L) þýðir þetta að greiðslan fer úr 81.000 kr. í 89.100 kr. fyrir mjólkurhlutann. Þetta þýðir í auknar tekjur að upphæð ca. 3.100.000 kr. fyrir LK miðað við framleiðsluspá.

Tillagan samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Tillaga 1.5. Söfnun hagtalna í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019  beinir því til stjórnar LK að ganga nú þegar til samninga við RML um samantekt og aðgengi gagna er varða rekstur og afkomu kúabúa.

Greinargerð: Upplýsingar um hagrænar tölur í mjólkurframleiðslu hafa verið óaðgengilegar um árabil. Slíkt er óviðunandi. Mikilvægt er að fá þessar upplýsingar frá árinu 2000 til dagsins í dag, þar sem þær tölur liggja ekki fyrir. Þörf er á að bera saman þróun í vísitölu neysluverð, lánskjaravísitölu og byggingarvísitölu á þessum tíma. Jafnframt að bera saman heildargreiðslur per líter á hverjum tíma þ.e. afurðarstöðvarverð + bein greiðslur og útreiknaðan verðlagsgrundvöll. Starfsmenn RML eru með umsjón og leiðbeiningar við bændabókhaldið, aðgangur þeirra að bókhaldsgögnum er góður og því eðlilegt að þetta starf fari fram af þeirra hálfu.

Finnur Pétursson í Káranesi lagði fram breytingartillögu sem felld var með þorra atkvæða.
Tillagan borin upp eins og hún kom frá nefndinni og samþykkt samhljóða.

Tillaga 1.6. Sæðingagjöld

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 beinir því til stjórna LK og BÍ að leita allra leiða til að jafna kostnað bænda við kúasæðingar um allt land sem taka að fullu þátt í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar, t.d með einhvers konar jöfnunarsjóði

Greinagerð: Ekki er ásættanlegt að margfaldur munur sé á kostnaði bænda við kúasæðingar eftir búsetu þar sem framlag til ræktunarstarfsins er óháð búsetu. Munurinn getur verið fimm til áttfaldur á milli svæða.

Til máls tók Jóhann Nikulásson og lagði fram breytingartillögu. Hallur Pálsson, Ingi Björn Árnason, Jón Elvar Gunnarsson og Samúel U. Eyjólfsson ræddu einnig tillöguna og lagði Samúel fram frávísunartillögu sem var felld.

Breytingartillaga Jóhanns er svohljóðandi:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 beinir því til stjórna LK og BÍ að leita allra leiða til að jafna kostnað bænda við kúasæðingar um allt land sem taka að fullu þátt í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar.

Breytingartillagan samþykkt með þorra atkvæða.

Tillaga 1.7. Heimavinnsla afurða

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 beinir því til stjórnar BÍ að skilgreina heimavinnslu afurða.

Borið var undir fundinn hvort taka skyldi tillöguna til afgreiðslu þar sem hún var ekki í fundargögnum sem fulltrúar fengu fyrir fundinn, sem var samþykkt.

Jóhanna María Sigmundsdóttir tók til máls og tillagan síðan samþykkt samhljóða.

Formaður nefndarinnar Gauti Halldórsson nefndi að lokum að tvær tillögur sem lagðar voru fyrir nefndina til umfjöllunar hafi verið vísað frá. 

Frá starfsnefnd 2. Formaður nefndarinnar Jóhanna María Sigmundsdóttir kynnti tillögurnar.

Tillaga 2.1. Afnám takmarkana á innflutningi ferskra dýraafurða

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019, leggst gegn því að frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru verði samþykkt. Beinir fundurinn því til stjórnvalda að leitast eftir frekari samningafundum við Evrópusambandið á pólitískum vettvangi, á grundvelli sérstöðu landsins þegar kemur að heilbrigði búfjárstofna og fátíðni matarsýkinga, sem og bjóða samningsaðilum til Íslands svo þeir geti kynnst aðstæðum frá fyrstu hendi.

Greinargerð: Hafa rök íslenskra stjórnvalda fyrir áskilnaði um frystingu á innfluttu hráu kjöti í tiltekinn tíma og leyfiskerfi verið sú að unnt væri að hindra eða draga úr því að ýmsir sjúkdómar, sem hefðu skaðleg áhrif á heilsu manna og dýra á Íslandi, bærust til landsins. Voru þetta m.a. þau rök sem lögð voru fram fyrir hönd Íslands við meðferð málsins hjá EFTA-dómstólnum.

Helstu tveir kostir frystiskyldu á hráu kjöti eru þeir að hún annars vegar veitir okkur 30 daga biðtíma sem getur veitt okkur ómetanlega vörn gegn því að sjúkdómar eða sýkt kjöt berist til landsins og hins vegar að frysting drepur yfir 90% af kampýlóbakter, sem er algengasti valdur matarsýkinga í Evrópusambandinu, sem hefur ekki talið það „efnahagslega gerlegt“ að taka á vandanum á sama hátt og hér er gert þrátt fyrir að kostnaðurinn fyrir heilbrigðiskerfið og vegna vinnutaps innan ESB sé metinn á 2,4 milljarða evra á hverju ári.

Fátíðni búfjársjúkdóma á Íslandi er einstakur árangur sem mögulega verður kastað á glæ. Komi sýkt kjöt hingað til lands eru búfjárstofnar okkar mun viðkvæmari sökum mikillar einangrunar allt frá landnámi. Því gæti skaðinn orðið óafturkræfur.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.2. Bætt samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019, beinir því til stjórnvalda að bæta samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar með eftirfarandi hætti:

Magntollar á búvörur verði uppreiknaðir til verðlags dagsins í dag og leitað verði allra leiða til að nýta heimildir til að leggja tolla á innfluttar búvörur sem einnig eru framleiddar hér á landi.

Upplýsingar um uppruna matvara séu ávallt auðsjáanlegar fyrir neytendur hvort sem er í verslunum, mötuneytum eða veitingastöðum.

Upplýsingar um lyfjanotkun við framleiðslu kjöts verði ávallt auðsjáanlegar fyrir neytendur, hvort sem um er að ræða sýklalyf eða vaxtahvetjandi hormón.

Innfluttar landbúnaðarafurðir uppfylli sömu eða sambærilegar kröfur og gilda við framleiðslu hér á landi og eftirlit sé samkvæmt því.

Greinargerð: Ísland er strjálbýlt land og fámennt. Markaðurinn er lítill og með síauknum milliríkjaviðskiptum er íslenskur landbúnaður kominn í samkeppni við stórfyrirtæki á margfalt stærri mörkuðum. Mikið hefur kvarnast úr tollvernd landbúnaðarvara undanfarin ár og þegar gengi krónunnar er sterkt hefur tollvernd lítið að segja, þ.e. hagstætt að flytja inn landbúnaðarvörur á fullum tollum.

Skýrar og áberandi merkingar matvæla eru sjálfsögð krafa fyrir neytendur og framleiðendur. Með auknum innflutningi er mikilvægt að upplýsingar á umbúðum matvæla séu skýrar og auðsjáanlegar, sem og að krafa um slíkt gildi á veitingahúsum og í mötuneytum. Án merkinga sem snúa m.a. að ferli vörunnar (merkingar á kjötafurðum um hvar dýrið er alið, slátrað og vara unnin), lyfjanotkun og framleiðsluháttum, er ógerlegt fyrir neytendur að taka sannarlega upplýst val.

Eðlilegt er að sömu kröfur gildi um innfluttar landbúnaðarafurðir og gilda um innlenda framleiðslu. Ísland býr við mikla sérstöðu m.a. hvað varðar lyfjanotkun í landbúnaði og er eðlileg krafa að sú samkeppni sem íslenskum bændum er gert að taka þátt í sé á jafnréttisgrunni.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.3. Tollvernd

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019, beinir því til stjórnvalda að yfirfara og leiðrétta tolla á landbúnaðarvörum með það að markmiði að gæta að samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar. Þá leggur fundurinn áherslu á að öllum innflutningi sé beint í umsamda tollkvóta í stað opinna tollkvóta.

Greinagerð: Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg aukning í innflutningi á landbúnaðarvörum til Íslands. Með tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og mögulegu afnámi frystiskyldu á hráu kjöti má ætla að innflutningur aukist áfram. Framleiðsluskilyrði hér á landi eru allt önnur en þeirrar búvöru sem flutt er inn, þegar horft er til stærðar framleiðslunnar og kostnaðar við aðföng og laun.  Mikið hefur kvarnast úr tollvernd landbúnaðarvara undanfarin ár og þegar gengi krónunnar er sterkt hefur tollvernd lítið að segja, þ.e. hagstætt að flytja inn nautakjöt á fullum tollum.

Vert er að hafa í huga að þegar litið er til undanfarinna 4 ára er ljóst að verð á nautakjöti út úr búð hefur hækkað umfram vísitölu neysluverðs, sem er þvert á fullyrðingar um að aukinn innflutningur og afnám tolla leiði til lægra vöruverðs til neytenda. Á sama tíma hefur verð til íslenskra bænda lækkað.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.4. Sameining Búnaðarstofu við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019, leggur þunga áherslu á að sjálfstæði Búnaðarstofu sé tryggt við tilfærslu stofnunarinnar frá Matvælastofnun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Greinargerð: Mikilvægt er að verkefni Búnaðarstofu séu skýrt afmörkuð í sjálfstæðri einingu enda geta komið upp tilvik þar sem ágreiningur ríkir um framkvæmd styrkveitinga og aðrar afgreiðslur mála. Því er nauðsynlegt að bændur hafi það úrræði áfram að geta vísað niðurstöðu Búnaðarstofu til ráðuneytis og fengið úr lögmæti afgreiðslunnar skorið frá æðra yfirvaldi.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.5. Matvælasjóður

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. Mars 2019,  leggst gegn hugmyndum um sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi undir hatti matvælasjóðs.

Greinargerð: Í greinargerð lagafrumvarps um afnám frystiskyldu kemur fram að unnið sé að sameiningu m.a. Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi með það að markmiði að koma á fót einum öflugum matvælasjóði sem styður betur við nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu. Framleiðnisjóður hefur mikilvægu hlutverki að gegna í byggðalegu samhengi, sérstaklega í tengslum við styrkveitingar til nýsköpunarverkefna á vegum bænda. Styður sjóðurinn ýmis viðfangsefni önnur en þau er lúta beint að matvælaframleiðslu, t.a.m. uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli, námsstyrki til mastersnema á sviði landbúnaðar, skógræktar- og landgræðsluverkefni og mikilvæg framfaraverkefni á ýmsum sviðum landbúnaðar, sem ekki koma öll matvælaframleiðslu beint við.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.6. Upprunamerkingar matvæla

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019, leggur áherslu á að skylt verði að upprunamerkja öll matvæli þ.á.m. mjólkurvörum á íslenskum markaði með áberandi hætti.

Til máls tók Samúel U. Eyjólfsson (bætti við þ.á.m. mjólkurvörum)

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.7. Endurskoðun tollasamnings við ESB

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019, beinir því til stjórnvalda að endurskoða samning við ESB um tolla og tollfrjálsa kvóta fyrir búvörur frá 17. september 2015. Í ljósi útgöngu Bretlands úr ESB hefur orðið forsendubrestur fyrir samninginum.

Til máls um tillöguna tóku Egill Gunnarsson, Margrét Gísladóttir, Ingi Björn Árnason, Jóhann Nikulásson og Arnar Árnason.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.8. Skipan í stjórn RML        

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019, beinir því til Bændasamtaka Íslands að samtökin tryggi að nautgriparæktin eigi ávallt öflugan málsvara í stjórn RML.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.9. Viðurlög við markaðssetningu umframmjólkur

Aðalfundur Landssambands kúabænda 22-23. mars 2019, beinir því til stjórnar LK að beita sér fyrir því að sett verði viðurlög við því að markaðssetja umframmjólk innanlands.

Greinagerð: Í ljósi niðurstöðu kosninga um kvótakerfi í mjólk og til að kvótakerfið haldi þarf að koma í veg fyrir að umframmjólk framleiðenda fari á innanlandsmarkað.

Til máls tók Egill Gunnarsson og lagði fram frávísunartillögu sem var felld með þorra atkvæða. Jóhann Nikulásson sagði grundvöll þess að kvótakerfið sé nothæft að hægt verði að grípa inn í ef umframmjólk fer á innanlandsmarkað, en óttaðist að erfitt verði að fá löggjafann til að samþykkja slík viðurlög.

Tillagan síðan samþykkt með þorra atkvæða.

Formaður nefndarinnar sagði eina tillögu ekki koma frá nefndinni.

Frá starfsnefnd 3. Formaður nefndarinnar Samúel U Eyjólfsson kynnti tillögurnar.

Tillaga3.1. Hámark á greiðslumarkseign

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 samþykkir að hámark skuli sett á það hlutfall heildargreiðslumarks sem hver framleiðandi getur verið handhafi að hverju sinni. Skal hlutfallið miðað við 0,9% af heildargreiðslumarki hvers árs.

Greinargerð: Í stefnumótun samtakanna til ársins 2028 er eitt meginmarkmiðanna að fjölskyldubúið verði algengasta fyrirkomulag kúabúskapar en þó að fjölbreytileiki haldist í dreifingu, stærð og rekstrarformi búa. Í dag birtist ákveðin stefna varðandi bústærðarmörk kúabúa einkum með tvennum hætti í búvörusamningum; annars vegar með aukningu gripagreiðslna frá því sem áður var og skerðingu þeirra eftir fjölgun gripa og hins vegar að hver framleiðandi getur ekki fengið framlög sem nema hærra hlutfalli en 0,7% af árlegum heildarframlögum samningsins. Með hámarki á því hlutfalli af heildargreiðslumarki sem hver framleiðandi getur átt er spornað gegn fækkun og samþjöppun búa. Hæsta hlutfall einstaka framleiðanda af heildargreiðslumarki ársins 2019 er 0,82%.

Til máls tók Jóhann Nikulásson sem lagði fram breytingatillögu þess efnis að greinargerð tillögunar yrði felld út. Breytingartillagan var felld.

Hjalti Þór Vignisson ræddi um uppbyggingu kúabúsins á Flatey og mikilvægi þess fyrir samfélagið auk þeirra áhrifa sem samþykkt tillögunnar koma til með að hafa á uppbyggingu búsins. Lagði fram breytingartillögu um að hámark greiðslumarkseignar verði 1,2%, Finnur Pétursson, Arnar Árnason, Elín M Stefánsdóttir tóku einnig til máls.

Jóhann Nikulásson flutti breytingartillögu um að hámark greiðslumarkseignar í verði 1,5%. Breytingartillaga Jóhanns var felld.

Þá flutti Samúel tillögu um að hámark greiðslumarkseignar yrði 1,2% sem var samþykkt af fundinum með 13 atkvæðum gegn 7.

Tillagan bori upp með áorðnum breytingum og er svohljóðandi:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 samþykkir að hámark skuli sett á það hlutfall heildargreiðslumarks sem hver framleiðandi getur verið handhafi að hverju sinni. Skal hlutfallið miðað við 1,2% af heildargreiðslumarki hvers árs.

Greinargerð: Í stefnumótun samtakanna til ársins 2028 er eitt meginmarkmiðanna að fjölskyldubúið verði algengasta fyrirkomulag kúabúskapar en þó að fjölbreytileiki haldist í dreifingu, stærð og rekstrarformi búa. Í dag birtist ákveðin stefna varðandi bústærðarmörk kúabúa einkum með tvennum hætti í búvörusamningum; annars vegar með aukningu gripagreiðslna frá því sem áður var og skerðingu þeirra eftir fjölgun gripa og hins vegar að hver framleiðandi getur ekki fengið framlög sem nema hærra hlutfalli en 0,7% af árlegum heildarframlögum samningsins. Með hámarki á því hlutfalli af heildargreiðslumarki sem hver framleiðandi getur átt er spornað gegn fækkun og samþjöppun búa. Hæsta hlutfall einstaka framleiðanda af heildargreiðslumarki ársins 2019 er 0,82%.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.2. Verðlagning mjólkur

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019, minnir á ályktun aðalfundar 2018 varðandi verðlagningu á mjólkurvörum (virkjun 12. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar). Skorar fundurinn á ráðherra landbúnaðarmála að ljúka útfærslu tekjumarkaleiðar og setja fram við endurskoðun búvörusamninga árið 2023.

Greinargerð: Tillaga samráðshópsins er að næstu fjögur ár verði nýtt til aðlögunnar að þessu nýja fyrirkomulagi og Verðlagsnefnd starfi þann tíma og ákveði verð til bænda, á hrámjólk til viðskipta milli vinnslustöðva sem og mjólkurdufti og smjöri til iðnaðar. Verðlagsnefnd hafi eftirlit með þeim samningum. Verðákvörðun á heildsölustigi fyrir aðrar vörur verði aflögð. Breytt fyrirkomulag verðlagningar mjólkur, tekjumarkaleiðin, gæti verið mikilvægt tæki í starfsumhverfi greinarinnar til að takast á við ójafnvægi í sölu efnaþátta mjólkur og stóraukna samkeppni á mjólkurmarkaði.

Til máls tóku Samúel U. Eyjólfsson og Jóhann Nikulásson sem lagði til að greinargerð sem send var með fundargögnum yrði notuð.

Breytingartillagan féll á jöfnu 8 gegn 8.

Tillagan síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.3. Verðlagsnefnd

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019hvetur verðlagsnefnd til þess að starfa samkvæmt lögum um verðlagsnefnd.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.4. Kvótamarkaður

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 beinir því til samninganefndar bænda við endurskoðun búvörusamninga að viðskipti með greiðslumark skuli eiga sér stað í gegnum miðlægan markað í umsjón opinbers aðila. Skal markaðurinn byggjast upp á jafnvægisverði en þó að hámarki sem nemur tvöföldu lágmarks afurðastöðvarverði innan greiðslumarks. Hver aðili getur einungis boðið í 150.000 ltr á ári. Nýliðar fái forgang á 25% við viðskipti með greiðslumark.

Greinargerð: Á aðalfundi Landssambands kúabænda 2018 var samþykkt ályktun um að „hámark skuli sett á verð greiðslumarks og viðskipti með greiðslumark skuli fara fram í gegnum opinberan aðila.”

Hjalti Þór Vignisson spurði hver rök væru fyrir lítra magninu í tillögunni, Hallur Pálsson taldi hámarksverð þyrfti að vera hærra.  Björgvin á Núpi hvatti fundarmenn að samþykkja tillöguna, Samúel U. Eyjólfsson skýrði rök fyrir tillögunni, Jóhann Nikulásson nefndi að ef miklar greiðslur verði á A-greiðslur verði markaðurinn frosinn.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.5. Notkun jurtafitu til framleiðslu kálfafóðurs

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 beinir því til mjólkuriðnaðarins að kappkosta að notast eins og kostur er við innlent hráefni í kálfafóður.

Jóhann Nikulásson óskaði eftir skýringum á hvers vegna nefndin hefði ekki notað upphaflegu tillöguna. Elín M. Stefánsdóttir skýrði hvers vegna iðnaðurinn væri að gera tilraunir með að nota jurtafitu sem er m.a. til að minnka efnahallann.  Finnur Pétursson benti á að hluti bænda kaupi innflutt kálfafóður. Guðrún K. Eiríksdóttir hvatti til þess að upphaflega tillagan yrði notuð og lagði fram breytingartillögu. Jóhann sagðist hugsi yfir því ef iðnaðurinn noti innflutta jurtafitu frekar en innlenda. Arnar Árnason sagði að við samþykkt tillögunnar væru kúabændur að benda vinnslunni  á að nota innlenda framleiðslu. Samúel útskýrði ástæður þess að tillögunni var breytt.

Tillagan borin upp með breytingum:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggst eindregið gegn þeim áformum mjólkuriðnaðarins að hætta að nota einvörðungu innlent grunnhráefni til framleiðslu á kálfafóðri. Að mati fundarins ættu slík hráefni í íslensku kálfafóðri, þ.e. fita og protein, ætíð að koma úr innlendri mjólk.

Tillagan samþykkt.

Tillaga 3.6. Framleiðsluskylda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggur til að framleiðsluskylda verði 100 %.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.7. Vannýtt greiðslumark

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 ályktar að til þess að greiðslumark sé virkt skuli beita þeim úrræðum að ef greiðslumarkshafi fullnýti ekki greiðslumark sitt í 3 ár samfleytt, verði greiðslumarkshafi að bjóða til sölu á 1. markað 4. árs það sem aldrei hefur verið nýtt á sl. 3 árum, að öðrum kosti verði greiðslumarkið innleyst án endurgjalds og ágóði af sölunni renni óskipt í þróunarfé greinarinnar.

Samþykkt með þorra atkvæða.

Tillaga um svæðisbundinn kvótamarkað kom ekki úr nefnd.

Frá starfsnefnd 4. Formaður nefndarinnar Guðrún Eik Skúladóttir kynnti tillögurnar.

Tillaga 4.1. Efling markaðsstarfs fyrir íslenskt nautakjöt

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 beinir því til stjórnar LK að ráðast í átak í markaðsfærslu nautakjöts hérlendis. Greina þarf markaðinn í samstarfi við afurðastöðvar og gera viðeigandi ráðstafanir til að þörfum markaðarins sé mætt að mestu með íslensku kjöti.

Greinargerð: Í stefnumótun samtakanna til ársins 2028 er eitt meginmarkmiðanna að greinin sé arðbær, samkeppnishæf og tryggi neytendum aðgengi að fjölbreyttu úrvali af gæðavöru, framleiddri á Íslandi. Árið 2018 var 22% þess nautakjöts sem neytt var hérlendis innflutt. Á sama tíma eru ósjaldan biðlistar í slátrun fyrir nautgripi og „birgðir” safnast upp hjá bændum. Sláturhlutfall nautkálfa er 8% árið 2018. Á því er ljóst að framleiðslugeta bænda er meiri en framleiðslutölur gefa merki um. Því á að vera hægt að auka markaðshlutdeild íslensks nautakjöts með samstilltu átaki þar um.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.2. Stefna afurðastöðva varðandi innflutning landbúnaðarafurða

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 beinir því til afurðastöðva í eigu bænda að setja sér stefnu um innflutning matvæla sem eru í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu og að sú stefna sé gerð aðgengileg á opinberum vettvangi.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.3. Aukin hagsmunagæsla

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 beinir því til Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands að beita sér af auknum þunga í hagsmunamálum bænda. Forsvarsmenn bændastéttarinnar verði meira áberandi í opinni umræðu og beiti sér gegn áróðri í garð bænda.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.4. Fræðsla til nautakjötsframleiðenda

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019, skorar á stjórn LK að beita sér fyrir aukinni fræðslu og ráðgjöf til nautakjötsframleiðenda um fóðrun og aðbúnað gripa.

Greinargerð: Mikil aukning hefur orðið á innflutningi nautgripakjöts á liðnum árum. Helsta vopn íslenskra bænda í þessari samkeppni er án efa að auka gæði íslensku framleiðslunnar en hana má vafalítið bæta með aukinni þekkingu, bættri fóðrun og aðbúnaði gripa.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.5. Örsláturhús

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 beinir því til Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands að beita sér af krafti fyrir því að sótt verði um undanþágu frá reglugerð um framleiðslu matvæla til að unnt verði að reka viðurkennd örsláturhús heima á lögbýlum. Reglurnar verði í samræmi við tillögur þær sem Matís sendi frá sér siðastliðið haust.

Greinargerð: Síðastliðið haust sendi Matis frá sér hugmynd að reglum um starfsemi örsláturhúsa líkt og heimilt er að starfrækja í mörgum löndum í Evrópu á grundvelli áhættumats sem búið er að framkvæma í hverju landi fyrir sig. Tilkoma örslaturhúsa getur ýtt undir jákvæða þróun á sölu matvæla beint fra býli.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.6. Álagsgreiðslur á nautakjöt

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 beinir því til stjórnar LK að leita leiða til að koma í veg fyrir að biðlistar myndist í sláturhúsum, sem virðist gerast á hverju hausti. Jafnframt skuli ráðist í að greina þarfir markaðarins og tryggja að að eftirspurn sé svarað á hverjum tíma innan ársins, t.d. yfir sumarmánuðina þegar sala er mest. Til að mynda væri hægt að færa stuðningsgreiðslur á ákveðna mánuði og hvetja sláturleyfishafa til að hækka verð þegar eftirspurn er mikil.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.7. Minni plastnotkun í landbúnaði

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 leggur til að sett verði upp áætlun til að minnka plastnotkun í landbúnaði. Tryggt verði að það plast sem notað er sé endurvinnanlegt og stuðlað að því að það skili sér til endurvinnslu. Jafnframt skuli samtökin beita sér fyrir því að komið verði af stað verkefni í samstarfi við ráðgefandi aðila sem feli í sér að finna aðferðir til geymslu gróffóðurs sem geti komið í stað plastnotkunar í landbúnaði.

Greinargerð: Umræðan um plastnotkun hefur verið fyrirferðar mikil undanfarið. Mikilvægt er fyrir landbúnaðinn að dregið sé úr plastnotkun eins og mögulegt er.

Ingvar Björnsson benti á að BÍ er að vinna að áætlun og greiningu á minni plastnotkun.
Tillagan síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.8. Kolefnisbinding landbúnaðarins

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 ályktar að fjármagn sem ætlað er til kolefnisbindingar í landbúnaði á næstu árum verði fundinn farvegur til útdeilingar í rammasamningi um landbúnað.

Greinargerð: Í fjármálaáætlun 2019-2023 er búið að tryggja 6,8 milljarða til aðgerða í loftslagsmálum. Meðal annars til átaks í kolefnisbindingu. Þar hefur landbúnaðurinn stórt hlutverk í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Skilvirkasta meðferð fjármuna til þessara verkefna er að finna þeim farveg í gegnum rammasamning um landbúnað.

Finnur Pétursson ræddi um nauðsyn á nýtingu metans og fleiri umhverfitengda þætti.
Ingvar Björnsson velti upp hvort rétt sé að sækja fjármagn á þann hátt sem hér er stefnt að.  það geti haft neikvæðar áhrif á annað fjármagn.

Tillagan samþykkt með þorra greiddra atkvæða.

Tillaga 4.9. Endurgerð jarðræktarforritsins JÖRÐ

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 2019 hvetur Bændasamtökin til að flýta nauðsynlegri endurgerð á jarðræktarforritinu JÖRÐ.

Samúel hvatti til að áburðarsalar verði fengnir til að fjármagna endurgerð forritsins.
Tillagan samþykkt samhljóða.

Frá Starfsnefnd 5. Guðmundur S. Bjarnason talaði fyrir tillögum nefndarinnar.

Tillaga 5.1. Opinber stuðningur í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars 2019 samþykkir að opinber stuðningur í nautgriparækt skiptist með eftirfarandi hætti:

 • Greiðslur út á greiðslumark 3. grein               verði 40 %
 • Greiðslur út á innvegna mjólk 4. grein           verði 28 %
 • Gripagreiðslur – mjólkurkýr                            verði í 20 %
 • Lagt er til að stuðningur við nautakjötsframleiðslu verði aukinn.

Greinargerð: Í ljósi afgerandi niðurstöðu atkvæðagreiðslu mjólkurframleiðenda um að halda eigi í kvótakerfi  í mjólkurframleiðslu skal hlutfall opinberra greiðslna út á greiðslumark hækkað frá því sem nú er á kostnað 4. greinar samningsins, greiðslur út á innvegna mjólk. Mikilvægt er að líta til aukins stuðnings við minni bú í mjólkurframleiðslu, í samræmi við meginmarkmið stefnumótunar LK 2018-2028 og í þeim tilgangi verði fjármagn fært af greiðslum út á innvegna mjólk og yfir á gripagreiðslur fyrir mjólkurkýr. Með þeim hætti rennur opinber stuðningur í hlutfallslega meiri mæli til minni búa og opinber stuðningur út á mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks lækkar.

Guðrún Eik Skúladóttir sagðist hlynntari að hafa skiptinguna óbreytta eins og hún var lögð fyrir fundinn af stjórn LK.

Egill Gunnarsson tók undir með Guðrúnu.

Arnar Árnason mælti með að tillagan sem nefndin leggur fyrir fundinn verði samþykkt og sagði hana vera með hliðsjón af skoðanakönnun sem stæði yfir meðal bænda og á fundinum.
Björgvin Gunnarsson mælti með tillögunni og hvatti til að fulltrúar hefðu hag greinarinnar í huga frekar en sinn eigin.
Rafn Bergsson sagðist hlynntari óbreyttum hlutföllum stuðnings.
Bessi Freyr fagnaði að í tillögunni væri aukinn stuðningur við nautakjöt.
Ingi Björn Árnason taldi að ekki eigi að gefa á okkur höggstað með því að hafa stuðningsgreiðslur á alla mjólk og þá á útflutning að einhverju leiti.
Jóhann Nikulásson sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með tillöguna. Of mikið væri greitt út á greiðslumarkseign sem verði til þess að kvótaviðskipti verði frosin. Jóhann lagði fram breytingatillögu og óskaði eftir að viðhaft yrði nafnakall við afgreiðslu hennar.
Björgvin lýsti óánægju með tillögu Jóhanns og taldi hana fráleita og var óánægður með það ofbeldi sem flutningsmaður sýndi með því að leggja hana fram.
Ingi Björn Árnason sagði málið stýrast af niðurstöðu kvótakosningar og ætti að samþykkja tillögu nefndarinnar.
Valgerður á Mýrum hvatti til að upphaflega tillagan yrði samþykkt.
Egill Gunnarsson fagnaði tillögu Jóhanns og að hún væri lausnamiðuð.
Gauti Halldórsson sagði tillögu Jóhanns líklegri til að greinin þróist á jákvæðan hátt.
Friðgeir Sigtryggsson taldi rétt að samþykkja tillögu nefndarinnar.
Herdís Magna leggur áherslu á að upphaflega tillagan sé betri og virðingarleysi eftir kvótaatkvæðagreiðslu að leggja fram þær breytingar sem á að greiða atkvæði um.
Arnór Hans Þrándarson vildi að tillaga stjórnar yrði valin.
Fram fór nafnakall um breytingartillögu Jóhanns:

Finnur Pétursson segir                                    nei
Jóhanna María Sigmundsdóttir segir          nei
Egill Gunnarsson segir                                    já
Hallur Pálsson segir                                         nei
Jónatan Magnússon segir                               nei
Guðrún Eik Skúladóttir                                    situr hjá
Valgerður Kristjánsdóttir segir                        nei
Linda B. Ævarsdóttir segir                               nei
Ingvar Björnsson Hólabaki segir                     nei
Davíð Logi Jónsson segir                                 nei
Ingi Björn Árnason segir                                 nei
Guðrún K. Eiríksdóttir segir                            nei
Elín Margrét Stefánsdóttir segir                     nei
Vaka Sigurðardóttir segir                                nei
Guðmundur Bjarnason segir                           nei
Kristín Hermannsdóttir segir                          nei
Friðgeir Sigtryggsson segir                              nei
Kjartan Stefánsson segir                                 nei
Gauti Halldórsson segir                                   já

Björgvin Gunnarsson  segir                             nei
Jón Elvar Gunnarsson                         (fulltrúinn farinn af fundi)
Hjalti Þór Vignisson                                         (fulltrúinn farinn af fundi)
Borghildur Kristinsdóttir segir                        já
Rafn Bergsson                                                 situr hjá
Samúel U. Eyjólfsson segir                              nei
Jóhann Nikulásson segir                                 já
Arnór Hans Þrándarson segir              já
Magnús Örn Sigurjónsson segir                      já

Tillagan var felld með 18 atkvæðum gegn 6.

Upphaflega tillaga málsins sem lögð var fyrir fundinn af stjórn LK var tekin til umræðu.
Bessi Freyr Vésteinsson lagði til breytingartillögu um að ákvæði um stuðning við nautakjöt yrði bætt við umrædda tillögu.

Ingvar Björnsson vildi að tillaga stjórnar yrði samþykkt og tekin yrði umræða um hugmyndafræði greinarinnar.
Tekin var til atkvæðagreiðslu breytingartillaga Bessa um að inn í tillögu stjórnar komi „ Lagt er til að stuðningur við nautakjötsframleiðslu verði aukinn”.

Breytingartillagan samþykkt.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22. – 23. mars samþykkir að opinber stuðningur í nautgriparækt skiptist með eftirfarandi hætti:

 • Hlutfall heildarstuðnings sem greiddur er á mjólk innan greiðslumarks helst óbreytt frá árinu 2019 eða í 30% út samningstímabilið.
 • Hlutfallslegur stuðningur á alla innvegna mjólk lækkar og færast fjármunir yfir á gripagreiðslur.
 • Greiðslur út á aðra liði samnings haldast óbreyttar.
 • Lagt er til að stuðningur við nautakjötsframleiðslu verði aukinn.

Greinargerð:
Í ljósi afgerandi niðurstöðu atkvæðagreiðslu mjólkurframleiðenda um að halda eigi í kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skal hlutfall opinberra greiðslna út á greiðslumark ekki skerðast frá því sem nú er og haldast óbreytt út samningstímann eða í 30% af heildarstuðningi við nautgriparækt. Mikilvægt er að líta til aukins stuðnings við minni bú í mjólkurframleiðslu, í samræmi við meginmarkmið stefnumótunar LK 2018-2028 og í þeim tilgangi verði fjármagn fært af greiðslum út á innvegna mjólk og yfir á gripagreiðslur fyrir mjólkurkýr. Með þeim hætti rennur opinber stuðningur í hlutfallslega meiri mæli til minni búa og opinber stuðningur út á mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks lækkar.

Tillagan borin upp með áorðnum breytingum og samþykkt með 13 atkvæðum gegn 11.

Tillaga 5.2. Kvíguskoðun

Aðalfundur landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22 -23. mars 2019 beinir því til Landsambands kúabænda að þrýsta á RML að tryggja að kvíguskoðun fari fram a.m.k. tvisvar á ári á öllum svæðum landsins.

Greinargerð: RML er fyrirtæki sem á að þjónusta bændur hvar sem er á landinu. Þrátt fyrir þetta hefur RML borið fyrir sig manneklu á ákveðnum svæðum sem skilar sér t.d. í því að kvígur á þeim svæðum eru oft dæmdar allt of seint, jafnvel þegar þær eru komnar að burði á 2. kálfi.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.3. Lyfjalög

Aðalfundur landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 22 -23. mars 2019 mótmælir harðlega framkomnum hugmyndum um að svipta dýralækna lyfsöluleyfi, enda ljóst að af hlytist verulegt óhagræði fyrir bændur við aðhlynningu og aukinn kostnað sem kemur niður á velferð dýra.

Greinargerð: Verði leyfi dýralækna til sölu dýralyfja afnumið. Mun það valda miklu óhagræði fyrir bændur sérstaklega í dreifðari byggðum þar sem víða er langt í næsta lyfsala. Niðurfelling hámarks álagningar á lyf mun valda miklum hækkunum á lyfjunum. Þetta hvorutveggja gæti komið niður á dýravelferð. Lyfjanotkun í landbúnaði á Íslandi er með því minnsta sem gerist í heiminum. Því má draga þá ályktun að núverandi fyrirkomulag hafi gagnast vel og stuðlað að ábyrgri notkun dýralyfja.

Finnur Pétursson sagði þetta þriðja tilraun til að banna dýralæknum að selja lyf.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Ekki voru allar tillögur frá nefndinni lagðar fyrir fundinn.

Framkvæmdstjóri LK Margrét Gísladóttir lagði fram ársreikning fyrir liðið ár, undirritaðan af skoðunarmönnum samtakanna. Þar kom fram að tekjur LK voru 63.607.552 auk fjármagnstekna, 3.332.686 kr. Gjöld 71.108.392 og tap ársins 4.168.158. Eigið fé í árslok 2018 er 147.300.571.
Enginn kvað sér hljóðs um ársreikning og var hann samþykktur samhljóða.

Framkvæmdastjórinn ræddi félagsaðild og úrsögn úr samtökunum lagði fram eftirfarandi tillögu um það efni: Skal umsókn um félagsaðild taka gildi frá og með næstu mánaðarmótum frá því umsókn berst til skrifstofu LK. Skal úrsögn taka gildi frá næsta uppgjöri afurðastöðva frá því úrsögn berst skrifstofu LK.Árgjald hollvina samtakanna skal vera 4.000 kr.

Samúel U. Eyjólfsson taldi rétt að 3 mánuðir liðu frá úrsögn og þar til hún tæki gildi. Breytingartillaga Samúels samþykkt samhljóða.

Framkvæmdastjóri lagði fram fjárhagsáætlun sem felur í sér að tekjur verði alls 44.600.000 og gjöld 47.280. 000 sem er tap upp á 2.680.000 kr.

Í fjárhagsáætlun er miðað við að óbreyttur hluti árgjalda fari til aðildarfélaga.

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

Pétur Diðriksson bað um orðið lagði fram tillögu sem lögð var fyrir fundinn frá Kúabændafélaginu Baulu en kom ekki úr nefnd en taldi tillöguna mikilvæga og eðlilegt að fundurinn tæki afstöðu til hennar.
Tillagan er eftirfarandi:

Samrekstur búa

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 22. og 23. 2019, beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að kanna möguleika á að nágrannabændur geti stofnað til samreksturs þrátt fyrir að búið sé að taka fyrir flutning greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila.

Greinargerð: Samrekstur í mjólkurframleiðslu getur í mörgum tilfellum verið áhugaverður möguleiki þar sem landfræðilegar aðstæður eru með þeim hætti að stækkun á búi er ekki möguleg en samrekstur með öðru býli eða býlum gæti styrkt reksturinn. Þannig gæti mjólkurframleiðsla haldið áfram á því svæði svo fremi að til samreksturs komi. Samrekstur getur skapað möguleika á að geta staðið undir uppbyggingu á nýrri rekstrareiningu þar sem stærðarhagkvæmni nýtur sín með því eignaraðilar leggja til land og framleiðslurétt á mjólk.

Ingi Björn sagði búið að loka fyrir tilflutning milli bæja og þá er best að hafa það alveg lokað.
Ingvar Björnsson og Valgerður Kristjánsdóttir mæltu með samþykkt tillögunnar.
Pétur skýrði tillöguna nánar.

Jóhann spurði hvort þetta hefði verið kannað áður en lokað var fyrir tilflutning milli bæja.
Margrét upplýsti að við breytingar sem voru gerðar hefði formaður komið athugasemdum á framfæri sem ekki var tekið tillit til.
Tillagan samþykkt með nokkrum mótatkvæðum.

 1. Önnur mál.

Jóhann Nikulásson fékk orðið og sagði þennan aðalfund vera þann 16 sem hann situr. Sagði alvarlegt, og ekki komið fyrir áður að fulltrúar væru uppnefndir fyrir skoðanir sínar. Kvótaatkvæðagreiðslan hefði ekki snúist um stuðningsgreiðslur.

Pétur Diðriksson þakkaði fyrir þar sem hann er hættur í stjórn og búinn að sitja alla fundi frá 1992 og taka þátt félagsstarfi kúabænda á margan hátt. Oft tekist á sem oftast er styrkur í félagsstarfi. Það eru forréttindi að fá að vinna fyrir stéttina. Óskaði Pétur nýrri stjórn góðs gengis.

Fundurinn þakkaði Pétri með lófaklappi auk þess sem fundarmenn stóðu á fætur.

Björgvin Gunnarsson hafnaði því að hafa uppnefnt aðra fundarmenn eða verið með dónaskap.

Arnar Árnason formaður þakkaði fulltrúum og starfsmönnum fyrir fundinn. Sérstaklega Pétri Diðrikssyni fyrir hans störf fyrir LK. Oft hefðu þeir tekist á um málefni kúabænda en niðurstaðan væri skýr, af honum hefði hann mikið lært og frábært að hafa fengið að vinna með honum.

Að þessum orðum loknum sleit formaður fundi kl. 18 og óskaði öllum góðrar heimferðar.

Sigurgeir B. Hreinsson, fundarritari.